13.03.1947
Neðri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (729)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Í 2. gr. frv. eru greind sjö höfuðatriði, sem stefna beri að til að framkvæma það, sem segir í upphafi sömu greinar, að hlutverk fjárhagsráðs sé að samræma framkvæmdir einstaklinga og almannavaldsins, meðan hinar miklu framkvæmdir í íslenzku atvinnulífi standa yfir, þannig að þær verði gerðar eftir fyrir fram gerðri áætlun fjárhagsráðs, er ríkisstj. staðfesti. M.ö.o., það er gert ráð fyrir, að hér eigi í fyrsta sinn að gera alvarlega tilraun til þjóðfélagsbúskapar samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun. Ég skal nú drepa nokkuð á þessi sjö höfuðatriði. sem ég nefndi áðan:

Í fyrsta lagi sé öll framleiðslugeta hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna, en undir því er velferð allra þjóófélagsþegnanna komin, að atvinna sé næg. Í öðru lagi séu öllum vinnandi mönnum tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu þeirra. Í þriðja lagi eigi neytendur kost á að kaupa neyzluvörur og framleiðendur rekstrarvörur á hagkvæmasta hátt, og vörukaup til landsins og vörudreifing innanlands verði gerð eins ódýr og hagkvæm sem frekast er unnt. Í fjórða lagi verði áframhald á öflun nýrra og fullkominna framleiðslutækja til landsins. Í fimmta lagi verði byggðar verksmiðjur og iðjuver, eftir því sem nánar er tilgreint. Í sjötta lagi skulu atvinnuvegirnir reknir á sem hagkvæmastan hátt. Og í sjöunda og síðasta, en ekki sízta lagi á að útrýma húsnæðisskortinum og heilsuspillandi íbúðum með byggingum hagkvæmra íbúðarhúsa.

Í 4. gr. er talað um samvinnu þjóðfélagsaflanna um framkvæmdir þessarar áætlunar. Þar er gert ráð fyrir, að fjárhagsráð, sem skipa á samkvæmt 2. gr., hafi með höndum framkvæmdir, sem miða að fyrr greindu marki. og leiti samvinnu um samningu heildaráætlunarinnar við opinberar stofnanir, félög og einstaklinga, sem framleiðslu. verzlun, iðnað eða annan atvinnurekstur hafa með höndum og fjárfestingu þarf til. Enn fremur er það tekið fram í 2. málsgr. 4. gr., að fjárhagsráð skuli hafa samvinnu við lánsstofnanir í landinu um samningu fjárfestingaráætlunar, en telji ráðið eigi nægilega séð fyrir fjárþörf nýrra fyrirtækja, er það telur nauðsynlegt að stofnsetja, skal það leita samvinnu við ríkisstj. um fjáröflun.

Í 5. gr. er um að ræða stærsta og þýðingarmesta nýmælið, en þar eru ákvarðanirnar um fjárfestinguna. Þar segir, að til hvers konar fjárfestingar einstaklinga, félaga og opinberra aðila, hvort sem er til stofnunar nýs atvinnurekstrar, til aukningar á þeim, sem fyrir er, húsbygginga eða annarra mannvirkja, þurfi leyfi fjárhagsráðs, og gildi þetta einnig um framhald þeirra framkvæmda, sem þegar eru hafnar.

Á því leikur ekki vafi, að þrátt fyrir hinar miklu framfarir síðustu ára, ný framleiðslutæki til lands og sjávar og miklar byggingar, hefur það berlega komið í ljós, að öll fjárfesting er of lítið háð föstu skipulagi, það hefur of litið verið haft fyrir augum, að þær framkvæmdir og fyrirtæki sætu í fyrirrúmi, sem nauðsynlegast er að reisa og reka. En afleiðingin af því, að einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera hafa ráðizt í miklar framkvæmdir og fyrirtæki, hver á sínu sviði, en án samstarfs — afleiðingin hefur orðið sú, að þetta hefur komið af stað mikilli ofþenslu, sem veldur mestu vandræðum. Ég tel því, að eitt allra þýðingarmesta ákvæði þessa frv. sé það, að gera nú í fyrsta sinn alvarlega tilraun til að reyna að hafa hemil og ákveðið skipulag á fjárfestingunni, fjármagni hins íslenzka þjóðfélags, og allt með það fyrir augum, að þjóðarbúið verði rekið á þá lund, sem bezt er fyrir heildina. Að því á þetta frv. að stefna.

