28.11.1946
Neðri deild: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

45. mál, menntaskólar

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Hv. þm. N-Ísf. sagði í upphafi máls síns nú siðast, að það væri rétt og ekki rétt, að með þessu frv. væri farið fram á að stytta vinnutíma kennara menntaskólanna, og það rökstuddi hann með því að, að sönnu væri þetta stytting á vinnutíma þeim, sem kennurunum er ætlaður eftir l. frá 7. maí 1946, en hins vegar væri í frv. gert ráð fyrir sama vinnutíma þessara kennara eins og hann hefði verið samkv. eldri l. áður. — Nú hef ég ekki þessi l. fyrir mér. En í grg. þessa frv. segir, að vinnutíminn hafi þá verið 24 stundir á viku. En í þessu frv. er gert ráð fyrir, að hann lækki niður í 22 stundir á viku, og svo niður í 17 stundir á viku. Þetta er vissulega lækkun frá 24 stundum. Um þetta er náttúrlega ekki deila, því að þetta er skýrt. Enda reyndi hv. frsm. ekki að mótmæla því, því að aðalrökstuðningur hans fyrir þessari breyt. á l. er alls ekki sá. að ákveðinn hafi verið of langur vinnutími fyrir þessa starfsstétt, heldur hitt, að það verði að fækka skyldukennslustundum þessara manna, til þess að þeir geti unnið við sömu stofnun fyrir sérstaka borgun. Og þetta var það, sem ég leyfi mér að segja, að séu óframbærileg rök.

Ég vil nú auk þess taka það fram viðkomandi þeirri mótbáru, að það sé of litið til af kennurum, að fyrir því er ekki nokkur sönnun færð hér. Og ég held, að það sé geysimikið af mönnum til, sem færir væru til þess að taka að sér stundakennslu í þeim námsgreinum yfirleitt, sem kenndar eru í menntaskólum, svo að ekki yrðu vandræði úr. En það er ekki mergur málsins, heldur hitt, að þegar samþ. voru ný launal. og bætt launakjör kennaranna, þá var eðlilegt, að það væri metið, hve mikla vinnu kennarar skyldu af hendi leysa fyrir þau laun, sem þeim væru ákveðin. Og það, að vinnutíminn var eitthvað lítils háttar lengdur frá því, sem áður hafði gilt, réttlættist af því, að launakjörin voru mikið bætt. Hitt verður aftur að metast, hvort með lengingu vinnutímans sé ofboðið starfsþreki manna.

Hitt er rétt hjá hv. þm. N-Ísf., að allir þeir, sem um þetta mál hafa rætt við hv. menntmn., hafa orðið sammála. En það voru allt men,. sem þetta snertir hagsmunalega. Það er því ekki undarlegt um þá menn. En mig undrar, að hv. menntmn. skyldi ágreiningslaust geta kingt þessu.