13.05.1947
Efri deild: 131. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Frsm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta litla frv. er fram borið af hæstv. ríkisstj. Tilgangur frv. er sá að fela ríkisstj. að setja á stofn innkaupastofnun, sem á að hafa það hlutverk með höndum að annast innkaup á nauðsynjavörum vegna ríkisstofnana og annarra sérstakra framkvæmda, sem ríkið hefur með höndum. Frv. skyldar allar ríkisstofnanir eða stofnanir, sem reknar eru fyrir reikning ríkisins, svo og alla þá, sem hafa með höndum stjórn sérstakra framkvæmda, sem kostaðar eru af ríkissjóól. til þess að kaupa þær nauðsynjar, sem þeir þurfa á að halda vegna framkvæmdanna, af innkaupastofnun ríkisins. Og jafnframt er innkaupastofnuninni lögð sú skylda á herðar að láta þessum aðilum í té þær nauðsynjar, sem þeir þurfa á að halda, á kostnaðarverði að við bættum ómakslaunum, sem svarar kostnaði við rekstur stofnunarinnar.

Fjhn. hefur athugað þetta frv. Meiri hl. n., hv. 1. þm. Reykv. (PM), hv. þm. Dal. (ÞÞ) og ég, við þrír leggjum til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Einn nm., hv. 4. landsk. (BrB), vill gera á frv. nokkrar breyt. Fimmti nm., hv. 1. þm. Eyf. (BSt), var ekki viðstaddur, þegar frv. var tekið til meðferðar í n. Mun hann, eftir því sem ég bezt veit, hafa verið fjarstaddur úr bænum, með leyfi hæstv. forseta.

Viðvíkjandi efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, verður vart um það deilt, að eins og högum er nú komið, þá er á því mikil þörf, að komið verði á stofn sérstakri innkaupastofnun, sem hafi með höndum þau verkefni, sem talin eru í þessu frv. Ríkið hefur nú sjálft beinlínis og óbeinlínis með höndum á hverju einasta ári stórfelldar framkvæmdir, sem kosta milljónir eða tugi millj. eða jafnvel hundruð millj. kr. Til þeirra framkvæmda þarf að kaupa að mikið af efni og nauðsynjum. Til þessa hafa þessir hlutir verið keyptir hjá þeim verzlunum, sem hafa haft þá á boðstólum, og ríkið þá að sjálfsögðu orðið að sæta sömu kjörum og aðrir aðilar, sem við þær stofnanir hafa skipt. Þessu frv., sem hér liggur fyrir, er ætlað að gera þær breyt. í þessum efnum, að nú annist þessi innkaupastofnun ríkisins innkaup á öllum nauðsynjum, sem þarf til þeirra framkvæmda. sem reknar eru af ríkisstofnunum eða á vegum ríkisins og á kostnað ríkissjóós. Það hagræði, sem skapast með því að setja á fót stofnun sem þessa, yrði að sjálfsögðu fyrst og fremst það, að þarna er skapaður möguleiki til þess, að ríkið geti aflað sér nauðsynja, sem það þarf á að halda, með talsvert lægri kostnaði en verið hefur hingað til. Eru ekki aðeins líkur til, að þarna sparist milljóna kr. álagning, sem ríkið hefur orðið að bera kostnað af, heldur ætti einnig þarna að vera hægt að komast að miklu hagkvæmari kjörum með heildarinnkaupum, en verið hefur hingað til, auk þess sem allur kostnaður við innkaupin og við að afla varanna ætti að geta verið miklu minni með þessu móti, en með því fyrirkomulagi, sem hingað til hefur ríkt. Við þetta bætist einnig það, að vörur þær, sem hið opinbera þarf á að halda til sinna framkvæmda, þær ættu, ef hægt er að fá þær á annað borð, að geta jafnan verið fyrir hendi, þegar til þeirra þarf að grípa. En eins og öllum er kunnugt, sem með þessum málum hafa fylgzt, hefur mjög viljað á því bera að undanförnu, að ríkið sjálft hafi talsvert orðið að sitja á hakanum um ýmislegt efni til framkvæmda og þess vegna hafi framkvæmdir þess orðið að víkja fyrir öðrum framkvæmdum, sem kannske verða ekki taldar eins nauðsynlegar og þær, sem ríkið hefur með höndum. Hagnaðurinn, sem ríkið ætti að hafa af þessu, er því bæði sparnaður á peningum, með því að fá ódýrari vörur, og ekki síður hitt, að möguleikar ættu að vera á því, að hægt væri að hnika því svo til, að vörur þessar væru jafnan fyrir hendi, þegar til þeirra þyrfti að gripa, þannig að ekki þyrfti að bíða eftir þeim langan tíma til skaða fyrir framkvæmdir ríkisins og á vegum þess. Þessa möguleika ætti að vera hægt að skapa með því að koma á fót stofnun þeirri, sem hér er gert ráð fyrir. En það á svo að sjálfsögðu við um þessa stofnun eins og svo margar aðrar, og þó ekki hvað sízt um þessa stofnun, að það veitur ekki mest á því að hafa lagafyrirmælin til þess að koma stofnuninni á og geta rekið hana. Hitt er ekki siður þýðingarmikið, að sjálf framkvæmd laganna fari viðunanlega úr hendi. Og það verður verk þeirrar stjórnar, sem við þessum l. tekur, ef þetta frv. verður samþ., að reyna að byggja þessa stofnun vel upp og fela framkvæmd hennar þeim einstaklingum, sem næga þekkingu og reynslu hafa í þessum efnum og líklegir eru til að reka hana með þeim hætti, að l. um hana geti náð þeim tilgangi, sem fyrir hæstv. ríkisstj. vakti, þegar hún bar frv. fram, og fyrir þeim þm. vakti, sem athuguðu og samþ. frv. í n.

