29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

12. mál, fjárlög 1947

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Gott kvöld. Hv. þm. Siglf., sem talaði hér áðan, vék að byggingu síldarverksmiðjanna á Norðurlandi. Það má að vísu segja um þær, að þar sem engin kostnaðaráætlun hafi verið gerð, þá hafi ekki verið hægt að fara fram úr áætlun.

Á þinginu 1944 var samþ. heimild fyrir 20 millj. kr. til þessara síldarverksmiðja, og í apríl 1946 var þessi ábyrgð hækkuð upp í 27 millj. kr., og þá sagði þessi hv. þm. í grg. fyrir frv., orðrétt:

„Framkvæmdir eru nú það vel á veg komnar, að nokkurn veginn má sjá, hver byggingarkostnaðurinn verður. Má ætla, að til þess, að unnt verði að ljúka byggingarframkvæmdum bæði í Höfðakaupstað og Siglufirði, þurfi að hækka lántökuheimild ríkisstj. úr 20 millj. kr. upp í 27 millj kr.“

Þetta var í aprílmánuði 1946, en í nóvember 1946 er flutt frv. um hækkun upp í 38 millj., og nú er komið upp úr dúrnum, að þessar framkvæmdir muni kosta a.m.k. 43 millj. kr., og svo á það víst að bæta úr, að engin kostnaðaráætlun hafi verið gerð. Annars er öll sú framkvæmd svo, að furðu gegnir, og skal ég ekki fara út í það hér.

En til dæmis um sukkið skal ég nefna það, að hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, sagði, að verksmiðjurnar yrðu tilbúnar fyrir síldarvertíð 1946, en byggingarn., sem hann skipaði, tók til leigu húsnæði á Siglufirði til 1. júlí 1947, þannig að n. hefur verið kunnugt um, hvenær verksmiðjurnar yrðu tilbúnar.

Hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, segir, að ég hafi sagt, að þessi stjórn ætlaði að stöðva nýsköpunina. Mikil er óskammfeilnin. Það sem ég lagði áherzlu á, var, að nú þyrfti að koma í veg fyrir hrun, og ég benti á það, að núverandi stjórnarandstaða hefði skipulagsbundið unnið að því að skapa hrun og stöðva nýsköpunina.

Hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, ætti ekki að minnast á markaðsmál. Hann lét í veðri vaka, að miklir möguleikar væru á því að selja allar afurðir okkar til Rússlands og að aldrei hefði verið bjartara fram undan í markaðsmálum okkar, en nú vita allir, að þetta var ekkert annað en skrum og undirbúningur hans undir að fara úr stjórninni.

Ég held, að flestum muni nú finnast gagnrýni stjórnarandstæðinga við þessar umr. missa marks. Glöggt dæmi er það, þegar hv. 4. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, var að deila á stjórnina fyrir niðurskurð verklegra framkvæmda, og hefur hæstv. atvmrh. gert því skil. En einu get ég ekki sleppt, sem þetta snertir, fyrst hv. þm. fór að minnast á það í þessu sambandi, og það er um skólabyggingar. Á árinu 1946, en þá var hann menntmrh., var varið úr ríkissjóði til byggingar nýrra skólahúsa sem hér segir: Til húsmæðraskólabygginga 1,3 millj., til héraðs- og gagnfræðaskólabygginga 900 þús. kr., og til byggingar barnaskóla 1,7 millj. kr., eða samtals 3,9 millj. kr. Þetta var það, sem hinum mikla afreksmanni tókst að fá til þessara framkvæmda af 200 millj. kr., sem notaðar voru á því herrans ári. Í þessu fjárlagafrv., sem hann kallar niðurskurðarfjárl. er ætlað til þessara mála: Til húsmæðraskólabygginga 1,275 millj., til héraðs- og gagnfræðaskólabygginga 4,250 millj. og til byggingar barnaskóla 3,8 millj. eða samtals 9,325 millj. kr. á móti 3,9 millj. Samt er það svo, þótt þessar fjárveitingar hafi þannig verið hækkaðar svo stórkostlega frá því, sem þær voru í tíð Brynjólfs Bjarnasonar, þá verður hin mesta fjárþröng til skólabygginga á yfirstandandi ári og sennilega á næstu missirum. Og þessa fjárþröng geta menn fyrst og fremst þakkað skörungsskap og röggsemi Brynjólfs Bjarnasonar á árinu 1946 eða hitt þó heldur, þegar hann sætti sig við svo lágar fjárveitingar til þessara mála, að ríkissjóður dregur á eftir sér skuldahalann út af skólabyggingum frá þeim tíma, og mun gera það um ófyrirsjáanlega framtíð. Af þessari röggsemi hv. þm. verða menn að súpa seyðið á næstunni. Viðskilnaðurinn í þessum efnum er mjög í stíl við það, sem er í öðrum efnum.

