21.05.1947
Neðri deild: 136. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (721)

217. mál, innkaupastofnun ríkisins

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Þetta var sérlega „sláandi“ samlíking hjá hv. þm. V-Ísf. Í fyrsta lagi vildi hann bera ástandið nú saman við ástandið á stríðsárunum, en guði sé lof, að það er ekki lengur stríð, og vonandi verður það ekki. En hvað var innkaupasambandið, sem hann nefndi? Beinlínis félagsskapur allra innflytjenda. Þeir komu sér saman um að kaupa inn í sameiningu, og það þýðir í munni hv. þm., að þeir hafi keypt hver af öðrum. Það hefur vitanlega komið fyrir S.Í.S., eins og ég hef áður sagt, að það hefur leitað til keppinauta sinna um smáræði, en meginreglan er að kaupa inn sjálfstætt. Og að innflytjendasambandið sé hliðstætt þessu, er sama og segja, að kaupfélögin kaupi hvert hjá öðru, af því að S.Í.S. er þeirra sameiginlegi innkaupandi. Ég segi það enn, að meginregla S.Í.S. og annarra innflytjenda er sú að keppa við aðra innflytjendur um að kaupa inn sem hagkvæmast. Fram hjá lagasetningu um Innkaupastofnun ríkisins varð ekki gengið samkvæmt núgildandi stjórnarsamningi, en skemmdaröflin í stjórninni vilja gera þessa stofnun að engu, og það er algerlega undir framkvæmdinni komið, hvort hún verður eitthvað eða ekkert, og ákvæðið um að leita til heildsalanna um innkaup er sett inn til að gera hana að engu.