21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Í tilefni af yfirlýsingu hæstv. ráðh. þá vil ég lýsa því yfir fyrir hönd meiri hl. n., að till. á þskj. 914 er tekin aftur. Við höfum einnig samþ. þær viðbætur við okkar till., sem hafa verið orðaðar í ræðu hv. 2. þm. Rang. Um till. hv. þm. Siglf. vil ég aðeins segja það fyrir hönd — ekki þess meiri hl., sem flytur till. á þskj. 914, heldur fyrir hönd þess venjulega meiri hl. í n., að við getum ekki fallizt á hans till.

Fyrsta till. er um það, að innkaupastofnunin annist innkaup á vörum fyrir alla þá aðila, sem sjálfir óska þess. Hér er of langt gengið frá okkar sjónarmiði séð, og brýtur þetta einnig í bága við stjórnarsamninginn, sem hæstv. ráðh. hefur minnzt á. En þó að ekkert svona ákvæði væri tekið upp í frv., þá litum við svo á, að ríkisstj. geti falið þessari stofnun ýmis verkefni önnur en þau, sem tekið er fram í frv., ef ríkisstj. hefur heimild til þess eða utanríkissamningar gera það nauðsynlegt, en okkur finnst of langt gengið, að hver þegn gæti ónáðað stofnunina í sínum erindum.

Um till. 2.a. er það að segja, að við teljum ekki heppilegt og því síður nauðsynlegt að setja slíkt ákvæði inn í þetta frv.

Einnig má segja það um b-lið, að við teljum, að innkaupastofnun ríkisins standi svo vel að vígi um forkaupsrétt á gjaldeyri, að þessi till. ætti að vera óþörf þess vegna. Ég skal svo ekki segja fleira um þetta mál.