13.03.1947
Neðri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 724 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 517, mun nú vera eitthvert stærsta mál, sem lagt hefur verið fyrir Alþ. á síðari árum, og má því ætla, að ekki þyki nein undur, þótt umr. um slíkt mál taki nokkurn tíma, því að í rauninni virðist svo sem þessari n., sem hér á að stofna, sé ætlað að fjalla um allt, sem á að gera í okkar þjóðfélagi. Aðalatriðið er, að stofna skal 4 manna stjórnskipaða n. til þess að ráða, undir yfirstjórn stjórnarinnar, hvað eigi að gera hér í þessu landi. Mér virðist, að með þessu fyrirkomulagi sé alllangt gengið inn á það verksvið, sem Alþ. hefur haft sjálft, og því verði að athuga nánar, hvort farið skuli inn á þá braut, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég skal til að byrja með minnast á það, að það mun fyrst hafa verið árið 1931, sem gengið var inn á haftastefnuna í verzlunarmálum okkar lands, og það er hafta.stefnan í verzlunarmálum, sem er aðalatriðið í þessu frv. Það er þess vegna ekki úr vegi, að við gerum okkur grein fyrir, hvernig þessari haftastefnu er beitt. Þessi stefna var smátt og smátt að aukast á árunum 1934–1937 og svo nokkuð á síðari árum, þannig að hún hefur farið vaxandi, en hámarki sínu sýnist mér hún eiga að ná samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Því hefur oft verið haldið fram af þeim, sem hafa haldið með verzlunarhöftunum, að með þeim fengist betra fyrirkomulag á verzlunina og öryggi fyrir því, að verzlunargróðinn yrði minni en ella. Þetta hefur mér virzt vera öfugt, og enda svo, að í verzlunarstétt er nú meiri fjöldi manna en nokkru sinni áður, eins og kom fram í ræðu forsrh. áðan, þegar hann sagði, að þessi stétt væri orðin það fjölmenn, að það yrði að athuga, hvort ekki yrði að setja einhver höft á aukningu hennar. En það, sem hefur gert þetta að verkum, er það. að haftastefnan hefur verið framkvæmd á þann hátt, að ekkí hefur verið reynt að auka verzlunarþekkingu, heldur hefur verið byggt á því, að mönnum hefur verið úthlutað leyfum, og allir, sem hafa getað fengið leyfi, hvort sem þeir hafa haft til þess þekkingu eða ekki, hafa getað stundað þessa atvinnu með góðum hagnaði. Nú hefur keyrt um þverbak fyrir almenningi, síðan sú regla var upp tekin að miða alla álagningu við prósentgjald af kostnaði vörunnar og kostnaði, sem á hana fellur, þannig að þeir hafa grætt mest á verzlunarviðskiptum, sem hafa keypt inn hæstu verði. Af þessum sökum hafa smátt og smátt verið útilokuð frjáls samskipti í verzlunarmálum, vegna þess að það, hvað hvert verzlunarfyrirtæki hefur haft mikið með að verzla, hefur byggzt á því einu, hve mikil leyfi það hefur fengið fyrir gjaldeyri og vörum.

Það er nú tilgangurinn, eftir því sem segir í þessu frv. — og þó öllu heldur eftir því sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. —að stefna að því að leiðrétta þetta og leiðrétta það á þann hátt að láta þau fyrirtæki sitja fyrir leyfum, sem hafa fullkomnastan rekstur og geta sýnt fram á, að þau hafi tækifæri til þess að ná sem beztum innkaupum. En mér fyrir mitt leyti finnst, að þetta frv. sé meira orðagjálfur en svo, að hægt sé að byggja á því, að maður hafi nokkuð fast undir fótum.

Ákvæðin um þetta eru í 12. gr. frv., og þar segir, að það skuli úthluta til innflytjenda innflutningi á þeim vörum. sem háðar eru leyfisveitingum, og setja þau skilyrði um hann, sem nauðsynleg kunna að vera vegna viðskiptasamninga eða af öðrum ástæðum. Sé úthlutun leyfanna við það miðuð, að verzlunarkostnaður verði sem minnstur. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu.

