21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég get nú sagt eins og hæstv. ráðh. sagði um mig, að ég held. að hann viti betur, en hann talar. Hann sagði, að þetta væri eini mátinn til að reka stofnunina á að kaupa jafnt eftir innlendum og erlendum tilboðum. Það er nú svo. því hefur S.Í.S. ekki tekið upp þetta fyrirkomulag að leita tilboða hjá öðrum innlendum verzlunarfyrirtækjum, í stað þess að halda sér í samkeppninni og reyna að fá hagkvæmari tilboð, en keppinautar þess? því skyldi það ekki hafa tekið upp þennan eina máta, sem hæstv. ráðh. talar um, að leita alltaf tilboða hjá innlendum heildsölum, og því skyldi t.d. Jón Þorláksson & Norðmann ekki leita tilboða í sement hjá H. Ben. & Co., ef það fyrirtæki skyldi geta gefið betri kjör? Nei, það hefur sýnt sig, að þetta er ekki mátinn. Ég veit ekki til, að nokkur innkaupastofnun sé rekin á þennan máta. Hitt er reglan, að hver innflytjandi kaupir sjálfur beint til landsins.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að ekki kæmi til greina að taka tilboðum innlendra heildsala, nema varan yrði ódýrari komin á notastaðinn. Þetta er ágæt yfirlýsing, og ég vona, að hann standi fast á því, en það vakir áreiðanlega ekki fyrir sjálfstæðismönnum, heldur að gerður verði samanburður á innkaupsverði heildsalanna og innkaupsverði stofnunarinnar, eða því verði, sem hún getur fengið í innkaupi. Ég viðurkenni, að það er góð regla að taka því tilboði. sem ódýrast er á notastaðnum, og ég vona fastlega, að hæstv. ráðh. haldi fast við það, en það mun sýna sig, að í öllum tilfellum verða tilboðin ódýrust, ef stofnunin kaupir inn sjálf.

Varðandi till. á þskj. 914, sem hæstv. ráðh. minnti á, að hv. þm. Siglf. stæði m.a. að, er það að segja, að ég tel hana ákaflega hæpna, og hv. þm. Siglf. hefur einmitt sérstaklega gert mjög þýðingarmiklar till. á þskj. 909, t.d. um. að Innkaupastofnun ríkisins skuli hafa forgangsrétt um gjaldeyri til vörukaupa sinna. Og úr því að hæstv. ráðh. þykist taka svo mikið tillit til míns flokksbróður, þá vona ég, að hann sýni það við atkvgr. um þessar till. hans. Hér er vissulega skortur á mörgu, sem ríkið mundi kaupa inn í gegnum þessa stofnun, t.d. mörgu til sjúkrahúsa og þess háttar, og væri nauðsynlegt, að þessi stofnun hefði forgangsrétt um gjaldeyri til slíkra kaupa. Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en vísa aftur til þessa sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að hæstv. ráðherra skilur málið miklum mun betur, en fram kom í síðustu ræðu hans.