13.03.1947
Neðri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (732)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lagði á það mikla áherzlu, að með þessu frv., ef að l. verður, fengist veruleg lausn á húsnæðisvandamálum þjóðarinnar. Það var vissulega eðlilegt, að þetta mál yrði ofarlega í huga hæstv. ríkisstj., þegar hún legði fram frv. um fjárfestingu. Finnst mér sérstök ástæða til að athuga þau ákvæði frv., sem að því lúta að leysa þetta vandamál, og reyna að gera sér grein fyrir því, hversu miklar líkur séu til, að um raunverulega lausn sé að ræða að fenginni reynslu í þessum efnum.

Það ákvæði, sem um þetta fjallar, er í fyrsta lagi 7. liður 2. gr. Þar segir, að eitt af verkefnum fjárhagsráðs skuli vera það: „að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, verði útrýmt með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa.“ Er þetta að sjálfsögðu falleg, æskileg og þörf stefnuyfirlýsing. — Við skulum svo athuga frv. nánar og líta á það, hvernig eigi að tryggja þessa fögru yfirlýsingu í framkvæmdinni. Ég kem hins vegar ekki auga á mörg atriði í frv., sem að þessu miða. Ef til val ber þó að skilja, að niðurlag 4. gr. frv. eigi eitthvað að þessu að miða. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú telur fjárhagsráð eigi nægilega séð fyrir fjárþörf fyrirtækja, er það telur nauðsyn til að stofnsetja, og skal það þá leita samvinnu við ríkisstj., lánsstofnanir og aðra aðila, er hlut gætu att að máli, um fjáröflun til þessara fyrirtækja.“ Ég býst við, að þetta ákvæði nál til þess, að leita eigi samvinnu við ríkisstj., lánsstofnanir eða aðra aðila til þess að ráða fram úr fjárhagsvandamálum, ef um fjárskort er að ræða hjá fyrirtækjum, sem fjárhagsráð telur nauðsyn til að stofnsetja. Þá er það rétt, að 5. gr. snertir þetta atriði nokkuð. Þar er svo ákveðið, að til þess að ráðast í hvers konar framkvæmdir skuli koma til leyfi fjárhagsráðs. þ.e.a.s. að til þess að mega byggja hús þarf leyfi ráðsins. Það er síður en svo, að ég lasti ákvæði sem þetta. því að með þessu er hægt að hindra byggingu húsa, sem ekki er brýn þörf á, meðan húsnæðisskortur er tilfinnanlegur í landinu og meðan fjöldi fólks býr í heilsuspillandi húsnæði.

Þá er og rétt að athuga, hvað er til í l. varðandi þessi mál. — Það er ekki langt síðan hv. Alþ. fjallaði um húsnæðisvandamálið, sem sé á síðasta þingi. Þá var hv. þm. ljóst, að hér var um mjög stórt vandamál að ræða. og flokksbróðir hæstv. forsrh., fyrrv. félmrh. og dómsmrh. (FJ), lagði þá fram frv. til l. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Þetta frv. varð að l., eftir að hafa tekið smávægilegum breytingum í meðförum hv. Alþ. Er nú rétt að athuga, hvaða ákvæði finnist í þessum l., sem stefna í líka átt og ákvæði varðandi þessi mál í frv. því, sem hér liggur fyrir, og hvaða áhrif þessi ákvæði í l. hafa haft til að leysa húsnæðisvandamálið. Ég vil sérstaklega benda á 3. kafla l., sem fjallar um íbúðabyggingar sveitarfélaga. Sá kafli lýtur að því að gera sveitarfélögum skylt að ráða bót á húsnæðisskortinum og útrýma heilsuspillandi íbúðum, og í 29. gr. l. er tekið fram, að að því skuli stefnt að útrýma öllum heilsuspillandi íbúðum á ekki lengri tíma en 4 árum. Hér er sem sé í l. sams konar ákvæði og í 7. lið 2. gr. frv., en ákveðnara þó, því að sá liður segir aðeins með almennum orðum, að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, eigi að útrýma með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa. Í l. er sveitarfélögunum hins vegar falið þetta verk, og eiga þau að hafa lokið því á 4 árum, þ.e. eftir 3 ár frá því herrans ári, sem við lifum nú á. Hér er því ekki um neitt nýmæli í frv. að ræða. — Í 38. gr. l. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Á meðan skortur er á íbúðarhúsnæði í landinu og erfiðleikar eru á innflutningi nægilegs byggingarefnis að dómi ríkisstj., skal viðskiptaráð, á meðan það starfar, ella sú stofnun, sem ríkisstj. ákveður, kveða á um, til hverra nota fari það byggingarefni, sem flutt er til landsins.“ Hér eru því fyrir hendi skýlaus fyrirmæli um skömmtun byggingarefnis, meðan núverandi ástand varir. Viðskiptaráð skal taka upp þessa skömmtun eða sú stofnun, sem ríkisstj. ákveður í þess stað. Hvað þýðir nú slík skömmtun? Hún þýðir það, að viðskiptaráð eða önnur stofnun, sem kemur í þess stað, getur ráðið því, í hvaða byggingar er ráðizt. Það þarf leyfi þess aðila, sem hér um ræðir, til vissra byggingarframkvæmda, hann getur lagt bann við öðrum. Hér er því um nákvæmlega sama efni að ræða og 5. gr. frv. fjallar um. — Mín niðurstaða af þessum samanburði er því sú, að í frv. því, sem hér liggur fyrir, sé ekkert nýtt ákvæði um byggingarmálin, því að allt, sem þar er nefnt varðandi þessi mál, er til í l. nú þegar. Sé ég enga ástæðu til að ætla, að þótt þau ákvæði, sem eru í l. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, verði sett í ný lög og á nýjan pappír, þá verði þau áhrifaríkari en þau hafa reynzt á gamla pappírnum til þess að bæta úr húsnæðisvandamálinu.