Ég vil benda á, að í 1. málsgr. 8. gr. eru nokkuð merkileg fyrirmæli um, að fjárhagsráð skuli beita sér fyrir samvinnu atvinnurekenda og verkamanna um bætta aðstöðu verkafólks á vinnustöðum, betri hagnýtingu vinnuafls og aukin vinnuafköst. Það hefur nú verið svo upp á síðkastið, að bæði verkamenn og vinnuveitendur hafa kvartað um of mikið skipulagsleysi í þessum efnum, sem er til óþurftar báðum aðilum, og ber brýna nauðsyn til, að hið opinbera hafi hér frumkvæði um að kippa í liðinn, eftir því sem unnt er, því að það er lífsnauðsyn, þegar við erum að byggja upp, mér liggur við að segja með risaskrefum. að tryggja sem bezt samstarf þessara meginafla í þjóðfélaginu, verkafólks og vinnuveitendanna.

Hin merkilegu ákvæði um fjárhagsráð í sambandi við samningu heildaráætlunar og fjárfestingu í íslenzku atvinnulífi koma ekki að notum, nema fjárhagsráð fái nauðsynlegt vald yfir innflutningsverzluninni, sem er svo nátengd atvinnulífinu, og innflutningur, gjaldeyrisnotkun og verðákvarðanir standi í órjúfanlegu sambandi við heildarskipulagið. Og allir eru sammála um það, án tillits til pólitískra skoðana, að nauðsynlegt sé, eins og málum er hér nú háttað, og raunar alls staða, að hafa eftirlit og skipulag á innflutningi til landsins og verðlagi á vörum í landinu sjálfu. Þetta hefur aðallega verið hlutverk viðskiptaráðs, en með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þessi mál verði einn þátturinn í starfsemi fjárhagsráðs og undir það falli einnig starfssvið nýbyggingarráðs. Valdinu hefur hingað til verið tvískipt, milli viðskiptaráðs og nýbyggingarráðs, en af þeirri tvískiptingu hefur ekki fengizt svo góð reynsla sem skyldi, nokkur reipdráttur hefur verið á milli og ekki til heilla, og er sjálfsagt og langeðlilegast, að þessi mál verði öll undir einum hatti. Gert er ráð fyrir sérstakri innflutnings- og gjaldeyrisdeild fjárhagsráðs, er einnig hafi með höndum verðlagseftirlit, eða raunverulega alla starfsemi núverandi viðskiptaráðs.

Í 12. gr. er gert ráð fyrir, að leyfaúthlutun þessarar deildar miðist við það, að verzlunarkostnaður verði sem minnstur, og leitazt verði við að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu. Á undanförnum árum hefur hér verið fylgt þeirri reglu um innflutning, sem kennd er við svokallað „kvótasystem“. Það fyrirkomulag hefur ekki reynst vel og allra sízt leitt til þeirra endurbóta á innflutningsverzluninni, sem þörf er á. En nú er hér stungið upp á nýrri heildarreglu, að þeir, sem kaupa inn og selja ódýrast, sitji fyrir leyfum. Vera kann, að þetta verði nokkuð örðugt í framkvæmdinni — um það þori ég ekki að fullyrða á þessu stigi málsins eða fyrir fram, hve nákvæmlega er unnt að fara eftir þessari reglu. En þessi regla er þó alltaf aðalsjónarmiðið og áreiðanlega réttlát að svo miklu leyti sem unnt er að framkvæma hana, og allt stendur til bóta, sem eftir henni er framkvæmt.

