29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

12. mál, fjárlög 1947

Finnur Jónsson:

2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, er sífellt að hefja fyrrv. ríkisstj. upp til skýjanna. Ég tek þessum lofsöng með þökkum sem einn af ráðherrum fyrrv. ríkisstj., en jafnframt verð ég að gera þá játningu, að ég styð núverandi ríkisstj. á þeim grundvelli. að hún sé nýsköpunarstjórn og haldi áfram starfi fyrrv. stjórnar, þar sem hún hætti.

Ég tel, að hinar ósvífnu aðdróttanir kommúnista til núverandi hæstv. ríkisstj. séu af því einu sprottnar, að þeir eiga engan fulltrúa í ríkisstj.

Með starfi og sívaxandi áhrifum Alþfl. á undanförnum árum hefur tekizt að afla alþýðu þessa lands þeirra mannréttinda og lífskjara, sem hún á nú við að búa. Þetta hefur gerzt í samvinnu og með samningum við aðra flokka, þannig að þrátt fyrir það að áhrifa Alþfl. gætti lítið í fyrstu, ná þau nú langt inn í fylkingar annarra flokka. Mörg áhugamál, sem Alþfl. flutti fyrstur allra og barðist einn fyrir árum saman, eru nú orðin áhugamál flestra hugsandi manna hér á landi úr öllum flokkum.

Margt er enn óunnið, en þó hefur baráttan gegn atvinnuleysi, fátækt og menntunarskorti borið glæsilegan árangur. Stórstigum framkvæmdum var á komið í tíð fyrrv. ríkisstj. Launalög voru sett, lög um opinbera aðstoð við íbúðarhúsabyggingar, skólalöggjöf og margt fleira.

Þetta gerðist allt fyrir síðustu kosningar. Með þessari löggjöf um mannréttindi og framfarir og með innkaupum skipa og véla var stefnt að því að tryggja það, að baráttan gegn atvinnuleysinu, fátæktinni og menntunarskortinum bæri varanlegan árangur. Eftir var þó að útvega fé í ríkissjóð til þess að greiða hin auknu útgjöld vegna alþýðutrygginganna og menntamálanna. Eftir var að útvega fé til þess að framkvæma l. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í þeim mæli, sem þörf er á og l. segja fyrir um, þótt þau hafi þegar komið að verulegum notum. Eftir var og að útvega fé til stofnlánadeildar, svo að nýsköpunin kæmi að fullum notum. Þarna voru verkefni fyrir flokka þá, sem bundizt höfðu samtökum um ríkisstj. til þess að fá framangreind lög sett á Alþ. Það var skylda þeirra við þjóðina að leysa þessi verkefni, það voru svik að víkja sér undan því.

Fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, var þetta ljóst. Hann gerði ítrekaða tilraun til þess að fá fyrrv. stjórnarflokka til þess að sameinast um þetta. Hann kallaði þáverandi ráðh. saman á stjórnarfund í septembermánuði s.l. Hann taldi upp verkefnin, sem fyrir lágu, og skoraði á flokkana að efna loforð sín við þjóðina og gera til þess nýtt átak. Við alþýðuflokksmenn vorum þegar reiðubúnir til þess að ganga til samninga um þessi mál. Við vildum treysta grundvöll hinnar nýsettu félagsréttindalöggjafar og koma nýbyggingunum í framkvæmd með fjárútvegun, en ráðherrar kommúnista neituðu og svöruðu því einu, að þeir væru ekki til viðtals um úrlausn neinna innanlands vandamála, meðan ekki væri gengið frá flugvallarsamningnum við Bandaríkin.

Það er vert fyrir alþýðu manna til sjávar og sveita að festa sér þessi svör kommúnista rækilega í minni. Með þessu brugðust þeir gersamlega alþýðunni á Íslandi. Þeir neituðu að vinna að lausn vandamálanna. Réttindalöggjöfin og nýsköpunin hefði lítið orðið annað en skrípamynd, ef þeir hefðu mátt ráða.

Síðan kom hin langa stjórnarkreppa, sem ég tel eigi þörf á að rekja. Kommúnistafl. skipti sér í tvo hópa, sem töluðu við menn úr hinum flokkunum til skiptis og létu líklega um stjórnarmyndun við alla til þess að viðhalda glundroðanum, og Alþ. var óstarfhæft þangað til í byrjun febrúarmánaðar, að núverandi ríkisstj. var mynduð fyrir forgöngu formanns Alþfl. og með aðstoð annarra manna, sem sáu, að hið unga lýðveldi flaut að feigðarósi, ef ekki tækist að mynda ríkisstj.

