29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

12. mál, fjárlög 1947

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Við hv. þm. G-K., fyrrv. samstarfsmann minn, vil ég segja það um stjórnarskiptin, að hann veit eins vel og ég, að það var eingöngu vegna þess, að sósíalistar lýstu yfir, að við gerðum það að fráfararatriði, ef gerðir yrðu samningar við Bandaríkin um herstöðvar. Annars hélt þessi hv. þm. að ýmsu leyti prýðilega ræðu, því að þar voru hraktar af venjulegum skörungsskap ýmsar vitleysur í kjarna þess, sem stjórnarliðar hafa haldið fram við þessa umr.

Út af árásarræðu hæstv. samgmrh. á þá, sem vilja gera verzlunarsamning við Sovétríkin, vil ég segja það, að hv. þm. hefur tekið þessa ræðu upp úr þskj., svo að ekki er hægt að vitna í hana orðrétt. Hann kærir sig ekki um, að ræðan liggi á glámbekk, og er það eðlilegt.

Út af spurningu hæstv. menntmrh. um það, hvort ég hafi ekki borið róg á Bandaríkin, vil ég svara því, að ég hef aldrei verið utanrrh., en ég tel mig aldrei hafa borið róg á þau og hef heldur aldrei ætlað í styrjöld gegn þeim og hef aldrei afhent Rússum herstöðvar til að fara í stríð gegn Bandaríkjunum, og ef ég hefði gert þetta, þá væri tilgangslaust að fela mér að gera verzlunarsamninga við Bandaríkin.

Hæstv. utanrrh. bar sig illa undan því, hversu sár ádeila okkar sósíalista hefði verið. Sérstaklega kvartaði hann sárt undan því, að frá því skuli hafa verið skýrt, að Bandaríkin skuli hafa fengið hér herstöðvar, sem stefnt er gegn Sovétríkjunum. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að biðjast vægðar eða beiðast undan því, að skýrt sé frá óhappaverkum hans, sem eru landinu til tjóns. En til að bjarga hagsmunum Íslands er ekkert annað ráð, en að losna við manninn sjálfan. Í öðru orðinu ásakaði hæstv. ráðh. okkur fyrir að hlaupa úr stj., en í hinu orðinu fyrir að vilja tala við menn, sem hafa gert flugvallarsamninginn. Hann réðst harkalega á okkur fyrir að vilja tala við Framsfl. um stjórnmál, en sjálfan klígjar hann ekki ekki við að sitja með þeim í stj. Hæstv. ráðh. situr nú sjálfur í stj. með versta afturhaldinu í Framsókn.

Hæstv. samgmrh. stærir sig af ýmsum framkvæmdum, sem gerðar hafi verið. Það er bezt að minna hann á það, að það hefði engin nýsköpunarstjórn verið mynduð, ef hæstv. núverandi forsrh. og aðrir slíkir hefðu fengið að ráða. Þá hefðu engin launal. komið, engar alþýðutryggingar, engin nýsköpun.

Það er allt rangt, sem hæstv. forsrh. hélt fram, að sósíalistar hefðu viljað, að Rússar fengju herstöðvar á Svalbarða. Yfirleitt hafa blöð okkar lýst sig andstæð öllum herstöðvum í norðurhöfum. Það er líka rangt, að norskir kommúnistar hafi viljað herstöðvar á Svalbarða. Ég hef undir höndum bréf, sem er undirskrifað af hæstv. forsrh., þar sem hann mælir með því, að Svíar fái hér landhelgisrétt, enda hefur bréfið verið birt, svo að það þýðir ekki að mótmæla því. Hæstv. forsrh. seldi sjálfum sér og nokkrum félögum sínum eignir verklýðsfélaganna, sem voru margra milljóna virði, fyrir 100 þús. kr. Hann segir, að hæstiréttur sýkni hann fyrir þetta. Ég skal ekki segja um það, en verknaðurinn er hinn sami fyrir það.

Þeir ráðh., Bjarni Benediktsson og Eysteinn Jónsson, segja, að ég hafi kallað hæstv. forsrh. landráðamann og stórþjóf. Þetta er misskilningur, ég sagði ekkert slíkt. Það voru aðeins þessir hæstv. ráðh.. sem drógu þessar ályktanir af orðum mínum. Ég nefndi aðeins nokkrar staðreyndir, sem standa allar óhaggaðar. og ég get ekki gert að því, þó að þessir hæstv. ráðh. dragi þá ályktun af þeim, að hæstv. forsrh. sé landráðamaður og stórþjófur.