Þá kem ég að ákvæðunum um verðlagseftirlit. Það þarf bæði að bæta og skerpa. Þessi ákvæði eru fyrst og fremst í 15. gr., og vil ég sérstaklega undirstrika upphaf greinarinnar, sem er á þá leið, að innflutnings- og gjaldeyrisdeild skuli í umboði fjárhagsráðs og í samráði við það hafa með höndum eftirlit með öllu verðlagi og miða verðlagsákvarðanir við þörf þeirra fyrirtækja, sem hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur. Hér er farið inn á nýja braut um verðlagsákvarðanir, því að hingað til hefur það gengið svo til, að jafnvel gamaldags og illa skipulögð fyrirtæki, sem reynzt hafa dýr í rekstri, hafa fengið það verðlag, sem þau þurftu vegna framleiðslukostnaðarins eða verzlunarkostnaðarins. Við höfum ekki ráð á þessu. Við höfum t.d. ekki ráð á að halda uppi of mannmargri stétt til vörudreifingar, ef verulegur hluti þeirrar stéttar rekur sin fyrirtæki óhagstætt. Það verður að miða við þau fyrirtæki, sem eru rekin af skynsemd á skipulagðan og hagkvæman hátt. Vera má, ef þessari stefnu væri framfylgt út í æsar, að það kynni að koma hart niður á einstaka fyrirtæki, en þegar framkvæma þarf endurbætur, verða ávallt einhverjir á að kenna, því að það verður því miður að viðurkenna, að verðlagseftirlitið hefur verið nokkuð misbrestasamt og handahófskennt og þarfnast endurbóta. Sérstaklega hefur prósentálagningin reynzt síður en svo heppileg aðferð. Það fyrirkomulag hefur frekar orðið til að örva óhagkvæman eða dýran innflutning og innkaup, vegna þess að gróðinn hefur orðið því meiri hjá innflytjendum, sem varan var dýrari í innkaupi. En slíkt má ekki eiga sér stað, ef endurbæta á verðlagseftirlitið, og þess er vænzt, ef miðað er við skynsamlegan rekstur fyrirtækja og fleiri slík sjónarmið, þegar teknar eru verðlagsákvarðanir — þess er vænzt, að með því móti mætti miklum endurbótum til vegar koma, og það er tilætlunin með þessu ákvæði frv.

Það er hægt að segja, að það séu fimm höfuðnýmæli í því frv., sem hér liggur fyrir.

Í fyrsta lagi ákvæðið um samningu og framkvæmd heildaráætlunar um rekstur þjóðarbúskaparins. Á það atriði drap ég í upphafi máls míns og tel það í sjálfu sér þungamiðjuna í þessari fyrirhuguðu löggjöf. Og er mikið komið undir því, að framkvæmd þessa atriðis heppnist vel.

Annað og mjög þýðingarmikið ákvæði frv. er um fjárfestinguna. Á það hef ég drepið, að það hefur valdið miklum vandkvæðum í þessu þjóðfélagi á undanförnum árum, hversu mikið skipulagsleysi hefur verið í þessum málum. Úr því þarf vissulega að bæta. En ég játa, að þetta, eins og margt annað í sambandi við þessa löggjöf, er mjög vandmeðfarið. Og er mikið undir því komið, hvernig framkvæmd þessara mála tekst, bæði á þessu sviði sem öðrum, í höndum þess fjárhagsráðs, sem skipað verður á sínum tíma, eða í höndum þeirra undirdeilda, sem fjalla eiga um einstök atriði þessara mála, og siðast, en ekki sízt, þeirra ríkisstjórna, sem sitja að völdum á hverjum tíma.

Þriðja nýmælið er samvinna atvinnurekenda og verkamanna um bætta aðstöðu verkafólksins á vinnustöðum, betri hagnýting vinnuaflsins og aukin vinnuafköst. Ég drap líka á þetta atriði áður í ræðunni og sé ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um það nú.

Fjórða nýmælið er nýjar reglur um innflutningsverzlunina, sem ég drap á.

Fimmta atriðið er skipulagt eftirlit með innflutningnum eftir þeim reglum, sem ég var einmitt að minnast á áðan.

Þá tel ég rétt að víkja aftur að þungamiðju frv., sem er 2. gr. þess, sem er í höfuðatriðum í 7 liðum, fyrir utan upphaf gr. Í samræmi við 4. lið 2. gr. er lagt til í 1. gr. frv., að af andvirði útflutnings hvers árs skuli jafnan leggja 15% á sérstakan reikning erlendis og skuli verja því fé eingöngu til kaupa á framleiðslutækjum og til annarrar nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar. Það er sem sé gert ráð fyrir því, enda er það nauðsynlegt, að áframhald verði á þeirri nýsköpun í íslenzku atvinnulífi, sem staðið hefur yfir á undanförnum árum. En til þess þarf að hafa ákveðna upphæð af þeim erlenda gjaldeyri, sem þjóðinni áskotnast, og nota hann sértaklega í þessu skyni. Og áður en ég kem lítillega að þessum sjö atriðum, skal ég taka fram út af fjárhagsráði, eins og tekið er fram í grg., að það voru uppi innan ríkisstj. fleiri en ein till. um það, á hvern veg fjárhagsráð skyldi skipað. Niðurstaðan varð sú að setja þetta í frv. eins og greinir í 2. gr. En eins og getið er um í grg., mun ríkisstj. fyrir sitt leyti vilja taka það til athugunar undir meðferð málsins hér á Alþ., hvort annar háttur virðist þar heppilegri. Ég vil taka þetta skýrt fram, vegna þess að þetta er eina atriðið, sem er að vísu ekki stórt fyrirkomulagsatriði, sem uppi voru innan ríkisstj. fleiri en ein till. um, hvernig skyldi leysa.