Hæstv. forsrh. gaf hér yfirlit um það, hvernig ástandið væri nú í þessum málum. Las hann upp tölur um nokkra bæi og þorp, sem sýna, að þar er mjög mikil þörf á umbótum á þessu sviði, sem enn hafa ekki verið framkvæmdar og ekki hefur verið talið tiltækilegt að ráðast í. Ég gæti gefið nokkrar viðbótarupplýsingar í þessum málum. Ég hygg, að það leiki ekki á tveim tungum, að löggjöfin um byggingarfélög verkamanna hafi verið hin skynsamlegasta á þessu sviði. Nú standa sakir þar þannig, að byggingarsjóð verkamanna vantar 22966000 kr. til þess að geta orðið við beiðnum þeim, sem fyrir liggja frá byggingarfélögum verkamanna, og auk þess vantar 1,5 millj. kr. til þess að uppfylla þegar gefin loforð. Til þess að gefa yfir þetta glöggt yfirlit skal ég skýra frá því, að í Reykjavík hefur verið sótt um lán fyrir kr. 8000000, í Keflavík fyrir kr. 2100000, Hafnarfirði kr. 2000000, frá Húsavík kr. 2000000, Akranesi kr. 1240000, Ólafsvik kr. 1400000, Neskaupstað kr. 600Ð00, Dalvík kr. 700000, Eskifirði kr. 500000, Patreksfirði kr. 70000Ð, Sauðárkróki kr. 770000, Djúpavogi kr. 576000, Búðahreppi kr. 420000, Bolungavík kr. 1120000 og á Ísafirði kr. 840000. Nokkrar fleiri beiðnir liggja fyrir frá smærri stöðum, sem enn hefur ekki verið unnt að sinna. En það eru ekki aðeins byggingar verkamanna, sem þannig er ástatt um. Allt í kringum land — í þorpum, kaupstöðum og kauptúnum — hafa samvinnubyggingarfélög risið upp, sem hafa viljað hefja stórar framkvæmdir, en þær hafa hins vegar tafizt vegna skorts á lánsfé. Enn eru margir einstaklingar, sem hafa verið að leitast við að byggja yfir sig og sína, en hafa orðið að stöðva slíkar framkvæmdir, vegna þess að lánsfé hefur vantað. Og enn er sagan ekki öll. Æði margir kaupstaðir hafa þegar hafizt handa um að bæta úr húsnæðisvandræðunum, þ.e. að útrýma heilsuspillandi húsnæði samkvæmt l. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Ekkert af þessum bæjarfélögum hefur hins vegar enn fengið grænan eyri úr ríkissjóði til þessara framkvæmda, þótt þau eigi samkvæmt l. að fá þaðan 85% af byggingarkostnaði. Þá er og þess að geta í þessu sambandi, að þegar fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæjar var rædd nýlega á bæjarstjórnarfundi, voru það stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sem drógu það mjög í efa, að ríkið gæti uppfyllt þessi l., þannig að það gæti látið af hendi rakna það lánsfé, sem kaupstöðum ber til byggingarframkvæmda þeirra samkv. l.