Með neitun sinni um að vinna að því að koma nýsköpuninni á fastan fjárhagsgrundvöll og útvega fé í ríkissjóð til þess að standa straum af þeim mikilsverðustu lögum, sem sett hafa verið, síðan Alþ. var stofnað, hafa þeir, sem stjórna Kommúnistafl., enn á ný sannað, svo að eigi verður í móti mælt, að þeir berjast ekki fyrir hagsmunum íslenzkrar alþýðu. Það er allt annað, sem ræður gerðum þeirra. Erlent herveldi á þar trúa þjóna, sem eru reiðubúnir til að fórna þriggja áratuga baráttu hinnar íslenzku alþýðu og hagsmunum hennar fyrir ímyndaða hagsmuni þess. Þurfa kjósendur þessa flokks, sem hafa látið blekkjast til fylgis við hann illu heilli og undir fölskum forsendum, framar vitnanna við?

Mér var, meðan ég átti sæti í fyrrv. ríkisstj., ánægja að því að vinna að stefnuskrá stjórnarinnar. Ég varð þó oft fyrir vonbrigðum, einkum af samstarfi við ráðherra kommúnista. Ég sé eigi ástæðu til að rekja það hér til hlítar, en það, sem mér fannst mest áberandi, var hið fullkomna virðingarleysi þeirra fyrir hugsjónum flokks síns og hagsmunum alþýðunnar, þegar fjárhagslegir hagsmunir flokks þeirra voru annars vegar, og hins vegar algert kæruleysi þeirra um öll fjármál ríkisins, og einkum skaraði hv. þm. Siglf., Áki Jakobsson, fram úr í þeim efnum. Er þetta öllum augljóst, og komst kunnugur maður svo að orði, að hann, Áki Jakobsson, meðhöndlaði fé ríkissjóðs jafnan eins og hann væri að fara með fé versta óvinar síns. Bera smáar og stórar ráðstafanir þessa þm., meðan hann sat í ríkisstj., þessu órækt vitni. Af hinum smáu ráðstöfunum má nefna sendiförina til Póllands, sem kostaði 100 þúsund krónur og bar þann árangur einan, að upplýst var, að vonir væru til, að Pólverjar vildu kaupa 1.600 hryssur. Hryssurnar áttu allar að vera jarpar að lit og nokkru stærri, en til eru með íslenzku vaxtarlagi. Af hinum stóru ráðstöfunum hafa verið nefndar nýju síldarverksmiðjurnar. Þær voru, svo sem kunnugt er, ekki tilbúnar fyrir síðustu síldarvertíð samkvæmt upplýsingum byggingarnefndar sjálfrar, hvað svo sem líður hinum ósönnu staðhæfingum Áka Jakobssonar. En með óhagsýnni byggingaraðferð hefur þm. Siglf. lagt margra milljóna króna skatt á sjómenn og útgerðarmenn.

Þessi hv. þm. gerði að umtalsefni þrjár ferðir, sem hann sagði, að ég hefði farið til útlanda á ríkiskostnað á árinu 1945, og vildi bera saman við sínar ferðir heim í kjördæmið og til Sandgerðis. Mínar ferðir voru að vísu ekki nema tvær, þar af önnur í einkaerindum, og skorti mig hugkvæmni Áka Jakobssonar til þess að láta ríkissjóð borga hana. Hin ferðin kostaði ríkið álíka og ein Siglufjarðarferð þm. Siglf. Hv. þm. sagði, að ég mundi hafa keypt hraðbátana svonefndu í einni af ferðum mínum. Þetta er ekki rétt, en hvað sem því líður, reyndust bátarnir ekki hæfir eftir þeim kröfum, sem gerðar eru hér til varaskipa. Þeim var skilað og andvirðið endurgreitt. Hús þm. Siglf., mjölhúsið fræga á Siglufirði, er hins vegar hrunið, og það hrynur daglega meira og meira, húsið er ónýtt, og undirstaða þess er ónýtt. Þegar Áki Jakobsson skilar andvirði þess í ríkissjóð, skal hann gera samanburð á mjölhúsinu og varðbátunum.

Annars var öll ræða hans, eins og hlustendur hafa heyrt, byggð upp eins og mjölhúsið. Stoðirnar voru ónýtar, sperrurnar voru ónýtar og undirstaðan var ónýt. Þess vegna hrundi ræðan ofan á ræðumann sjálfan eins og mjölhúsið.