Ég er nú heldur á því, að það verði býsna mikill ágreiningur um það nú þegar, hvernig þessu skuli skipta, og þurfi ekki neitt fjárhagsráð eða nýja n. til þess að sýna, að nokkuð mikill ágreiningur er um þessa hluti. Þetta frv. mun fara til fjhn. þessarar d. Þar eiga sæti hv. 3. þm. Reykv. (HB), sem er formaður Verzlunarráðs Íslands, og hv. þm. Húnv. (SkG), sem er einn af helztu forkólfum kaupfélaga þessa lands. Ég get hugsað mér, að þessum mönnum muni ekki koma saman um það í þessari n., hvort kaupmenn eða kaupfélög geti sýnt fram á það fyrir fram, hvorir geti keypt vörur með lægra verði. Mér sýnist, að ef menn hafa í hyggju að útfæra haftastefnuna meira en hingað til og koma á jafnvægi, væri meira virði, að þetta fjárhagsráð væri látið miða álagninguna — ekki við prósentgjöld, heldur við vörueiningar. Ég held, að sanngjarnara sé að borga jafnt fyrir að selja eitt tonn af mjöli, hvort sem það er hér í Reykjavík eða austur á landi eða vestur á landi, en að fara eftir því, við hvaða verði keypt er inn. Þetta atriði er til athugunar, og vil ég ekki fara út í það hér, en ég er þeirrar skoðunar, að til þess að við fáum bætta verzlun, verði hún að vera frjáls, en ekki bundin, og það verði að vera skilyrði, að þeir, sem hafa mikla þekkingu á verzlunarsviðinu, verði að fá að njóta sin. Hitt er vitað mál, að verzlunarsamningar við erlend ríki hafa sín áhrif, og það kemur fram, án þess að ný skipan verði gerð á þessum málum.

Aðalatriði þessa frv. er að finna í 2. gr. þess, og er það fyrst að segja, að mér kemur það undarlega fyrir sjónir, eftir því sem ég vissi um áður, að þetta skuli eiga að vera stjórnskipuð 4 manna n., því þegar tilgangur n. er, að Alþ. eigi að setja meiri hl. af því valdi, sem það hefur haft, undir n., þá er undarlegt, að það skuli ekki mega kjósa þá n., sem á með það að fara. Ég ætla nú, að áður en málið fer úr þessari d., hljóti að verða átök um það — og það átök. sem úr skera —, hvort þm. vilja takmarka svo vald Alþingis, að þm. megi ekki kjósa það ráð, sem hér er um að ræða. Að öðru leyti er þessi grein fremur eins og hún væri stefnuskrá stjórnmálaflokks en löggjafaratriði, því að það er eins og þetta framkvæmdarráð eigi að laga allt, sem aflaga fer í okkar þjóðfélagi. Ég held því, að fyrirmæli þessarar greinar verði ekki mikils virði.

6. liður hennar er um það, að ráða fram úr okkar dýrtíðarvandamálum, sem hefur verið verkefni og deilumál hér á þingi síðan stríðið byrjaði, og þykir mér undarlegt, ef miklu meiri árangur er að því að fela þessu fjárhagsráði að ráða fram úr því heldur en hefur orðið á undanförnum tímabilum. Annars vil ég taka fram í sambandi við dýrtíðarvandamálið, sem er mjög umrætt mál, að undirstaðan að því, hvernig hefur farið með þessa áframhaldandi skrúfu á dýrtíðarsviðinu, er vísitölulöggjöfin frá 1940, og frá mínu sjónarmiði er það í rauninni heimska að tala um dýrtíðarstöðvun, sem nokkru máli skiptir og á að hafa áhrif, á meðan þessi l. eru óbreytt. Þess vegna verður, ef alvarlegur vilji er fyrir því að ráðast á þetta, að ráðast á þá víxlskrúfu, sem er komin milli verðlags og kaupgjalds, og það er auðvitað vísitalan.

Viðvíkjandi byggingamálunum er það að segja, að eins og kom fram í ræðu hæstv. forsrh., þá eru líkur til þess, að þetta frv. hafi í för með sér höft á því sviði. Það er kannske þörf á höftum, en þau höft ættu að vera hjá Alþ., en ekki stjórnskipaðri n. Hæstv. forsrh. gaf skýrslu um þær húsabyggingar, sem þörf er á í ýmsum kaupstöðum, og komst að þeirri niðurstöðu, að það þyrfti um 40 millj. kr. lán til þess að fullnægja þessu, en hann gekk fram hjá öllum kauptúnunum, fyrir utan allar sveitirnar og ennfremur opinberar byggingar, sem fara vaxandi. Nú virðist mér. að samkv. þessu frv. og þeim ráðstöfunum, sem ætlazt er til, að gerðar verði í sambandi við það, verði þeir menn, sem ætla að hefja framkvæmdir í byggingarmálum, að fara í gegnum margfaldar girðingar. Ég vil benda á það, að samkv. l. um nýbýlasjóð er okkur í nýbýlastjórn leyft að ráða, hverjir byggi á jörðunum. Við beitum þessu valdi mjög frjálslega, en það virðist ekki vera nein trygging fyrir því, að viðkomandi bændur fái komið því í verk, vegna þess að það getur orðið stoppað af þessu fjárhagsráði, sem á að hafa úthlutun á byggingarefni og ráða, hvað megi gera og hvað ekki megi gera.

Nú er það svo, að þótt talað sé um vöntun á íbúðarhúsum í hinum og öðrum bæjum, þar sem fólk hópast saman, er það ekki síður svo í sveitunum, því að þar eru heilir hreppar, þar sem þyrfti að byggja upp á hverri jörð. Og nú er það svo, að ef á að setja upp þetta stórráð, sem á að ráða því, hvort byggja megi upp á þessum staðnum eða hinum, væru líkur til, að gæti gætt nokkurrar hlutdrægni í úthlutun milli bæja og sveita. Nú eru ekki komin til framkvæmda fyrirmæli um aukna aðstoð til byggingarmála, en þar er svo ákveðið, að til endurbygginga í sveitum leggi ríkið til sem lánsfé 21/2 milljón króna á ári.

