17.05.1947
Efri deild: 134. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

215. mál, flugvellir

Gísli Jónson:

Ég skal ekki skipta mér af þeirri pólitísku hlið þessa máls, heldur láta hv. frsm. meiri hl. um að svara fyrir það, en ég vil segja nokkur orð um þær breyt., sem gerðar eru í frv.

Það er föst venja, a.m.k. í þessari d., þegar verið er að ræða stór og smá mál, að venjulega eru ekki margir aðrir til að hlusta á mál manna, en frsm. meiri og minni hl., og það hvílir þá sú skylda á frsm. að taka til athugunar í sinni n. þau atriði. sem fram koma, því að þm. koma ekki að afgreiðslu málsins nema til að taka þátt í atkvgr. Það hvílir þá enn meiri skylda á þeim, sem eru í n., að athuga málin. En þegar nm. mega ekki einu sinni vera að, að vera í d. við umr. um mál, þá vil ég vænta þess, að hv. frsm. ræði um þær aths., sem ég geri, síðar við sína nm., að svo miklu leyti sem það kann að hafa ekki verið rætt í n. áður.

Fyrst vil ég spyrja: Hefur þessi breyt., sem fram kemur á þskj. 830, verið gerð í samráði við hæstv. ríkisstj.? (HV: Já.) Þá má búast við, að erfitt verði að fá því breytt.

Ég vil leyfa mér að benda á í sambandi við þetta mál, að hér virðist önnur aðferð vera viðhöfð en sú, sem tekin var upp í stjórnmálum á síðasta Alþ. Ég skal t.d. benda á í sambandi við raforkumálin, þá var því slegið föstu, að það ætti að beita í þessum málum ýtrustu lýðræðisreglum. Það var viðurkennt þá, að kjósa skyldi slík ráð til fjögurra ára hlutbundinni kosningu af Alþingi. Og það var gengið lengra, en þetta. Þessi kosning átti ekki að gilda nema til næstu almennra alþingiskosninga, svo að eftir næstu kosningar átti ný kosning að fara fram, svo að þar ríkti sama stefna og væri hverju sinni á Alþ.og meðal þjóðarinnar. Hér á að gerbreyta þessu. Mér þykir ákaflega mikið fyrir því, að hæstv. flugmrh. skuli vera með þessari brtt. Hér er ekki verið að skapa neina stefnu, heldur aðeins það, að sá, sem valdið hefur á hverjum tíma, beitir því valdi, og tel ég það mjög óheppilegt í slíku máli, og getur það eins vel komið síðar gegn þeim, sem nú beita því, áður en þeir vita. Ég mun því bera fram brtt. um að breyta frv. í það horf, sem var viðurkennt á síðasta Alþingi. að væri réttlátt.

Hér er farið inn á í brtt., að flugráðið skuli skipað fimm mönnum, hvar af þrjá á að kjósa á Alþ. Ég vil benda á það, að einmitt af því, að nú eru fjórir flokkar á Alþ., þá þýðir þetta það, að einn flokkurinn á ekki lengur fulltrúa í ráðinu, og tel ég það ekki rétt. Ég er ekki að mæla þar fyrir munn Sósfl., ég elska hann ekki svo mikið, en ég vil benda á, að þetta er ekki samkvæmt lýðræðisreglum, ef þannig er ákveðið í þessum l. og það í jafnviðkvæmu máli og þetta er, auk þess sem það er stórt fjárhagsmál annars vegar og utanríkismál og sjálfstæðismál hins vegar. Í brtt. meiri hl. er lagt til, að formaður sé skipaður til átta ára, og er það stórum til hins verra frá því, sem er í frv. Það er engin ástæða til að skipa formanninn til átta ára. þegar ráðsmennirnir eru ekki nema til fjögurra ára. Ég vil því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt., að 1. málsgr. 1. gr. orðist svo: „Sameinað Alþingi kýs hlutbundinni kosningu fimm manna flugráð til fjögurra ára í senn, og skulu að minnsta kosti tveir þeirra hafa sérþekkingu á flugmálum. Ráðherra skipar formann einn hinna kjörnu ráðsmanna. Jafnmargir varamenn skulu kosnir á sama hátt.“

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. Mér þætti eðlilegt, að hv. frsm. ræddi um þetta á ný við n., nema því aðeins, að það sé þrautrætt eða útilokað, að þessu fáist nokkuð breytt, þá er ekkert við því að segja, en það verður þá óvandari eftirleikurinn um kosningu í önnur trúnaðarráð síðar meir, ef það á að marka þá stefnu, að menn taki valdið af Alþingi. og það lengri tíma, en þeir kunna sjálfir að hafa nokkurn hlut um málin að segja, en það er það, sem verið er að gera hér.