21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Sigfús Sigurhjartarson:

Mér virðist þetta frv. vera meinlaust og held, að það geti aldrei orðið einum eða öðrum til ógagns. En ég hef litla trú á því, að þessi l. komi að nokkru haldi undir hendi núverandi ríkisstj. Það getur vel verið, að þetta álit mitt mótist nokkuð af þeim kunnugleika, sem ég hef af hliðstæðri stofnun.

Þykir mér leitt, að 3 af samstarfsmönnum mínum í bæjarstjórn Reykjavíkur, sem eiga sæti í þessari d., skuli ekki vera hér viðstaddir.

Það var fyrir nokkrum árum um það fullt samkomulag í bæjarstj. Reykjavíkur, að stofnuð skyldi innkaupastofnun bæjarins. Þau rök, sem lágu að því, voru mjög hin sömu og þau, sem nú eru færð fyrir því að setja á fót innkaupastofnun ríkisins. Bæjarfélagið þarf á stórfelldum vörukaupum að halda vegna sinna margháttuðu framkvæmda við vatnsveitu, rafveitu, gatnagerð o.s.frv. Það þótti því hagkvæmt, að bærinn setti á stofn innkaupastofnun, sem keypti vörur til þessara margháttuðu framkvæmda. Þeir, sem að þessu stóðu, höfðu trú á því, að hér væri að rísa upp stofnun, sem virkilega leitaði hagstæðra innkaupa, ekki síður erlendis en innanlands, og skapaði þannig fyrirtækjum bæjarins hagstætt vöruverð. En skemmst af að segja hefur þetta algerlega brugðizt. Þetta hefur í framkvæmdinni orðið þannig, að þessi stofnun hefur haft það verk með höndum að útvega vörur hjá innlendum heildsölum og smásölum fyrir fyrirtæki bæjarins, og niðurstaðan varð sú, að stofnunin hefur komið upp nokkrum vörugeymslum fyrir vörur, sem keyptar hafa verið hjá heildsölum hér í bænum. Vinningurinn hefur orðíð sá einn, að vörurnar hafa legið í tveim geymsluhúsum í staðinn fyrir eitt og skattur því orðið meiri en ella mundi. Eftir þær umr., sem hér hafa fram farið, og till., sem hér eru fram bornar af stærsta stuðningsflokki stjórnarinnar, þá óttast ég mjög, að hér muni fara sömu leiðina. Því er haldið ákveðið fram af sjálfstæðismönnum, að stofnun þessi eigi fyrst og fremst að kaupa vörur sínar frá íslenzkum heildsölum, og tvær till. liggja fyrir, sem báðar ganga nokkuð í þessa átt, brtt. 914 og 911, og nú liggur fyrir yfirlýsing frá hæstv. viðskmrh. um það, að hann muni í reglugerð setja skýr og ljós ákvæði um útboð, sem mér skilst, að muni ganga í þá átt, að jafnan verði leitað tilboða frá innlendum heildsölum fyrir þessa innkaupastofnun. Nú kynni það fljótt á litið að virðast eðlilegt, að þessi leið væri farin. En ég vil benda á þá staðreynd, að eigi þessi innkaupastofnun að koma að tilætluðum notum fyrir íslenzka ríkið, þá verður hún að kaupa vörurnar í verulegum mæli frá útlöndum í samkeppni við alla innflytjendur. bæði heildsala og S.Í.S. Og satt að segja er það einkennileg hugmynd að ætla að gera þessari stofnun það skylt að spyrja keppinautana fyrst, hvort þeir gætu ekki útvegað vörur með sérstaklega hagkvæmu móti. Þessi hugmynd er greinilega lögð fram af fulltrúum Sjálfstfl. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að verði það gert að meginreglu, að stofnunin kaupi vörur sínar gegnum innlenda heildsala, þá eru miklar líkur á því, að þær vörur, sem hún kaupir til brúargerða, vegagerða, hafnargerða o.s.frv., verði dýrari komnar á sinn notastað, en þær mundu verða, ef þær væru frá öðrum stofnunum. Þetta álit mitt er byggt á þessu: Heildsalinn kaupir vöru sína, og tekur hana í sína geymslu og tekur fyrir það svo og svo mikla þóknun, sem honum ber, þaðan fer varan inn á „lager“ innkaupastofnunarinnar og þaðan út á notastaðina. Þetta sýnist mér, að verði mjög óhagkvæmt. — Það gæti að vísu komið fyrir, að stofnunin lenti í óhagkvæmari innkaupum, en heildsalar fengju á sama tíma, en þar með er ekki sagt, að varan væri dýrari komin á notastað en með því, að hún gengi gegnum heildsala fyrst og innkaupastofnunina svo.

En ég get greitt atkv. með þessu frv., því að það verður varla til verulegs skaða. Ég hefði gaman af að heyra, hvernig hæstv. viðskmrh. hugsar sér þetta í framkvæmd, t.d. um vegamál og hafnarmál. Ég býst við því, að þegar innkaupastofnunin þarf að leita sér tilboða um sement, járn, timbur og annað, sem þarf til þessara framkvæmda., að þá verði hún að taka vöruna út af „lager“ heildsalanna og inn á sinn „lager“. Þetta er ekki hagkvæmt.

Annað vil ég benda á í þessu sambandi. Nú nær innkaupastofnunin hagkvæmari samböndum erlendis um innkaup á sementi, timbri og járni, en heildsalarnir gera, en síðar kæmi hagkvæmara tilboð frá heildsölum, sem hún yrði að taka, er þá ekki augljóst, að fyrir slíka stofnun yrði erfitt að halda sínum samböndum erlendis? Þetta er hliðstætt því, að S.Í.S. væri skyldað til að kaupa t.d. matvörur af Ó. Johnson og Kaaber, ef það fyrirtæki næði í eitt skipti hagkvæmari innkaupum, en sambandið sjálft. Svona er ekki hægt að reka fyrirtæki. Þegar því fram er borin till. eins og brtt. á þskj. 911 af fulltrúum Sjálfstfl., þá er það gert með það fyrir augum að eyðileggja þessa stofnun, innkaupastofnunina. Ég get vel hugsað mér, að hæstv. viðskmrh. vilji gera þessa stofnun að raunhæfri innkaupastofnun, en ég hef enga trú á, að hann geti það í þessu stjórnarsamstarfi, og yfirlýsing hans ber vott um, að hann svigni fyrir þunga Sjálfstfl., sem vill koma í veg fyrir, að þessi stofnun kaupi raunverulega nokkrar vörur til landsins.