Það er fróðlegt og skemmtilegt að heyra, þegar kommúnistar eru að afsaka framkomu sina á undanförnum árum. Formaður flokksins, Brynjólfur Bjarnason, komst svo að orði í gærkvöld, að kallað hefði verið saman flokksþing Sósfl. s.l. haust og gerðar ályktanir um, að ekki yrði lengur frestað að gera ráðstafanir til þess að hefta hinn taumlausa verzlunargróða og gjaldeyriseyðslu. Í þessu liggur það, að það hafi mátt fresta þessu fram að þeim tíma. Þegar menn nú vita, hvernig ástatt er í gjaldeyris- og verzlunarmálum, þá verður afstaða kommúnista þessi: Það mátti fresta ráðstöfunum til þess að hefta taumlausa gjaldeyriseyðslu, þangað til allar gjaldeyrisinnstæður voru búnar. Þá var tímabært að gera ráðstafanir gegn gjaldeyriseyðslunni. Það mátti fresta því að gera ráðstafanir til þess að hefta hinn taumlausa verzlunargróða, á meðan inn í landið voru fluttar vörur fyrir 1 milljarð á tveimur árum. Það má nú segja um þennan kattarþvott, að margt er lagt á fylgismenn Sósfl., og ekki sízt, þegar þar við bætist, að það hefur aldrei staðið til, að Sósfl. gerði það að nokkru aðalatriði í afstöðu sinni til stjórnarmyndunar og löggjafar að hefta taumlausan verzlunargróða og gjaldeyriseyðslu. Það sést á því, að fyrrverandi stjórnarsamstarf sprakk ekki á því. Þeim var vel vært með það allt, og það sést einnig á því, að það stóð ekki til að gera það að slitaskilyrði í sambandi við stjórnarmyndunarsamninga, sem kommúnistar áttu þátt í í vetur. Það er margupplýst og vottað.

Það vottar ekki fyrir því, að nokkurn botn sé að finna í ræðuhöldum kommúnista, enda ber vist ekki að gera kröfur til þess. Þeir látast ekki sjá það, að allar gjaldeyrisinnstæðurnar eru búnar. Þeir segja mönnum að loka augunum fyrir því ósamræmi, sem orðið er milli söluverðs afurðanna. og þess, sem menn verða að fá fyrir vinnu sína við fiskinn vegna dýrtíðar og verðbólgu í landinu. Hvað varðar þá um það, þótt ríkisútgjöldin séu komin langt yfir 200 milljónir kr., vísitalan í 310 stig. milljónatugum þurfi að verja til þess að halda henni þar og von sé á milljónatuga tjóni vegna fiskábyrgðarinnar? Það vottar ekki fyrir nokkrum till. frá þeim, sem nokkur vitglóra er í, um það, hvernig mæta eigi þessu ástandi. Ekkert er þar að hafa nema hvatningar til manna um að gera þetta ástand enn verra.

Það verður þó að segja kommúnistum eitt til viðurkenningar, þeir finna tómahljóð í þessu og að það vantar tilfinnanlega hlekk í keðjuna. Þessi hlekkur hefur því verið smíðaður, og var gripurinn sýndur í gærkvöld. Hv. 4. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, flutti hér lausnarorðið í gær, og fólst það í þessari kenningu hans: Viðskiptasamningar fara eftir því, hvort menn vilja fá gott verð. Og svo fylgdi langur lestur um samningana við Rússland. Nú er ætlunin þessi: Næstu misseri á heill stjórnmálaflokkur á Íslandi - Kommúnistafl. — að lifa á þjóðsögunni um vondu mennina, sem ekki vildu selja fiskinn háu verði, þótt það væri hægt. Hvers vegna ekki? spyrja víst margir. Af því að þeir vilja búa til kreppu og steypa þjóð sinni í fátækt og eymd. Þannig hljóðar svarið.

Hv. 4. landsk.. Brynjólfur Bjarnason, var að dylgja um, að það vært ekki von, að Rússar gætu keypt afurðir af Íslendingum hæsta verði, þar sem Íslendingar sendu Björn Ólafsson og þess háttar menn, en aðrar þjóðir ráðherra, og þar sem til Rússlands væru sendir menn. sem hefðu deilt á Sovétskipulagið og stæðu að blöðum, sem slíkt hefðu gert fyrr, og síðan loks að utanrrh. landsins hefði deilt á Rússa á Alþ.

Ósköp er nú að heyra greindan mann tala svona. Það er nú meiri mæðan, og langt getur ofstopinn leitt.

Út af þessu tali hv. 4. landsk., Brynjólfs Bjarnasonar, um blaðaskrif, ræðuhöld og gagnrýni á stjórnmálastefnur annars vegar og viðskiptasamninga hins vegar er rétt að spyrja hann og hans félaga: Hefur ekki hann og margir aðrir kommúnistar gert það að ævistarfi sínu að bera róg og níð á Breta og Bandaríkjamenn og bera stjórnendum þeirra þjóða á brýn öll hin verstu afbrot? Notar hann og þeir félagar ekki málgagn sitt álíka mikið til þessarar iðju og til þess að hlaða svívirðingum að andstæðingum sínum innan lands? Hafa ekki Bretar um áratugi verið aðalviðskiptaþjóð Íslendinga, og keyptu Bandaríkjamenn ekki nær allar afurðir Íslendinga á styrjaldarárunum, og hefur ekki verið ætlunin að byggja m.a. á viðskiptum við þessar þjóðir framvegis?