Meðan þetta frv. var til athugunar í fjhn., var nokkuð á það minnzt, hvort ekki væri nauðsynlegt að gera á því nokkrar breyt., m. a. í þá átt að færa út starfssvið innkaupastofnunarinnar frá því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. M.a. var á það minnzt, hvort ekki ætti að ganga þannig frá frv., að innkaupastofnunin skyldi einnig annast innkaup fyrir þær einkasölur, sem þegar eru starfandi á vegum ríkisins, eða slíkar stofnanir, er síðar kunna að verða stofnaðar. Einnig var á það minnzt, hvort ekki ætti að fela þessari innkaupastofnun að annast innkaup fyrir þá einstaklinga eða einstaklingsfyrirtæki, sem kynnu að óska eftir að gera innkaup í gegnum þessa stofnun. Hv. 4. landsk. þm. hefur nú borið hér fram brtt., sem gengur í þessa átt. Meiri hl. fjhn. vildi hins vegar ekki fara inn á þessa braut að svo stöddu máli. Um það eru að vísu allir sammála í n., að svo geti farið — og til þess eru líkur —, að í framtíðinni kunni að þykja hagkvæmt að færa starfsvið innkaupastofnunar ríkisins mjög mikið út, þannig að hún hafi með höndum fleiri verkefni, en henni er ætlað með þessu frv. En á byrjunarstigi þessa máls virðist það vera nokkurt atriði að efna þannig til þessarar stofnunar, að henni sé í upphafi fengið hæfilegt verksvið, til þess að hún ráði við það á fyrsta stigi þessara framkvæmda. Og virðist, að þegar verið er að koma þessari stofnun á fót, þá sé ekki vert að ganga lengra í þessum efnum, en gert er hér ráð fyrir, að fela þessari stofnun innkaup fyrir ríkið sjálft og ríkisstofnanir og stofnanir, sem reknar eru á vegum ríkisins. Komi það hins vegar í ljós, þegar stofnun þessi tekur til starfa, að það reynist hagkvæmt að skipta við hana, bæði um verð og vörugæði og annað, þá er gefið mál, að taka verður til athugunar að færa út starfsvið þessarar stofnunar, þannig að hún annist innkaup fyrir fleiri, en ríkið. Hins vegar finnst meiri hl. fjhn., að ekki sé ástæða til í upphafi að fela þessari stofnun meira starfsvið en svo, að ekki þurfi að óttast um, að hún ráði ekki við það þegar frá upphafi. Virðist skynsamlegt að fara gætilega af stað. En gefi þessi innkaupastofnun ágæta raun, ber að athuga, hvort ekki skuli færa starfsemi hennar út á víðari grundvöll.

Að því er varðar innkaup fyrir sjálfar ríkisstofnanirnar vil ég geta þess, að hæstv. ríkisstj. hefur í hendi sér, hvað sem þessum l. liður, að gera breyt. á framkvæmd þeirra 1.. sem nú eru fyrir hendi, þannig að hún samræmi meir en verið hefur innkaupin fyrir ríkisstofnanirnar. Og er mér ekki grunlaust um, að athugun í þá átt sé á ferð hjá hæstv. ríkisstj.

Þá var minnzt á það í fjhn., hvort ekki þætti rétt að taka upp ákvæði í frv. í sambandi við innflutnings- og gjaldeyrisleyfi og tryggja í því sambandi forgangsrétt fyrir innkaupastofnunina. Hv. 4. landsk. þm. hefur einnig borið fram brtt. um þetta. Ég fyrir mitt leyti fæ ekki betur séð en að þessi brtt. sé óþörf og ástæðulaus. Hæstv. ríkisstj. hefur sjálf yfirstjórn á úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa, og bankarnir, sem ráða yfir gjaldeyrinum, lúta að vissu leyti yfirstjórn sjálfar ríkisstj. Ríkisstj. hefur því það í hendi sér að tryggja það, að hún fái að ganga fyrir um gjaldeyris- og innflutningsleyfi til þeirra efna og afnota og kaupa, sem hún sjálf þarf á að halda. Og ef henni finnst einhver tregða á þessu hjá bönkunum eða nefndum, sem með þessi mál fara, er opin leið fyrir ríkisstj. að grípa til sinna ráða og gera ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru í þeim efnum. Og er ástæðulaust og óviðkunnanlegt að taka upp í þessi l. nokkur ákvæði um þetta.

Ég held, að það séu ekki fleiri atriði, sem ég sé ástæðu til að minnast á. En meiri hl. fjhn. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Og fylgir því þá jafnframt það, að meiri hl. fjhn. tekur ekki undir þær brtt., sem fram hafa verið bornar af hv. 4. landsk. þm. á þskj. nr. 801.