21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Áki Jakobsson:

Eins og sést af nál. frá meiri hl. og minni hl., hefur það einkennilega fyrirbrigði skeð, að n. hefur klofnað, og það um stjfrv., á þann einkennilega hátt, að Sjálfstfl. hefur skilað minni hl. áliti, en ég er hér í meiri hl. með Alþfl. og Framsfl. (SigfS: Þetta er eins og það á að vera! ) Þetta er eins og það á að vera. Og þó að ekki greini mikið á milli sjálfstæðismanna og hinna, felst nokkuð í þessari skyldukvöð á Innkaupastofnun að leita tilboða hjá innlendum aðilum. Og ég verð að segja, að svo ófullkomið sem mér finnst þetta frv. um innkaupastofnun vera, finnst mér fásinna að leggja þessari stofnun slíka skyldu á herðar. Sýnir þetta í rauninni mjög greinilega, að ekki er meiningin, að þessi innkaupastofnun verði mjög viðtæk. Ég vildi hugsa þessa stofnun miklu víðtækari. Hún á að hafa ákaflega margvísleg verkefni og þýðingarmikil með höndum, einkum að annast innkaup á þeim vörum, sem þarf að kaupa frá ríkisstjórnum annarra landa, þar sem utanríkisverzlun er skipulögð sem ríkisfyrirtæki. Þar eru Sovétríkin fremst í hópi og þá ýmis önnur ríki á meginlandinu. Og það hefur sýnt sig í viðskiptum við þessi lönd, að erfitt er að framkvæma innkaup með þeim aðferðum, sem við höfum viðhaft. Höfum við því víða ekki keypt nægilega mikið til þess að geta látið það magn af sjávarafurðum, sem við annars hefðum getað fengið markað fyrir, þar eð ekki var til stofnun, sem gat tekið að sér þessi innkaup, þegar innkaupafélög einstaklinga hafa ekki fengizt til þess að kaupa frá þessum löndum. Þetta hefur háð mjög mikið okkar utanríkisverzlun. Er enginn vafi, að fyrr eða síðar verður að ráða bót á þessu. Og sú bót verður ekki ráðin öðruvísi, en að ríkið taki í sínar hendur að verzla með þessar afurðir og kaupa inn frá þessum löndum.

Til þess að freista þess að gera þetta frv. nokkru víðtækara, flyt ég brtt. á þskj. 909, sem ég bar fram í fjhn., en fékk þá frá hendi stjórnarflokkanna í n. upplýsingar um það, að þetta væri samkomulagsmál milli stjórnarflokkanna og nm. væru bundnir við að hagga þar engu í þessu máli nema eftir fyrirmælum ríkisstj. Brtt. mín er einkum í því fólgin. að Innkaupastofnun ríkisins hafi heimild til að annast innkaup á vörum fyrir þá aðila, sem óska þess. Hef ég þar sérstaklega í huga bæjar- og sveitarfélög, og svo ef til vill ýmsa einstaklinga, sem kynnu að vilja það. Virðist slík heimild ákaflega eðlileg og ætti að vera trygging fyrir því, að þrátt fyrir þennan þrönga stakk frv. gæti þessi stofnun orðið rekin með meiri árangri, ef hún fengi þá auknu umsetningu, sem af þessu mundi leiða. Ég þekki dálítið til um rekstur bæjarfélaga víða um land, og þau mundu telja mikið hagræði að mega snúa sér til opinberrar stofnunar um að annast innkaup fyrir sig. Mundu fjöldamörg bæjarfélög hagnýta sér þetta og það í allverulegum mæli.

Í öðru lagi er í till. mínum, að ríkisstj. sé heimilt að sameina þessa innkaupastofnun við aðrar þær innkaupastofnanir, sem starfræktar eru. Á ég einkum við þessar þrjár: áfengisverzlunina, tóbakseinkasöluna og viðtækjaverzlunina. Enginn vafi er, að þetta væri mikið hagræði og sparaði starfsmannahald. Það mætti koma fyrir fullkomnari tækjum og húsnæðiskostur yrði ódýrari í heild. Hefur þessi sameiningarhugmynd oft komið fram.

Þá er í þriðja lagi, að ég vil láta ákveða, að innkaupastofnun ríkisins skuli hafa forgang til gjaldeyrisleyfa til sinna vörukaupa, ef hún getur útvegað vörur við verði, sem er sambærilegt við aðra innflytjendur. Það er gersamlega ófært, að ríkisstofnun, sem búin er að fá góð tilboð, þurfi að biðja um gjaldeyrisleyfi á sama hátt og einkastofnanir og kannske að þola þar drátt og jafnvel neitun og hefta þar með starfsemi sína. Það væri í alla staði til bóta, að hún fengi þennan forgangsrétt fyrir þessi innkaup sín. Sérstaklega ætti að vera hættulaust að ganga inn á þetta, þegar fram er tekið, að þetta skuli því aðeins gilda, að verðið sé sambærilegt við lægsta verð annarra. Sams konar till. var flutt af hálfu Sósfl. í Ed., og ég taldi rétt að leita fyrir mér í þessari hv. d., hvort hún sæi nauðsyn á viðtækum starfsmöguleikum þessarar innkaupastofnunar, sem vafalaust skal vera vísir að öðru meira og verða stórt fyrirtæki.