Eftir ræður þeirra hv. 4. landsk., Brynjólfs Bjarnasonar, og hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar, spyrja menn: Hafa kommúnistar haldið uppi árásum sínum á Breta og Bandaríkjamenn til þess að spilla viðskiptum við þessar þjóðir? Og menn minnast þess, að þeir kumpánar, sem þessa iðju stunda, hafa talið sig gjaldgenga í ríkisstjórn og í samninganefndir við þessar sömu þjóðir. Hefur ekki einn af þeim mönnum, sem standa að rógsiðju Þjóðviljans gegn Bretum, t.d. setið í samninganefnd í London á þriðja mánuð, og hafa kommúnistar ekki tranað sér fram í viðskiptanefndir, sem sendar hafa verið til Bretlands og annarra þjóða, sem þeir hafa beinlínis ofsótt? Eftir að hafa heyrt skoðanir 4. landsk., Brynjólfs Bjarnasonar, á því, hvernig menn eigi að haga sér til þess að geta fengið gott verð fyrir fisk, þá væri fróðlegt að heyra, í hvaða skyni hans menn hafa verið að fara í samninga til þeirra landa, sem ég áðan nefndi.

Ég sé ekki betur, en að Brynjólfur Bjarnason eigi aðeins einn tækan kost, og hann er sá að koma hér og taka þetta slúður sitt um rússnesku samningana, pólitík og fisksölu til baka. Geri hann það ekki, þá verður að líta svo á, þótt undarlegt megi virðast, að hann hafi meint það, sem hann sagði í gærkvöld, en þá játar hann þar með á sig og sína menn, að þeir hafi gert og geri allt, sem að þeirra dómi sé bezt fallið til þess að spilla fyrir verzlunarhagsmunum Íslendinga í Bretlandi og Bandaríkjunum. Á þennan hátt lenda þeir í vandræðum, sem fara að búa til þjóðsögur án þess að vera skáld.

Lítum svo á, hvaða sökum Brynjólfur Bjarnason ber Rússa með dylgjum sínum um samninga við þá. Hann dylgjar um, að Rússar vilji ekki gera eðlilega verzlunar- og viðskiptasamninga, ef þessi eða hinn komi þar nærri, sem gagnrýnt hafi framkomu þeirra. Hann dylgjar um, að Rússum muni ekki nægja það eitt að fá vörur fyrir peninga sina, heldur vilji þeir einnig tryggja sér það í leiðinni, að framkoma þeirra í pólitík sé ekki gagnrýnd og að það sé einhver viss manntegund, sem verði að annast samninga, til þess að árangurs sé að vænta. — Hefur hv. þm. athugað, hvað hann er að bera Rússum á brýn með þessu skrafi sínu? Það er full ástæða til að beina því til manna, að það er sjálfsagt mjög hæpið, að það sé viðeigandi, að einstakir þm. taki sér fyrir hendur að gera erlendum ríkjum slíkar getsakir, sem Brynjólfur Bjarnason hefur látið sér sæma að gera í þessu sambandi. Allir vita nú, hvern hug Brynjólfur Bjarnason ber til Sovétríkjanna og að hann vill vera þeim hollur í einu og öllu, en ég held, að Rússar mættu í þessu sambandi biðja um varðveizlu fyrir vinum sínum.

Þegar skynsamir menn eru komnir út í að byggja afstöðu sína í þýðingarmestu þjóðmálum á öðrum eins þvættingi og Brynjólfur Bjarnason flutti hér um afurðasölumálið, þá eru þeir komnir í meira, en lítinn vanda. Til svona málflutnings er ekki gripið fyrr, en í síðustu lög. Það er kannske hægt að bjóða mönnum upp á svona fæðu í sellum kommúnista, en er það nú ekki til of mikils mælzt að fara fram á það við hugsandi menn — og það heila þjóð, þótt eigi sé hún fjölmenn —, að hún byggi stefnu sína í atvinnu- og fjármálum á þessum hugarórum kommúnista? Sjálfir vita þeir, að þetta er tóm endaleysa. Hvers vegna eru þeir þá að ætlast til, að aðrir byggi á þessu?

Kommúnistar hafa verið klemmdir upp í horn, og þeir eiga sér ekki útgöngudyr, og þess vegna er það, að þeir í vandræðum sínum búa til þjóðsöguna um vondu mennina, sem ekki vilja selja fiskinn með háa verðinu, af því að þá langar svo til þess að sveita landsmenn sína, og um stóru þjóðina, sem einstaka menn tala svo illa um, að það er ekki von, að hún geti borgað eins vel fyrir verzlunarvörur litlu þjóðarinnar og verið gæti, ef „réttir“ menn hefðu með höndum málefni litlu þjóðarinnar. Og svo stórfelld eru vandræðin, að það er ekki hægt að horfa í það, þótt þjóðsagan feli í sér órökstuddar dylgjur og getsakir í garð einmitt þeirrar þjóðar, sem höfundar hennar vilja eiga vinbezt við. Má þar um segja: Ekki sér hann sína menn, svo hann ber þá líka.