Áður en kemur að þessum sjö atriðum í 2. gr., þá er því slegið föstu í upphafi meginmáls gr., að hlutverk fjárhagsráðs sé að samræma framkvæmdir einstaklinga og almannavaldsins. Og til þess þarf að semja áætlun, sem ætlazt er til, að fylgt verði í framkvæmdinni. Er í byrjun 2. gr. gert ráð fyrir, að þessi áætlun verði samin.

1. og 2. tölul. 2. gr. eru um að tryggja næga og örugga atvinnu og að tryggja þeim, sem stunda framleiðslustörf, réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, og standa þessar gr. í órjúfanlegu sambandi við hina liðina, sem á eftir eru, og sérstaklega við 4., 5. og 6. lið í 2. gr. En í 4., 5. og 6. liðum er gert ráð fyrir áframhaldandi öflun nýrra framleiðslutækja, byggingum á verksmiðjum og iðjuverum og að atvinnuvegir landsmanna verði reknir á sem hagkvæmastan hátt á arðbærum grundvelli og stöðvist ekki vegna verðbólgu og dýrtíðar. Tveir fyrsta liðir 2. gr. standa í órjúfanlegu sambandi við þessa þrjá liði. 4., 5. og 6. lið þessarar gr. Og til þess að hægt verði að framkvæma undirstöðuatriðin, sem ég tel, að séu í 1. og 2. lið gr., um næga og vel borgaða atvinnu, þá þarf að vera hægt að halda uppi framkvæmdum samkv. 4., 5. og 6. lið. En til þess að hægt sé að halda uppi þeim framkvæmdum, sem um ræðir í 4., 5. og 6. lið, þá þarf áreiðanlega að koma betra og auknu skipulagi á íslenzkt atvinnulíf. Því er ekki að leyna, að við erum ekki alveg öruggir og áhættulausir hér í þessu þjóðfélagi. Það er margt, sem bendir til þess, að við þurfum að halda vel á spöðunum, notfæra okkur vel vinnuaflið í landinu og halda skynsamlega á fjármunum okkar til þess að geta haldið uppi þeirri velmegun, sem verið hefur í hinu íslenzka þjóðfélagi, og unnið að því að auka hana. Það eru ýmsar hættur, sem að geta steðjað, hættur, sem er rétt að gera sér alveg ljósa grein fyrir, að fram undan geta verið, sumar, sem eru lítt viðráðanlegar, en aðrar, sem er undir okkur sjálfum komið. hvort tekst að bægja frá okkur eða ekki. Það er ekki nokkrum vafa bundið, að sú hin mikla dýrtíð, sem nú sverfur að íslenzku þjóðfélagi, er stórkostlega hættuleg. Og þar má ekki mikið á aukast, til þess að atvinnu- og framkvæmdalífið stöðvist ekki.

