29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

12. mál, fjárlög 1947

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Í þessum umr. hefur sannazt, að allar ásakanir hv. Sósfl. á stjórnina eru staðleysu stafir.

Núverandi stjórn er ekki að búa til kreppu, heldur er hún að reyna að leysa þann vanda, sem Sósfl. skorti hug til að leggja í baráttu við.

Núverandi ríkisstj. hefur ekki lagt sérstakar kvaðir á launastéttir landsmanna, heldur hefur hún með skattaálögum sínum einmitt hlíft þeim svo mikið sem unnt er, þegar inn þarf að ná jafn miklum upphæðum og raun ber vitni um.

Núverandi stjórn hefur ekki fundið upp það ráð að halda dýrtíðinni niðri með niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Sú aðferð hefur verið notuð árum saman og sósíalistar samþykktu hana, meðan þeir voru í ríkisstj., og fulltrúar þeirra voru einmitt ásamt öðrum fjvnm. nú flytjendur að tillögunni um að ætla 35 millj. úr ríkissjóði í þessu skyni, og enginn kommúnisti greiddi á Alþ. atkv. á móti þessari fjárveitingu. Ef þar er því um að ræða árás á launastéttirnar, sem ekki er, þá er Sósfl. ekki siður sekur en aðrir.

Það hefur sannazt, að þó að það hafi fallið í hlut þessarar stjórnar að fá samþ. ný tekjuaukalög fyrir ríkissjóð, þá er það ekki hennar verk, að útgjöldin eru nú svo há, að nauðsyn er á þessu. Þetta er annars vegar afleiðing verðbólgunnar, hins vegar ýmiss konar nytsemdarlöggjafar, sem sett hefur verið síðustu árin, en hefur þann galla með sínum kostum, að fjármuni verður að gjalda til að framkvæma hana.

Þó að ríkisstj. hafi beitt sér fyrir nokkrum sparnaði á sumum útgjöldum fjárlaganna frá því, sem áður var, þá er nú engu að siður meira veitt til verklegra framkvæmda, en nokkru sinni hefur verið áður.

Þá hefur sannazt, að þó að Sósfl. ávíti stjórnina fyrir of háa skatta, þá hefur enginn flokkur nokkru sinni í sögu landsins gengið lengra í útgjaldakröfum, en þessi flokkur hefur gert á þessu þingi. Þegar formaður flokksins kom inn í alþingissalinn eitt sinn, meðan á atkvgr. stóð, og vissi ekki, um hvað verið var að greiða atkv., þá spurði hann upp yfir alla: „Er það hækkunartillaga?“ Þegar því var svarað játandi, þá greiddi hann henni atkv., án þess að vita, um hvað hún var. Þarna er stefnu flokksins rétt lýst. Flokkurinn hefur verið með hverri einustu hækkunartillögu og á móti hverri einustu lækkunartillögu, annarri en að lækka framlag til elliheimilisins Grundar hér í Reykjavík. Af einhverri óskiljanlegri ástæðu var það eina málið, fyrirgreiðslan fyrir gamla fólkinu, sem Sósfl. vildi ekki styðja, heldur greiddi atkv. á móti.

Ferill Sósfl. í þessum umr. og afskiptum af málefnum þingsins er með þeim hætti, að einsdæmi er. Út yfir tekur þó, að flokkurinn hyggst nú, eftir að hann hefur orðið undir í rökræðum og atkv. á Alþ., að reyna að beita áhrifum sínum í verkalýðsfélögum landsins til að brjóta á bak aftur nauðsynlega skattalöggjöf, sem Alþ. hefur sett á lögmætan hátt.

Það hefur verið sagt, að kommúnistar réðu yfir verkalýðshreyfingunni á Íslandi og þess vegna væri nauðsynlegt að semja við þá. Þetta er ekki nema að litlu leyti rétt. Sem betur fer, þá er það enn almenningur, sem úrslitaráðin hefur.

Í frjálsu þjóðskipulagi ráða verkamenn félögum sínum gagnstætt því, þar sem kommúnisminn hefur náð öllum völdum í ríkinu. Það er að vísu rétt, að kommúnistar geta efnt til verkfalla og misbeitt aðstöðu sinni í verklýðsfélögunum á pólitískan hátt, a.m.k. um sinn. En þeir geta þetta ekki til lengdar, nema þeir fái til þess fylgi almennings.

Nú er að því komið, að almenningur verður að vakna til vitundar um skemmdarstarfsemi kommúnista. Kommúnistar ætla nú að misbeita trúnaðarstöðum sínum í verkalýðsfélögunum til að brjóta á móti lögmætum fyrirmælum Alþingis Íslendinga.

Ef almenningur lætur nota félagsskap sinn til slíkra óþurftarverka, gerist hann eigin böðull. Málin hafa nú verið skýrð og glögglega lögð fyrir almenning þessa lands.

Blekkingar kommúnista eru sundurtættar. Þeim, sem á þær trúa, er því engin vorkunn lengur, og mun svo reynast, að þeir eru færri en kommúnistar hefðu kosið.

Íslenzka þjóðin fylkir nú liði til þess að halda í heiðri lögum og lýðræði þessa lands. — Þess vegna er dómurinn kveðinn upp yfir kommúnistum. Það er flokkur þeirra, sem biður hruns, og launaðir erindrekar þeirra, sem bíða atvinnuleysis. Það er þess vegna, sem nú lætur svo ámátlega í þeim. En íslenzka þjóðin lætur þau óp ekki trufla sig, heldur sækir einhuga fram til betri tíma.