21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Áki Jakobsson:

Ég held, að hv. 2. Rang. hafi misskilið mín orð. Ég hef ekki sagt, að það vært fásinna að leita tilboða hjá innflytjendum, en aðeins það, að skylda stofnunina til þess, það finnst mér binda hendur hennar um of. Mér finnst óeðlilegt. ef hæstv. samgmrh. hefur fallizt á það við n., að útboð skuli ákveðin í reglugerð. Það segir sig sjálft, að það getur orðið geysilegur trafali fyrir starfsemina. Ég er ekki á móti því, að tilboð séu keypt af innlendum aðilum, ef þeir geta boðið lágt verð, en mér finnst ótækt að skylda stofnunina til að leita tilboða innanlands. Ég vil taka það fram, að það er misskilningur hjá hv. 2. þm. Rang.. að till. 911 sé borin fram vegna þess, að ekki hafi verið vitað um till. 914. Hæstv. samgmrh. sagði, að hann væri sammála ýmsu, sem fælist í brtt. minni, þó væri hann ekki sammála í öllum atriðum. Þætti mér vænt um að heyra hjá hæstv. ráðh., hverju hann er sammála. Það, sem ég legg mesta áherzlu á, er, að stofnuninni sé heimilt að annast innkaup og hún eigi að annast innkaup fyrir alla aðila. Þetta hlyti t.d. að vera mjög hagkvæmt fyrir bæjar- og sveitarfélög, og þó þetta verði ekki samþ. nú, þá verður það samþ. Ég tel, að það þurfi að haga þessari innkaupastofnun þannig, að það verði sem bezt um hnútana búið og að þetta geti orðið vísir að stórfelldri innkaupastofnun, sem tæki á sig að kaupa það, sem reynslan sýndi, að er hagkvæmt að kaupa á einni hendi, og þess vegna tel ég þessa till., 909, til bóta.