29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

12. mál, fjárlög 1947

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal taka það sem sýnishorn af málflutningi Brynjólfs Bjarnasonar, að hann sagði, að það eina, sem núverandi stj. hefði gert í sambandi við fjárl., væri að lækka verklegar framkvæmdir. Í því frv., sem hv. þm. útbjó, var ætlað til skólabygginga 4.300 þús. kr., en í fjárl., eins og þau eru nú, er til þess ætlað 9.300 þús. kr. Þetta er eitt dæmið um málfærslu hans.

Þá er það hv. þm. G-K. Ég held, að það sé vafasamt gagn þeim málstað, sem mest hefur verið rætt um hér í kvöld, að segja þjóðinni ekki blátt áfram, hvernig ástandið er, því að það er undirstaðan undir því, að menn geti botnað í því, sem þarf að gera. Nú kemur hann og reynir að gera þær upplýsingar, sem ég hef hér áður gefið, tortryggilegar. Hann flutti einu sinni enn ræðuna um blómann, eins og hann væri ekki búinn að halda hana nógu oft. En það þýðir ekki lengur að ætla sér að leyna þjóðina, hvernig komið er, það verður hann að gera sér ljóst. Hann hefur jafnvel vefengt upplýsingar, sem ég gaf, að allur gjaldeyrir væri þrotinn, hefði verið ráðstafað. Nægilegt svar við því er það eitt að spyrja hann, hvort hann haldi, að bankarnir séu að taka gjaldeyrislán að gamni sínu. Nei. það er þannig, að öllum gjaldeyrinum hefur verið ráðstafað. Það er ekki hægt að afsaka það, sem gert hefur verið í gjaldeyrismálunum undanfarin ár, með því, að keyptir hafi verið inn nokkrir togarar og mótorbátar. Það var hægt að gera miklu stórkostlegri hluti fyrir þann eina milljarð og 200 þús. kr., sem ráðstafað hefur verið af erlendum gjaldeyri á tveimur árum og fimm mánuðum. Minnstur hluti þess hefur farið til nýsköpunarinnar.

Um fjárhagsástand ríkisins, sem hann sagði, að hefði verið með meiri blóma, en nokkru sinni fyrr, þá verð ég vist að endurtaka það einu sinni enn, að fjárlagafrv. var skilað með 40,5 millj. kr. tekjuhalla. Ekki aðeins ég, heldur líka hæstv. fjmrh. hefur upplýst þetta. Þetta er nú allur blóminn.

Um afkomu atvinnuveganna þarf ég ekki að endurtaka, að það þarf að verja á þessu ári 35 millj. kr. til að halda vísitölunni í 310 stigum, til þess að atvinnuvegirnir geti framleitt með því að fá ríkisábyrgð fyrir verði, sem er hærra en hægt er að fá á erlendum markaði. Ég hef áður heyrt spádóma hans um, hversu bjart sé fram undan, en lítið af því hefur staðizt. M.a. höfum við hlustað á það, að aldrei hafi verið bjartara fram undan í afurðasölumálunum, en það er annað en það, sem stj. hefur orðið að reyna. Ég vil taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði í gær, að það er ógeðfellt að þurfa að heyra þetta óviðurkvæmilega gort um afrek fyrrv. ríkisstj. Það er ekkert við því að segja, að bent sé á það með rökum, sem sú hæstv. stj. hefur gert, en við megum ekki láta þann metnað verða til þess, að við horfumst ekkí í augu við vandann, það er aðalatriðið.

Að lokum vil ég segja þetta, til að rifja það upp, sem fór fram, áður en hinn nýi tónn kom inn í umr.: Kommúnistar voru við stjórn, þangað til gjaldeyririnn var búinn. Þeir samþ. útgjöld, sem útheimtu stórkostlegar tekjuhækkanir, en hlupu frá öllu, þegar þurfti að fara að afla teknanna. Þeir samþ. veltuskattinn, en tóku ekkert af milljónamæringunum. Þeir réðu í einu og öllu yfir sjávarútveginum og höfðu alla aðstöðu til að koma málum hans í gott horf, en þeir skildu þannig við hann, að samþ. varð 30% hærra verð fyrir útfluttan fisk, en hægt var að fá á erlendum markaði, til þess að flotinn kæmist á vertíð. Kommúnistum hefur farizt svo forustan í sjávarútvegsmálum fyrir útgerðarmenn og sjómenn, að hún mun kosta milljónir og aftur milljónir, svo mikið hefur sukkið verið, og á næstu árum mun verða tekið hver veit hvað mikið af diski hvers einasta sjómanns fyrir þessa ráðsmennsku þeirra.

En hvað sem líður öllum metingi okkar um afrek fyrrv. og núverandi stj., þá er nú höfuðnauðsyn að vinna vel, áður en grípa þarf til óyndisúrræða. Enginn má draga sig í hlé, og allra sízt má það þolast, að kommúnistar misnoti félagssamtökin til að halda uppi pólitískri skemmdarstarfsemi, sem þeir hafa nú í undirbúningi. Góða nótt.