Ég lít þannig á þetta ákvæði 7. liðar 2. gr., eins og mörg hinna, að það sé frekar hægt að segja, að þau séu stefnuskráratriði, en að líklegt sé, að það komist til framkvæmda, að þetta ráð komist yfir að stjórna, hvaða byggingar megi ráðast í og hverjar ekki. Þó tekur út yfir í þeirri stefnu, sem fram kemur í 5. gr. frv., því að þar er greinilega fram tekið, að ekki megi ráðast í neinar framkvæmdir og ekki flytja inn neina vöru nema með leyfi fjárhagsráðs, og að jafnvel þurfi leyfi þess til að halda áfram framkvæmdum, sem þegar hefur verið byrjað á, en ekki er að fullu lokið. Þetta þykir mér furðu sæta, og í heild verð ég að segja, að ég undraðist mjög, er ég hlustaði á ræðu hv. 2. þm. Reykv.. sem er form. Sósfl., að hann skyldi ekki taka fegins hendi þessu frv., því að raunverulega er það hið allra kommúnistíska frv., sem nokkurn tíma hefur verið lagt fyrir hv. Alþ., síðan ég kom hingað inn á þing. Þess vegna hefði ég álitið, að hann hefði tekið fegins hendi svo róttækum aðgerðum, sem þetta frv. felur í sér, en nú virðist svo sem hæstv. ríkisstj. ætli sér að framkvæma kommúnismann í andstöðu við sjálfa kommúnistana hér á Alþ.

Ég held, að það hafi verið árið 1935, að hér á þingi varð hörð senna um frv., sem hlaut nafnið Rauðka. Sú Rauðka náði fram að ganga og síðan einar tvær eða þrjár aðrar, en þetta frv., sem hér liggur fyrir. er sú allra stærsta Rauðka, sem nokkurn tíma hefur átt að stofna til.

Viðvíkjandi öðrum atriðum í þessu sambandi er þess að geta, að þegar talað er um, að hér sé verið að fara inn á nýjar leiðir með því að reka allt okkar þjóðfélag samkvæmt fast fyrir fram gerðri áætlun, sem þetta valdamikla fjárhagsráð eigi að undirbúa, þá fer nú að verða næsta lítið um atvinnufrelsi í okkar landi. Verð ég að segja það, að mér finnst fullkomin ástæða til að stinga hér við fæti á einhvern hátt, áður en frv. þetta er samþ. í því formi, sem það hefur verið lagt fram í.

Einn kafli þessa frv. fjallar um verðlagseftirlit. Um hann er það sama að segja og ég nefndi áðan varðandi innflutningsverzlunina, að þar verður að vera betur um hnútana búið en gert er samkvæmt frv., ef þar á að gera verulegar breytingar á til bóta á þann hátt, að þeir, sem hafi mikla þekkingu á þessu sviði og að öðru leyti tækifæri til þess að reka verzlun, sem er hagkvæmari fyrir almenning, fái að njóta sín. — Sannleikurinn er sá, að þar sem gert er ráð fyrir ákaflega miklu valdi fjárhagsráðs, þá er mjög mikið undir því komið, hvort það geti orðið sammála um hin ýmsu verkefni þess og að það þurfi ekki oft að skjóta ágreiningi sínum til ríkisstj., eins og gert er ráð fyrir samkvæmt frv., þegar um ágreining innan ráðsins er að ræða. Veltur því á mjög miklu, hversu frjálslyndir menn skipi fjárhagsráð og hvernig þeim tekst að vinna sitt verk.

Ég mun ekki að þessu sinni fara mikið frekar út í að ræða þetta stóra mál. Til þess mun gefast tækifæri, áður en það fer héðan út úr hv. d. Verð ég að láta þá skoðun mína í ljós, að það er algerlega útilokað, að ég geti fylgt þessu frv., nema því aðeins, að það taki stórbreytingum frá því, sem það nú er, fyrst og fremst hvað það atriði snertir, að ekki verði það vald tekið af Alþ., að það fái ekki að kjósa menn í fjárhagsráð. sem eiga að fara með svo mikið af fjárhagsvaldinu, sem Alþ. hefur haft hingað til. — Það má að vísu segja, að Alþ. geti breytt l., en slíkt gæti orðið býsna þungt í vöfum, og verður því að beita allri varfærni við að samþykkja slík l., sem þrengja svo valdssvið Alþ., sem mér virðist gert með þessu frv., ef að l. verður. Ég verð að líta svo á. að þetta frv. sé eitt hið mesta haftafrv., sem lagt hefur verið fyrir hv. Alþ., og vænti þess fastlega, að hv. fjhn. athugi það mjög gaumgæfilega, áður en hún afgreiðir það frá sér.