Hæstv. stj. stærir sig af því. að þessi fjárl. séu hærri en fjárl. undanfarandi ára. Þetta fjárlagafrv. er undirbúið af fráfarandi stj. Það eina, sem núverandi stj. hefur gert, er að lækka framlög til verklegra framkvæmda um 15% og láta allar ólögbundnar greiðslur niður falla, ef henni sýnist svo. Þetta er þó aðeins byrjunin. Hæstv. menntmrh. sagði, að nú yrði almenningur að vera við því búinn að taka á sig miklar fórnir. Hinum glæsilegu horfum í afurðasölumálunum hefur hæstv. stj. tekizt að spilla svo, að ekki er séð fyrir afleiðingarnar. Í staðinn fyrir að draga úr dýrtíðinni er vöruverð stórhækkað af verðlagsráði. Komið hefur verið í veg fyrir, að álagning væri lækkuð, og hafa ráðh. Alþfl. þar gengið fram fyrir skjöldu. Allt eru þetta staðreyndir, sem hæstv. ríkisstj. getur ekki mælt á móti.

Hæstv. fjmrh. reyndi að mæla móti rökum þeim, er ég færði fram um tollahækkunina. Það er þó staðreynd, að þessi tollur sé hátt á 18. hundrað á 5 manna fjölskyldu. Ef laun verkamanns eru 20 þús., þá er það 9% af launum manns. Og ef tollahækkunin er yfir 45 millj. kr. og ef íbúar landsins eru 130 þús., þá er dæmið rétt. Svo var hæstv. ráðh. að vitna í ummæli og tölur frá hagstofustjóra, en ummæli hans hagga ekki rökum mínum, heldur staðfesta þau. Hann segir að vísu, að tollahækkunin valdi 2% hækkun. Það þýðir það, að þessi 2% ganga inn í vísitöluna, en hinum 7% er svo mætt með niðurgreiðslunum, en þær verða menn að borga með nýjum álögum.

Hæstv. menntmrh. sagði, að nú stæðum við á gljúfurbarmi og lagði út af því. Þetta er sama og hann sagði 1943. Þá horfðust menn í augu við algerða stöðvun. Hvað gengur að manninum? Afurðirnar hafa aldrei selzt eins háu verði, við höfum aldrei ráðið yfir eins miklu fjármagni, og milljónamæringar vaxa upp eins og gorkúlur. Samt stöndum við á barmi gljúfursins. Síðan hann fór að skipta sér af stjórnmálum. hefur hann aldrei sagt annað en þetta, við stæðum á gljúfursbarmi, allt væri að fara í strand, við yrðum að draga saman seglin, lækka tekjur almennings og umfram allt að stórlækka laun, hrunið væri í nánd og nú yrðu allir að færa fórnir. Þessar kröfur eru gerðar til almennings, meðan aðrir hafa velt sér í milljónum, en verkamaðurinn og bóndinn, sem hafa innan við 20 þús. kr. árstekjur, eiga að þakka fyrir að mega taka að sér byrðarnar, en það má ekki skerða hár á höfði milljónamæringanna. Það bólar ekki á eignakönnuninni. og hvernig á að framkvæma hana, má marka af því, að hún á ekki að gefa neinar tekjur.

Hæstv. ráðh. heldur fram þeirri nýju kenningu, að hinir nýju tollar komi harðast niður á þeim ríku. Hingað til hefur verið haldið, að þeir lentu harðast á þeim fátæku. Í hverra þjónustu eru slíkir menn sem þessi hæstv. ráðh.? Í slíkum manni á íslenzka auðmannastéttin dyggan þjón.

Þessi spámaður hrunstefnunnar var við stjórn á kreppuárunum. 1942 vildi hann aftur taka forustuna og gerði þá að skilyrði allsherjarlaunalækkun. 1944 var boðskapur hans sá, að það væri glapræða að kaupa nýja togara, heldur ætti að lána innstæður okkar erlendis og lækka grunnlaun launamanna. Þessu hélt hann fram þá í sambandi við skrif Jóns Árnasonar í Samvinnunni og Tímanum 1944. Ef þessir foringjar framsóknarmanna hefðu fengið að ráða, hefði enginn togari verið keyptur og menn væru búnir að fá nýtt Eysteinstímabil eins og var fyrir stríð. Þá værum við ekki nú á barmi gljúfursins, heldur í gljúfrinu, og þá væri Eysteinsstefnan hér ráðandi, þjóðin fengi á sig tolla á tolla ofan og það ætti að vera ráðið til að vinna bug á dýrtíðinni. Nei, þetta verður aldrei úrræðið til að stöðva verðbólguna. Hinar vinnandi stéttir verða að fá að ráða ráðum sínum í friði fyrir nokkrum spekúlöntum, sem líta á hag auðmannanna, en ekki fjöldans, þær verða að fá að mynda stjórn, sem er fulltrúi alþýðunnar og skapar henni örugga afkomu. Góða nótt.