Það er stefna þessarar ríkisstj. að reyna að gera ráðstafanir til þess að bægja frá þessari hættu eða stöðva hana — fyrst í stað að vísu með niðurgreiðslum, síðan með náinni athugun á því, hvað hægt er með samtökum neytenda. framleiðenda og ríkisvaldsins í heild að gera í þessum efnum. Menn býsnast oft yfir því, að það sé einkennileg leið og nokkuð hæpin að gera það, sem kallað er að borga niður dýrtíðina. Og jafnvel hafa menn talað um, að niðurgreiðslan á þessum sex stigum, sem framkvæmd hefur verið fyrir atbeina þessarar ríkisstj., verði siður en svo til að lækka hana, og jafnvel heyrist, að með þessu sé þrengt að kjörum manna í landinu. Þetta er að mínu viti byggt á misskilningi. Það er nú fyrst og fremst svo, að hver einasta þjóð, sem ég þekki til í nágrenninu, hefur gripið meira eða minna til þessara ráðstafana, að greiða niður verðlag á ýmsum vörum í landinu. Íslenzka löggjafar- og framkvæmdarvaldið hefur líka gert þetta um mörg ár. Og ef þetta hefði ekki verið gert og ekkert til þess að stöðva dýrtíðina, þá er engum vafa bundið, að íslenzkur atvinnurekstur væri hreinlega kominn í strand. Þegar talað er um, að það sé ekki mikil lækning á dýrtíðinni að borga niður þessi sex vísitölustig, sem hækkunin varð um síðustu mánaðamót, þá má geta þess, að áður en löggjafarvaldið tók ábyrgð á ákveðnu verði á íslenzkum sjávarafurðum, þá töldu margir, sem höfðu með höndum þann rekstur, að það væri ekki einu sinni hægt að halda rekstrinum áfram með því verði á afurðunum, sem ábyrgzt var, ef dýrtíðarvísitalan hækkaði nokkuð yfir 300 stig eða a.m.k. yfir 310 stig. Hvert stig til hækkunar á dýrtíðinni gerir íslenzkum atvinnurekstri erfiðara fyrir. Og menn gera sér ekki ljóst allir, að hvert dýrtíðarstig er dýrt fyrir ríkið, því að það hefur í för með sér stórkostlega aukin útgjöld fyrir ríkið. Það er talið, að það láti nokkuð nærri lagi, að hvert stig, sem dýrtíðin vex um, þýði um hálfrar millj. kr. aukin útgjöld fyrir ríkið og stofnanir þess — bara fyrir ríkið og stofnanir þess. Ef nú t.d. það kostaði ríkið 750 þús. kr. að greiða niður eitt vísitölustig og ef niðurgreiðslan hefði ekki verið framkvæmd, þá hefðu aukin útgjöld fyrir ríkið og stofnanir þess vegna þess stigs orðið hálf millj. kr. Aukin útgjöld úr ríkissjóði væru því raunverulega ekki nema 250 þús. kr., miðað við, að niðurgreiðslan á stiginu kostaði 750 þús. kr. í útlögðu fé. En hvað kostar svo þetta eina vísitölustig íslenzka atvinnuvegi yfirleitt? Það kostar íslenzka atvinnuvegi hundruð þús. kr. hvert einasta stig, sem dýrtíðin hækkar. Og það, sem verst er og alvarlegast, er, að ef dýrtíðarstigin verða mörg upp á við, þá er komið að þeim takmörkum, að atvinnuvegir okkar stöðvist. — Ég held þess vegna, að menn ættu að athuga mjög gaumgæfilega, að það er í sjálfu sér sjálfsagt, að meðan ekki er búið að finna nýja allsherjarleið til þess að spyrna við fæti til frambúðar gegn hækkun á, vöruverði í landinu, þá er niðurgreiðsla einasta leiðin, meðan verið er að athuga aðrar leiðir, sem unnt væri að fara. Og niðurgreiðslan er eðlileg fyrir ríkið sjálft og fyrir íslenzkan atvinnurekstur.

Þetta er að segja um dýrtíðina almennt. Á seinna stigi þessa mál, og í sambandi við önnur mál gefst kannske tækifæri til þess að fara nánar inn á þetta.