Áður en ég skil við þm. Siglf., vil ég taka fram, að fjmrh., formaður nýbyggingarráðs, hefur beðið mig að upplýsa, að nýbyggingarráð hefur aldrei beðið Áka Jakobsson að kaupa eina spýtu né hann haft samband við nýbyggingarráð um hin umræddu eikarkaup.

Vegna fjármálaafglapa ráðh, kommúnista, vegna glundroðans, sem ríkti á Alþ., og vegna þeirra mörgu verkefna, sem biðu úrlausnar. var mér því mikill léttir, þegar núverandi ríkisstj. var mynduð. Ég ber hið bezta traust til núverandi ríkisstj. Þar er valinn maður í hverju rúmi, að öðrum ólöstuðum, og málefnasamningurinn mjög viðunandi. Þessarar ríkisstj. bíða mörg vandamál og þá fyrst og fremst þau, að bæta úr því, sem fyrrv. ríkisstj. átti ógert, vegna þess að kommúnistar brugðust gersamlega skyldum við alþýðu þessa lands.

Það, sem þegar hefur gerzt, gefur góðar vonir um, að þetta takist. Verið er að afgreiða fjárlög, þar sem séð er fyrir tekjum til þess að mæta hinum auknu útgjöldum vegna launalaganna, nýju fræðslulaganna og hinum stórkostlegu réttarbótum vegna laganna um almannatryggingar, án þess að ríkið safni skuldum þess vegna. En þrátt fyrir þetta er í fjárlagafrv. þessu áætlað að verja meira fé til verklegra framkvæmda heldur en nokkru sinni áður. Ríkisstj. og Alþ. hafa þannig þegar gert sitt til að bæta úr svikum kommúnista og halda uppi löggjöf þeirri, er sett hefur verið á undanförnum þingum til þess að tryggja afkomu, réttindi og frelsi landsmanna og atvinnu handa öllum.

Enn er eftir að framkvæma ýmislegt, svo sem sjá fyrir fé til húsabygginga samkvæmt áður nefndum lögum og fé til stofnlánadeildar sjávarútvegsins. svo að nýsköpunin geti haldið áfram, svo sem áætlað hefur verið og áætlað verður. En allt, sem þegar hefur verið gert, og allt, sem áætlað er að gera, miðar að því að halda uppi og bæta þau lífskjör, sem alþýða manna hér í landinu nú hefur, tryggja atvinnu handa öllum og festa þá mannréttindalöggjöf, sem þegar hefur verið sett, með það fyrir augum að bæta hana síðar.

Þessi áform hæstv. ríkisstj. eru kommúnistaforsprökkunum þyrnir í augum. Þeir óttast, að þau heppnist. Þeir vilja láta menn halda, að ekki sé unnt að stjórna landinu án þeirra. Þess vegna reyna þeir nú að æsa til pólitískra verkfalla. Þeir hafa stjórn alþýðusambandsins á valdi sínu, og nú ætla þeir að nota hinn mikla aga og tryggð, sem verkafólk víðs vegar um landið ber til sambandsins frá gömlum tímum, flokki sínum til framdráttar, til þess að ónýta hin mikilvægu störf ríkisstj. og þar með spilla lífskjörum alls almennings í landinu.

Það er öllum kunnugt, að vegna hinnar miklu dýrtíðar í landinu eru miklir erfiðleikar á að selja afurðir sjávarútvegsins til útlanda fyrir það verð, sem fyrir þær þarf að fást, svo að unnt sé að halda atvinnuvegunum áfram. Öll afkoma landsmanna er þó undir því komin, að það takist. Ný verkföll og ný hækkun á dýrtíðinni mundi skapa atvinnuleysi og stofna núverandi lífskjörum almennings, nýsköpuninni og mannréttindamálum hans í hættu. Þess vegna vil ég skora fastlega á alla, sem mál mitt heyra, alla samherja og aðra úr verkalýðshreyfingunni, sem þátt hafa tekið í frelsis- og mannréttindabaráttu verkalýðsins og unna henni framar öllu, að ræða þessi mál og athuga gaumgæfilega, fylkja sér gegn skemmdarstarfsemi kommúnista og afstýra á þann hátt hinu ábyrgðarlausa pólitíska verkfallsbrölti þeirra.

Verkalýðssamtökin eiga að vinna fyrir hagsmuni hinna vinnandi stétta, en ekki fyrir pólitíska sérhagsmuni Kommúnistafl. Þá ná þau sínum tilgangi: að varðveita velmegun alþýðunnar í landinu.