28.11.1946
Neðri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

45. mál, menntaskólar

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Það má gera ráð fyrir, að það muni ekki bera árangur, þótt maður láti í ljós aðra skoðun á þessu máli heldur en hv. menntmn., þar sem n. hefur orðið öll sammála um afgreiðslu málsins. En mér finnst þó ekki, að þetta mál geti farið svo áfram hér á hæstv. Alþ., án þess ég lýsi minni skoðun . því, — einkum vegna þess, að mér finnast rökin fyrir þessari breyt. á l. vera sérkennileg og einkennandi fyrir þann hugsunarhátt, sem er að verða nokkuð ríkjandi í landinu. Það er farið hér fram á að fækka skyldukennslustundum menntaskólakennaranna vegna þess, að ef það er ekki gert, mundu þeir ekki fást til þess að kenna fyrir sérstaka borgun við sömu skóla. M.ö.o., það á að losa þessa kennara við skyldustörf, til þess að þeir í staðinn fyrir að rækja þau skyldustörf, sem þeim er nú samkv. l. ætlað að inna af hendi, geti selt sömu stofnun. sem þeir vinna fyrir, vinnu sína sérstaklega fyrir sérstaka greiðslu.

Það er vitaskuld rétt, að út af fyrir sig hefði verið rétt að líta á, hvort þessum mönnum er ætlað of mikið starf og hvort fækka bæri kennslustundafjölda þeirra vegna þess, að sá kennslustundafjöldi, sem þessum mönnum er ætlaður samkv. l., sé svo mikill, að með honum sé lögð of þung vinna á kennarana. Nú er það svo, að það eru 41/2 sinnum 45 mínútur, sem þessum mönnum er samkv. l. ætlað að vinna í skólanum á dag. Að sjálfsögðu mundi engum þykja það mikil áreynsla, sem aðra vinnu stunda. En þá verður því að sjálfsögðu til svarað, að þessi vinna í skólanum kosti mikinn undirbúning eða aðra vinnu jafnhliða kennslunni í skólanum, einkum við að fara yfir skriflegar úrlausnir nemenda og taka saman athugasemdir og leiðbeiningar í sambandi við kennslustundirnar. En ég veit ekki betur, en það sé borgað sérstaklega og reiknað sem tímavinna. Það telur mér enginn trú um það, að þeim manni, sem hefur menntun til þess að taka að sér kennslustarf á annað borð, sé það ofætlun að vinna 41/2 sinnum 45 mínútur á dag. Slíkt er fjarstæða.

En að því alveg slepptu undrast ég það, að nokkur maður skuli leyfa sér að bera fram þann rökstuðning, að sami maður, sem ekki geti annað þessu fyrir einhverja stofnun sem skyldustarfi, geti unnið þetta fyrir sérstaka peninga frá þeirri sömu stofnun. Ég geri ráð fyrir, að um þetta sé samkomulag, en þetta er jafnmikil fjarstæða fyrir því. Og vel gæti farið svo, að einhverjir mannvinir og verndarar gegn því. að menn þyrftu að ofreyna sig á vinnu, kæmu og vildu losa þessa kennara alveg við skylduvinnu við kennslu, svo að þeir gætu selt skólunum nóga aukavinnu. Það er vandi að segja það fyrir, hvar numið verður staðar á þessari braut.

Ég mun greiða atkv. á móti þessu frv., vegna þess að ég álit það óþarfa breyt. á l. — og alveg sérstaklega illa og rangt rökstutt.