21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Frsm. minni hl. (Ingólfur Jónsson):

Ég flyt ásamt hv. 7. (vara)þm. Reykv. brtt. við 2. gr., þar sem við viljum bæta aftan við 2. gr., eins og þskj. 911 ber með sér, að í reglugerð þeirri, sem ráðgert er að setja í sambandi við Innkaupastofnun ríkisins, sé greinilega fram tekið, að leita skuli til innlendra og erlendra aðila og taka því tilboði, sem sýnir hagkvæmast verð. Er ekki ástæðulaust, að um þetta er rætt og óskað, að þetta sé staðfest, því að það mun þekkjast, að ríkisstofnanir hafi sniðgengið innlenda aðila, enda þótt þeir hafi getað lagt fram hagstæðari tilboð, en þeir erlendu. Að vísu var hér gerð lagfæring af meiri hl., þar sem hann gerir ráð fyrir því að bæta aftan við gr., að í reglugerð skuli ákveða um útboð og skuli jafnan taka hagstæðasta tilboði. Þetta er vitanlega bót frá því, sem var í frv. upphaflega. En ég tel, að eins og þetta er orðað á þskj. 911, náist tilgangurinn betur og öruggara sé, að væntanlegur forstjóri þessarar ríkisstofnunar sniðgangi ekki innlenda aðila, ef þeir geta boðið eins hagstæð eða hagstæðari kjör, en þeir erlendu. En innlendir aðilar hafa oft verið sniðgengnir hjá ríkisstofnunum áður. Ég vil eindregið mæla með því, að till. frá minni hl. á þskj. 911 verði samþ.