21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort það er nokkur ástæða til að ræða þetta við hv. 6. þm. Reykv., því að ég held, að hann viti betur, en hann lætur. Hann sagði, að yfirlýsing mín sýndi, að ég svignaði fyrir þunga Sjálfstfl. En ég bendi á, að hún er í einu og öllu í samræmi við till. þá á þskj. 914. sem hv. þm. Siglf. stendur m.a. að, að viðbættum nokkrum orðum, sem engu breyta í því sambandi.

Að öðru leyti sé ég ekki, hvernig það ætti að eyðileggja starf stofnunarinnar að taka á hverjum tíma hinum hagkvæmustu tilboðum, er henni berast. Ég fékkst sjálfur við innkaup eða var við þau riðinn, er ég var vitamálastjóri. og leitaði oft tilboða bæði innan lands og utan, og venjan var auðvitað sú að taka hagkvæmasta tilboðinu. Og ef innkaupastofnunin tekur tilboði innlendra heildsala, er því aðeins tekið með því móti, að varan, komin á „lager“ innkaupastofnunarinnar, sé ódýrari en annars staðar, en ekki miðað við, að hún sé ódýrari í vöruskemmu heildsalanna. Meira að segja geri ég ráð fyrir, að vörur til vita verði fluttar beint á viðkomandi staði úti á landi og innlendum tilboðum því aðeins tekið, að vörurnar verði ódýrari þangað komnar en erlend tilboð. Ég skil ekki, að hv. 6. þm. Reykv. þurfi að vera hræddur við það, að stofnunin hafi sambönd sem víðast og taki jafnan hinum beztu tilboðum. Ég sé enga ástæðu til að útiloka innlenda heildsala af því einu, að þeir eru innlendir, þetta er eini mátinn, sem hægt er að reka fyrirtæki á. Reynslu hv. 6. þm. Reykv. af innkaupasambandi Reykjavíkur fer ég ekki inn á. Ég þekki það ekki svo, en ég þekki vitamál og innkaup til vita, og þar er venjan að kaupa þar, sem ódýrast er að öðru jöfnu, og þeirri venju vil ég, að fylgt sé.