Ég hef rakið þetta hér að ofan til þess að sýna fram á, að þótt l. frá síðasta þingi, um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, séu að formi til á margan hátt hin prýðilegustu og þeirra tilgangur mjög góður, þá hefur ekki orðið eins mikið úr framkvæmdunum, vegna þess að meginatriðið vantar í l., sem sé hvernig eigi að afla fjárins til þessara framkvæmda. Nú er hér komið nýtt frv., þar sem stiklað er á nokkrum helztu ákvæðunum í þessum l., og þar er ekkert nýtt sagt um byggingarmálin og engin fyrirmæli um það, hvernig eigi að afla fjár til byggingarframkvæmdanna. Það vantaði hins vegar ekki, að á þetta væri bent, þegar verið var að ræða frv. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Lét ég þá orð falla, að hv. Alþ. gerði ekki skyldu sína, ef það skildi svo við þessi l., að í þeim væru ekki skýr ákvæði um, hvernig fjárins skyldi aflað. Ég benti þá á, að ef þetta yrði ekki gert, væri hætta á, að l. yrðu ekki annað en pappírsplagg og lítið yrði úr framkvæmdum, og bar ég fram brtt. við frv., um að ætla ákveðin fjárframlög til þessara framkvæmda. Hæstv. núverandi forsrh. tók vel í þessa till. og sagði, að æskilegt væri. að slíkt ákvæði væri í l., en að betur athuguðu máli taldi hann þó ekki nauðsyn á slíku. Hvað snerti byggingu verkamannabústaða, benti hann á, að leita skyldi vinsamlegrar samvinnu við Landsbanka Íslands um lánsfé, og þetta ráð þótti honum því ágætara, þar sem aðalbankastjórinn, hr. Magnús Sigurðsson, ætti sæti í stjórn byggingarsjóðsins. Af þessari ástæðu fannst hæstv. forsrh. það viðhlítandi að láta frv. verða að l., án þess að í því væru ákvæði um það, hvernig skyldi afla sjóðnum tekna, og ég sé það nú, að þrátt fyrir fengna reynslu, þrátt fyrir það að þennan sjóð vanti nú nálega 25 millj. kr. til þess að standa við gefin loforð um lán og til þess að fullnægja beiðnum, sem eru óafgreiddar, treystir hæstv. forsrh. sér enn inn á sömu braut. Hann segir bara, að leita skuli samvinnu við Landsbanka Íslands eða aðra þá aðila, sem þessi mál hafa með höndum, ef fé vanti til framkvæmdanna.

Skal ég svo ekki fara miklu fleiri orðum um þetta atriði. en ég hygg, að allt þetta frv. frá upphafi til enda sé með því sama marki brennt sem ákvæðin um lausn húsnæðisvandamálsins, sem sé að hér sé um að ræða göfug fyrirheit og frómar bollaleggingar, en að það vanti hins vegar á hverjum stað og í hverju atriði aflið, sem þarf til framkvæmdanna. Það vantar ákvæði um það, hvernig fénu skuli beint inn á þær brautir, sem fjárhagsráð vill láta það streyma inn á.

Mér dettur í hug í þessu sambandi, að það er oft sögð sú saga um okkar forna lýðveldi, að það setti sér löggjöf með þeim hætti, að sæmilega gat talizt séð fyrir tveim þáttum núverandi ríkisvalds, sem sé fyrir löggjafarvaldi og dómsvaldi, en þriðja þáttinn vantaði, það vantaði framkvæmdarvaldið. Afleiðingin varð sú, svo sem kunnugt er, að okkar forna lýðveldi beið skipbrot, fyrst og fremst vegna þess, að framkvæmdarvaldið vantaði. Ég hygg, að því muni eins varið með þá löggjöf, sem hér um ræðir, að stefnt sé að skipbroti, af því að hér vantar raunverulega framkvæmdarvaldið.