En þá er á það að minnast, að við horfum nú fram á þá staðreynd, að við erum komnir í vandræði með útlendan gjaldeyri nú eins og stendur, þó að vonir gætu verið til þess, að fljótlega rætist úr. En allt þetta sýnir okkur, að það verður að halda með skynsamlegu viti á framkvæmdunum í landinu, til þess að þær stöðvist ekki. Of mikið vaxandi dýrtíð getur stöðvað okkar framkvæmdir. Gjaldeyrisskortur getur líka stöðvað þær, ef ekki er haldið skynsamlega á ekkar málum. Og það er áreiðanlegt, að það eru viss takmörk fyrir því, hvað hægt er að framkvæma í íslenzku þjóðfélagi á stuttum tíma. Bæði okkar vinnuafl og okkar fjármagn er háð vissum takmörkunum. Það ber að nota til hins ýtrasta og verður að nota sem skynsamlegast á hverjum tíma, svo að það komi þjóðfélagsheildinni að sem mestum notum. Og má vel vera, að takmörk séu fyrir þessu á þann veg, að við getum ekki gert eins mikið og við viljum, Ísland er lítt numið land ennþá, og það hafa orðið stórkostlegar og miklar framfarir hér hjá okkur á síðustu tímum, sem gætu orðið til ómetanlegs gagns fyrir okkar þjóðfélag, ef vei væri á haldið á næstu tímum. En atvinnubylting, eins og orðið hefur í íslenzku þjóðfélagi, getur aldrei skeð til fullnustu á fáum árum í jafnlitt numdu landi og Íslandi. Í löndum, sem miklu lengra eru á veg komin og tekið hafa við miklu meiri arfi frá fyrri öldum, tekur það tugi ára að skapa þá umbyltingu og breytingu á atvinnulífinu, sem þarf að framkvæma. Hverju má þá búast við í okkar landi, þar sem lítið var fyrir, áður en þessi kynslóð tók við, af uppbyggðum atvinnuvegum og þar sem flest eða allt þarf að byggja nýtt. Þjóðin sjálf er alin upp í moldarkofum í sveitum annars vegar og hins vegar í hreysum við strandlengjuna, og hefur búið þar umliðnar aldir. Og fyrirrennarar okkar og fyrri kynslóðir hafa allt að síðustu aldamótum ekki skilað til afkomendanna neinum verulegum verðmætum, sem hægt var að byggja á í framtíðinni. Moldarkofarnir hafa gengið úr sér og gömlu hjallarnir við sjávarsíðuna sömuleiðis, svo að allt þarf að byggja upp nýtt til íbúðar úr góðu og varanlegu efni. — Og þá er ég kominn að mjög þýðingarmiklu atriði, bæði í sambandi við fjárhagsmál og atvinnumál okkar, sem eru byggingarmálin.

Með l. um verkamannabústaði á sínum tíma var gert mikið til að bæta ástandið í þessu efni. og einnig, þegar l. um samvinnubyggingar bættust við, og svo loks með l. um opinbera aðstoð við byggingar í kaupstöðum og kauptúnum var komið upp höfuðreglum og heildaráætlun, sem meiningin var að reyna að framkvæma. Maður heyrir oft talað um það manna á meðal, og sér um það talað í blöðum, að þessi síðast nefndu l. hafi orðið aðeins pappírsgagn. En því fer fjarri, þó að maður verði hins vegar að játa, að framkvæmdir eftir þeim hafi ekki orðið eins örar og æskilegt hefði verið og að fram undan bíði mörg merkileg og óleyst verkefni í byggingarmálum landsins. Til þess að benda á, að það er siður en svo, að ekkert hafi verið aðhafzt í þessum byggingarmálum á síðustu árum, eftir að þessi nýju l. komu, vil ég taka fram, að á árunum 1946 og væntanlega á þessu ári hefur verið gert ráð fyrir, hvað snertir byggingar verkamannabústaða, að í byggingu séu nú þegar á vegum byggingarsjóðs verkamanna á eftirgreindum stöðum: Í Reykjavík 52 íbúðir, í Hafnarfirði 32, á Ísafirði 10, á Húsavík 12. í Ólafsfirði 10, á Akureyri 18, í Siglufirði 30, á Dalvík 10, í Bolungavík 10. Samtals 184 íbúðir. — Ég veit vel, að þessar íbúðir hefðu þurft að vera langtum fleiri. En þetta er ekki ómerkilegur sigur, að fá þessar byggingarframkvæmdir, en verður þó að auka, og þarf mikið fjármagn og mikið vinnuafl til, ef hægt á að vera að fullnægja óskum manna í þessum efnum. Auk þessara 184 íbúða hefur verið lokið við að byggja á árinu 1946 eftirtaldar íbúðir á þessum stöðum: 10 í Vestmannaeyjum, 20 á Akranesi og 9 í Neskaupstað, eða 39 íbúðir samtals samkv. l. um verkamannabústaði.

Lán hafa verið veitt byggingarfélögum verkamanna samtals á árinu 1946 tæpar 6 millj. kr. og á árinu 1945 tæpar 2 millj. kr. Og þessu fé var varið til ýmissa kaupstaða og kauptúna á landinu, sem ég hef nefnt.

