17.05.1947
Efri deild: 134. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

215. mál, flugvellir

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Hæstv. flugmrh. vildi ekki kannast við það, að þessi skipan, sem hér er gert ráð fyrir, ætti rót sína að rekja til flugvallarsamningsins. Þess var heldur ekki að vænta, að ráðh. viðurkenndi það. Ég er samt engu að síður sannfærður um, að svo er, m.a. vegna þess, að það liggja engar aðrar orsakir fyrir, sem gefa tilefni til slíks fyrirkomulags, og ráðh. hefur heldur ekki reynt að færa nein rök fram, sem réttlæta þetta. Og þess vegna leitar maður að skýringum, og sú eina finnanlega er flugvallarsamningurinn. Hæstv. flugmrh. vildi halda því fram, að vegna þess að starf flugráðs væri hluti af framkvæmdarvaldinu, þá væri eðlilegt, að ráðh. skipaði það, og hann bar þetta saman við nýbyggingarráð og viðskiptaráð, en hér er bara um annað að ræða, ef ég skil málið rétt, því að þetta flugráð á aðeins að vera ráðgefandi, en ekki hafa framkvæmdarvald. Hins vegar, ef orð ráðh. eru rétt, þá er lengra gengið með að rýra vald flugmálastjóra, en ráðgert er í frv.

Annars er augljóst, í hvaða tilgangi það er gert, að Alþ. kjósi 3 menn. Þar er sama á bak við og við kosningu í stjórn síldarverksmiðjanna. Það á að útiloka Sósfl. frá því að eiga fulltrúa í ráðinu og þar með að útiloka hann frá því að geta fylgzt með gangi þessara mála, en það er auðvitað líka gert í ákveðnum tilgangi. 3. landsk. var að andmæla því, að þessi skoðun mín hefði við rök að styðjast, og taldi það aðeins getgátur. Í því sambandi vil ég benda á, að hvað viðkemur flugmálastjóra, þá liggur þetta ljóst fyrir og eru þess vegna ekki getgátur, því að flugráðið á ekki einungis að vera yfir honum, heldur á að svipta hann starfi. Þá var 3. landsk. að tala um, að þetta starf væri svo umfangsmikið, en þó er það miklu umfangsminna, en ýmis önnur opinber störf, eins og t.d. starf vegamálastjóra og starf raforkumálastjóra. Ef þetta lægi til grundvallar, þá væri byrjað á að skipta þessum embættum, en það er bara ekki þetta, sem liggur til grundvallar. Þetta, sem 3. landsk. hefur haldið fram, eru því ekki rök gegn mínum till. og ekki heldur annað, sem fram hefur komið í þessum umr. Ég óska því eftir, að þær verði bornar undir atkv. og læt skeika að sköpuðu, hvernig með þær fer.