28.11.1946
Neðri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

45. mál, menntaskólar

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Menntmn. hefur haft þetta mál til athugunar og rætt um það við menntmrh., rektor menntaskólans og fræðslumálastjóra. Þetta mál er þannig til orðið, að í l. frá síðasta þingi var svo ákveðið, að fastakennarar við menntaskólana skyldu kenna 27 st. á viku, en áður voru ekki nema 24 st. Sú breyting varð því, að skyldustundum fjölgaði um 3 á viku. Nú var það svo, að þegar skólar hófust í haust, þóttust kennarar þeir, er hér um ræðir, sviptir kjarabótum þeim, er þeir höfðu hlotið með launalögunum, þar sem vinnustundum þeirra væri fjölgað. Neituðu þeir að taka að sér nokkra kennslu fram yfir lögákveðinn stundafjölda. Vegna þess, að brýn þörf var á, að kennarar kenndu meira en lögákveðinn tíma, hófu skólastjórar viðræður við menntmrh. og ríkisstj. í heild. Niðurstaðan af þessum umr. varð sú, að ríkisstj. lofaði að beita sér fyrir leiðréttingu á þessu. það er þessi leiðrétting, sem lögð er fyrir Alþ. í þessu frv.

Aðalatriðið er, að menntaskólarnir hefðu komizt í þrot, ef ekki hefði fengizt það loforð frá ríkisstj., sem liggur að baki þessu frv. það hefur verið skortur á menntaskólakennurum í landinu. og er þess vegna nauðsynlegt, að þeir menn, sem við skólana starfa, taki að sér verulega aukakennslu. Og þetta frv. er borið fram til þess að leysa verulegan vanda, sem skólarnir voru komnir í í þessu sambandi. og hefur fengizt samkomulag um lausn málsins. það er tekið fram í þessu frv., að kennurum við menntaskólana skuli vera skylt að kenna 24–27 kennslustundir á viku, en fækka megi kennslustundum kennara við menntaskóla niður í 22 stundir á viku, er hann verður 55 ára, og í 17, er hann verður 80 ára. — Þetta var í frv. bundið við 27 skyldukennslustundir. en það er ætlazt til, að þetta verði í framkvæmdinni þannig, að kennslustundum á viku fækki um eina stund á fimm ára fresti. þannig að kennarar verði eftir 15 ára kennslustarf komnir niður í 24 skyldukennslustundir á viku. Þetta er dálítið þýðingarmikið atriði. — Ætla mætti, eins og þetta er orðað hér í frv., að það lægi á valdi skólastjóra eða ráðh. að kveða á um það, hversu margar kennslustundir hverjum kennara væri skylt að kenna á viku. En það er samt ekki meiningin með þessu orðalagi, heldur hitt, að gert er ráð fyrir, að skyldukennslustundafjöldi hvers kennara lækki um eina stund á fimm ára fresti, eins og ég gat um. Þó er gert ráð fyrir því, að kennsluskylda núverandi kennara haldist óbreytt frá því, sem nú er ákveðið.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið. Menntmn. hefur litið sömu augum á þetta mál eins og hæstv. ríkisstj., en hæstv. ríkisstj. var öll sammála um, að það yrði að leysa þetta mál. Við í menntmn. höfum ekki séð okkur annað fært en mæla með frv. í viðurkenningu þess, að það eru ekki nægir kennslukraftar við menntaskólana, ef kennarar þar vilja ekki kenna nema lögákveðinn tíma eftir þeim l., sem samþ. voru í fyrra. Þess vegna er það knýjandi nauðsyn að fá þessu breytt og fá samkomulag við kennarana um þetta atriði. — Menntmn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.