Auk bygginga verkamannabústaða hefur risið upp mikið af byggingum íbúða eftir l. um byggingarsamvinnufélög. Á vegum byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur á árinu 1946 28 íbúðir. Á árinu 1947 má nefna byggingarframkvæmdir þessa félags 53 íbúðir, byggingarsamvinnufél. starfsmanna stjórnarráðsins 16, íbúðir, byggingarsamvinnufél. Hofgarðs Reykjavík 24 íbúðir, byggingarsamvinnufél. Garðs Akureyri 14 íbúðir, byggingarsamvinnufél. rafvirkja Reykjavík 16 íbúðir, byggingarsamvinnufél. barnakennara 7, byggingarsamvinnufél. starfsmanna S.V.R. 6 á árinu 1946 og 10 á árinu 1947, byggingarsamvinnufél. Árroða Reykjavík 1947 26 íbúðir, byggingarsamvinnufél. Skjóls Reykjavík árið 1946 35 ibúðir, byggingarsamvinnufél. Bjargs Reykjavík 20 á árinu 1947, byggingarsamvinnufél. Ísafjarðar árið 1947 6 íbúðir, byggingarsamvinnufél. prentara Reykjavík árið 1946 15 íbúðir, byggingarsamvinnufél. símamanna Reykjavík árið 1946 29 íbúðir, en 1947 24 íbúðir, byggingarsamvinnufél. Stykkishólms árið 1948 1 og 1947 3 íbúðir, byggingarsamvinnufél. bankamanna 1947 17 íbúðir og byggingarsamvinnufél. Ólafsvíkur árið 1946 4 og 1947 2 íbúðir. — Samkv. þessu eru nýjar íbúðabyggingar á vegum byggingarsamvinnufélaga árið 1946 118 íbúðir, en árið 1947 238 íbúðir.

Ég nefni þetta til þess að sýna, að það hefur verið talsvert farið af stað í þessum efnum, þó að langt sé frá því, að fullnægt sé þeirri miklu eftirspurn, sem er eftir þessum byggingarframkvæmdum nú. Félmrn. hefur látið athuga, hvernig þetta liggur fyrir nú og hvaða óskir séu í þessum efnum nú til staðar, sem sagt um byggingu íbúða eftir l. um verkamannabústaði og l. um byggingarsamvinnufélög og l. um aðstoð við byggingar í kaupstöðum og kauptúnum. Samkv. skýrslu frá því ráðuneyti er eftirspurnin eftir verkamannabústöðum það mikil, að fyrir liggja lánbeiðnir frá 15 kaupstöðum og kauptúnum til bygginga á 293 íbúðum. sem þyrfti til um 23 millj. kr. sem lánsfé. Óuppfyllt loforð um lán til 5 kaupstaða í þessu skyni eru ca. 1.600.000 kr. Og umsóknir eru um lán frá 3 kaupstöðum, sem aðeins hafa fengið loforð um nokkurn hluta af lánum til bygginga sinna, samtala ca. 1.250.000 kr. Auk þess stendur byggingarsjóður í skuld við Landsbankann, sem nemur um 3.500.000 kr. — Samtals þyrfti því til þess að fullnægja eftirspurn eftir lánum til að byggja verkamannabústaði á árinu 1947 um 30 millj. kr.

Tekjur byggingarsjóðs verkamanna verða væntanlega á árinu 1947 um 3 millj. kr., sem eru aðallega tillög frá sveitarsjóðum, bæjarfélögum og ríkissjóði og svo örlítið framlag frá Tóbakseinkasölu ríkisins. Aðallega verður því að byggja á lánum, sem byggingarsjóðurinn útvegar, og verður því að greiða af tekjum sjóðsins mismun á lánskjörum, sem sjóðurinn verður að sæta, og þeim kjörum, sem byggingarfélögin njóta að lögum.