Ég hygg þetta frv. hafi alla þá ókosti, sem skipulagningu geta fylgt, en óneitanlega hefur það nálega enga kosti hennar. Þetta frv. tekur fram, hvað bannað sé, þú mátt ekki verzla, þú mátt ekki byggja o.s.frv., og þetta getur verið ágætt. Og hins vegar: Þú mátt verzla, þú mátt byggja, þú mátt framkvæma o.s.frv., og það er líka ágætt út af fyrir sig. En óumflýjanlegt skilyrði vantar, að þetta sé tryggt, að tryggt sé, að maður geti verzlað. byggt o.s.frv., því að ekkert af þessu er tryggt samkv. frv. Þar er hvergi stigið heilt spor, af því að hvergi er komið inn á það að segja bönkunum fyrir verkum. En áætlunarbúskapur eða „planökonomi“ er ekkert annað en fjarstæða, ef valdið, sem bak við hana stendur, er ekki þess megnugt að ráða því, hvert straumar fjármagnsins liggja. Ég hef við annað tækifæri bent á, að segja verði og taka fram í sambandi við slíka áætlun, svona mikið fjármagn á að festa í þessari atvinnugrein á þessu tímabili, svona mikið í verzlun, svona mikið í byggingum, svona mikið í sjávarútvegi o.s.frv., og þá fyrst er um áætlunarbúskap að ræða, er þannig er haldið á málunum. En um þetta er ekki stakt orð í frv. Mér liggur við að segja, að þar sé aðeins skipulagning eymdarinnar og volæðisins, að þar sé engin skipulagning. Eitt valdið segir: Þú mátt, þú mátt ekki. Annað valdið segir: Nei, ekkert fé til. Þetta er óhæfa, og með þessu er stefnt út í hreina vitleysu.

Hv. þm. A-Húnv. lét í ljós undrun sína yfir því, að við hv. 2. þm. Reykv. skyldum ekki taka þessu frv. eins og fagnaðarboðskap, þar sem hér væri þó um að ræða hinn tandurhreinasta „kommúnismus“, sem þekkzt hefði hér á landi. Það er nú hægt að fyrirgefa þessum hv. þm. það, að hann skuli ekki vera þrautfróður um sósíalisma, ég geri ekki þær kröfur til hans. Þó mætti hann vel vita af samstarfi og kynningu við okkur sósíalista, að við lítum raunhæft á málin. Það er rétt, að við viljum ákveðna áætlun og erum samþykkir því að marka einkaframtakinu bás, en við viljum ekki þetta eitt, heldur viljum við tryggja framkvæmd þeirrar áætlunar eins og hægt er. Í þessu frv. er framkvæmd hvergi tryggð, og því get ég sagt með hv. þm. A-Húnv., að ég sé mér ekki fært að greiða því atkv., en þó af allt öðrum ástæðum en hann. Ég er ekki á móti því af þeim sökum, að gengið sé svo mjög á rétt einstaklinganna, eins og hann sagði, heldur af því, að hér er hrúgað saman höftum, án þess að tryggðar séu framkvæmdir, þetta er skipulagning eymdarinnar, eins og ég sagði áðan.

Ég held, að það sé ekki rétt hjá hv. þm. A-Húnv., að hér sé fædd stóra Rauðka, afkvæmið er óásjálegt, magurt og mjótt sýnist mér, alveg á horleggjunum og þarf áreiðanlega gott fóður, ef það á að þrífast.

Ég held ég þurfi svo ekki að orðlengja þetta öllu meir. Ég hef nú með ljósum rökum sýnt fram á, að í þessu frv. eru engin ný ákvæði um húsnæðismálin. Þau ákvæði. sem þar eru um húsnæðismál, eru fyrir í lögum og hafa þegar reynzt lítils virði. að ég ekki segi einskis virði. Og ég staðhæfi, að allt er það eins í þessu frv. Þar eru frómar óskir, en það' skortir. að séð sé fyrir framkvæmdunum, svo að hér er ekki um lífgimbur að ræða. Þetta er illa gert frv. í alla staði og þarf gerbreytingar við, ef það á að ná þeim tilgangi. sem stefnt er að.