Svo kem ég að stóru atriði, sem er fjögurra ára áætlunin um íbúðarhúsabyggingar til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum. — Það hafa gefið sig fram 5 kaupstaðir og kauptún í þessu skyni og gefið upp þarfir sínar til að útrýma hjá sér heilsuspillandi íbúðum. — Ísafjörður telur sig í þessu skyni þurfa að reisa 32 íbúðir á næstu 4 árum og áætlar, að þurfa muni alls á þessum fjórum árum um 2 millj. kr. til þessara bygginga. — Akureyri áætlar, að til þess að koma frá heilsuspillandi íbúðum þar á næstu fjórum árum þurfi að reisa þar 40 íbúðir. Og til þess þyrfti á næstu fjórum árum, miðað við áætlunina um Ísafjörð, um 3.000.000 kr. — Sauðárkrókur telur, að reisa þurfi í þessu sama skyni þar 36 íbúðir og áætlar, að þær muni kosta um 1.800.000 kr. í lánsfé frá ríkissjóði. Hann áætlar verð hverrar íbúðar 50 þús. kr. — Ólafsfjörður telur, að reisa þurfi í þessu skyni 16 íbúðir, en gerir ekki áætlun um kostnað. En miðað við Sauðárkrók mundi til þess þurfa um 800.000 kr. á næstu 4 árum. — En þörfin í Reykjavík er vegna fólksfjölda eðlilega langstórkostlegust. Samkv. skýrslu borgarstjórans í Reykjavík, dags. 1. marz s.l., er gert ráð fyrir, að útrýma þurfi 461 heilsuspillandi íbúð í Reykjavík. Og sé reiknað með byggingarkostnaðaráætlun og samkv. reynslu, sem fyrir hendi er í þessum efnum, þá þarf að reikna með því, að áætla þurfi í þessu skyni ekki minna fé en 70 þús. kr. til byggingar hverrar íbúðar. Til þeirra þarf ca. 5 millj. kr., er greiðast þurfa þegar á þessu ári. Vantar þá fé til að byggja ca. 390 íbúðir, eða um 27 millj. kr., sem Reykjavíkurbær þyrfti að fá til þessara bygginga í lánum. Aðstoðin til Reykjavíkur þyrfti þá alls að vera ca. 32 millj. kr., eða ca. 8 millj. kr. á ári næstu 4 árin.

Þetta er dæmi um það, hve þörfin er mikil á byggingum til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, sem gert er ráð fyrir í 7. og síðasta lið 2. gr. þessa frv. Ég orðlengi svo mikið um þetta atriði af því, að ég tel það mjög mikilvægt, og það ekki einungis frá sjónarmiði hins íslenzka þjóðfélags — en það er mjög mikilvægt þjóófélagsatriði fyrir okkur — heldur einnig af því, að þetta er málefni, sem flestar þjóðir eiga nú í mesta stríði út af. T.d. er í Bretlandi sérstakt ráðuneyti, sem hefur með nýbyggingar að gera. En af völdum styrjaldarinnar hafa geysimörg hús farið þar forgörðum. Svo er og um annað land, sem komst hjá hörmungum stríðsins í þessu efni. Svíþjóð, sem er auk þess vel statt land fjárhagslega. Þar er eitt hið örðugasta viðfangsefni, sem Svíar hafa að glíma við, bygging nægilegra og hentugra íbúða fyrir landsmenn. Þetta er því ekki einstakt fyrirbæri hér hjá okkur, heldur vandamál, sem svo að segja allar þjóðir hafa við að glíma. Ég veit, að mikil þörf er fyrir úrlausn í þessum efnum á Íslandi. Og ég veit, að ef vel ætti að vera, þyrfti að fá á þessu ári um 40 til 50 millj. kr. til útlána til þess að byggja íbúðarhús á Íslandi.

Það þarf líka efni og íslenzkt vinnuafl til þess að hrinda í framkvæmd þessum byggingum. Undanfarin ár hefur það aðallega verið skortur á vinnuafli og fjármagni, sem hefur hindrað framkvæmdir í þessum efnum. En með fjárhagsráðinu ætti að vera hægt að leggja til grundvallar eina allsherjar áætlun um þetta. Og búið er þá í fyrsta sinn með framkvæmd l. um fjárhagsráð, þegar þau koma til framkvæmda, að þoka til hliðar ónauðsynlegum byggingum og láta félagsbyggingar á íbúðarhúsum sitja í fyrirrúmi fyrir þeim. Þetta er einmitt einn af þeim kostum, sem skipulagið eftir l. um fjárhagsráð hefur í för með sér.

Það hefur sannarlega mikið verið gert á síðustu árum að byggingum íbúða fyrir utan félagsbyggingar á þeim, svo og byggingum vegna annarra verklegra framkvæmda. Í því sambandi vil ég nefna — sem vel lýsir því, hve stór skref hafa verið tekin í þessu sambandi —, að innflutningur sements var fyrir stríð venjulega á ári um 20 þús. tonn. [Í handr. vantar, frh. ræðunnar og upphaf að þeirri næstu.]