14.03.1947
Neðri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það er nú kunnara en frá þurfi að segja, að stjórnmálaflokkana greinir mjög á um það, með hverjum hætti eigi að leysa þau vandamál, sem að steðja á vattvangi þjóðfélagsins. Það er vitað um tvo flokka, sem fulltrúa eiga hér á Alþ., að þeir telja málunum þeim mun betur skipað sem afskipti ríkisvaldsins eru meiri, eftir því sem það tekur fleiri mál í sínar hendur, ýmist til beinna ákvarðana og framkvæmda eða mjög náins eftirlits með einstaklingunum. Aftur á móti lítur sá flokkur, sem ég tilheyri, þannig á, að þeim mun betur horfi, sem frjálsræði einstaklingsins er meira og afskipti ríkisvaldsins takmarkað við það, sem nauðsynlegt kann að vera á hverjum tíma. Nú er það svo, að þótt þessi reginmunur komi fram í skoðunum, er hér aðeins um heildarskoðanir að ræða, sem verða mjög að víkja til hliðar hvert sinn, eftir því sem á stendur um úrlausn einstakra mála. Það er t.d. vitað, að í samstarfi því, sem átti sér stað síðustu ár, þá féllust þeli tveir flokkar. sem mest vilja afskipti ríkisvaldsins. á það að vinna að ýmsum framfaramálum á grundvelli núverandi þjóðskipulags og á þann veg, að einstaklingum væri gefið olnbogarúm til mjög afdrifaríkra framkvæmda, ef í þær yrði ráðizt. En þrátt fyrir það, að Sjálfstfl. fengi ekki höfuðstefnumáli sínu framgengt, að einstaklingsrekstur fylgdi að verulegu leyti, þá féllst hann á ýmsar framkvæmdir og afskipti af ríkisvaldsins hálfu, sem undir venjulegum kringumstæðum mundu ná lengra en er í samræmi við stefnu flokksins. Það kom þess vegna að því, að öllum þessum flokkum var ljóst, að svo mikið lá við að nota rétt það tækifæri, sem við þá höfðum til þess að koma hér á allsherjar endurreisn og nýsköpun í atvinnulífi landsmanna, að þar tjáði ekki að binda sig við kenningar, sem miða við það, hvernig að eigi að fara á venjulegum tímum, en ekki við hitt, hverjar ráðstafanir eigi að gera, þegar sérstaklega stendur á, eins og vissulega gerði þá og gerir ennþá. Í því mikla og merka starfi, sem fyrrv. stjórn innti af höndum og beitti sér fyrir varðandi nýsköpun í atvinnulífinu, kom þó fram, að sumt hefði mátt betur fara. Og því ber ekki að neita, að ýmiss konar örðugleikar stöfuðu af því, að þær miklu framkvæmdir, sem ríkið sjálft beitti sér fyrir og ýtti undir einstaklinga að beita sér fyrir, voru ekki nógu samhæfðar eða samræmdar, þannig að vegna þess, að ráðist var í of mikið í einu og menn vildu framkvæma of mikið á of stuttum tíma, þá varð allt seinunnara en ella hefði verið, og af sömu ástæðu varð kostnaðurinn vegna þessara framkvæmda miklu meiri en ella hefði orðið. Þetta er ekki einstakt fyrirbrigði hér á landi, heldur má segja, að hið sama hafi komið fram hvarvetna um heim í því mikla og margvíslega endurreisnarstarfi, sem allar þjóðir eða flestar hafa haft með höndum á þessum tíma. Það hefur alls staðar orðið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að beina fjármagninu í þær framkvæmdir, sem mest hefur á legið, og gera sérstakar ráðstafanir til þess, að vinnuaflið hagnýttist sem bezt. Margt af þessu er hægt að gera án þess að löggjöfin komi til, en þó er það ljóst og reynsla síðustu ára hefur sýnt, að ef hið sama kapp helzt eins og verið hefur um framkvæmdir, þá er óhjákvæmilegt að gera ráðstafanir þær betur en gert hefur verið fram til þessa, til þess að fyrr sækist með hóflegri skipun í þessum efnum og til þess að verðmæti fari síður í súginn en raun hefur á orðið undanfarin ár. — Af þessum sökum er það fullvíst, að flestir Íslendingar, alveg án tillits til stjórnmálaskoðana, hafa hina síðustu mánuði sannfærzt um það, að sérstakar ráðstafanir yrði að gera til þess að samhæfa betur en áður bæði framkvæmdir ríkisvaldsins og sveitarstjórna, þ.e. almannavaldsins innbyrðis og framkvæmdir þessara aðila við framkvæmdir einstaklinga. Þetta kemur í raun og veru ekki við skoðun manna á því, hvort á venjulegum tímum hentar betur að hafa svo kallaðan áætlunarbúskap eða ekki, heldur stafar þessi skoðun eingöngu af því, að á meðan um er að ræða svo mikla fjárfestingu og framkvæmdir eins og nú standa yfir framkvæmdir, sem eiga að leggja grundvöllinn að heilbrigðu atvinnulífi í framtíðinni, þá þarf að gera sérstakar ráðstafanir til þess, að þessar framkvæmdir rekist ekki á innbyrðis og taki ekki óeðlilegt vinnuafl og fjármagn frá þeim eðlilega og venjulega atvinnurekstri, sem verður að halda áfram óhikað, samhliða því að þessar miklu fjárfestingarframkvæmdir eiga sér stað. Af þessum sökum var það, að í þeim stjórnarsamningum, sem hafa átt sér stað, síðan hæstv. fyrrv. ríkisstj. lét af völdum, hefur eitt helzta atriðið verið að koma sér saman um einhverjar ráðstafanir í þessu skyni. Án þess að ég hafi vel fylgzt með því, held ég, að eitt helzta umræðuefnið, það, sem verulega kom málinu við í hinni svo kölluðu 12 manna n., hafi verið umr. í þessa átt. Hitt veit ég með vissu, að í þeim stjórnarmyndunartilraunum, sem gerðar voru, áður en núv. hæstv. forsrh. tókst að mynda þá ríkisstj., sem nú er, og í þeim fyrri tilraunum, sem gerðar voru af hálfu Sjálfstfl., var einn helzti þátturinn í þeim málefnasamningi, sem þar var lagður til grundvallar, alveg sams konar ráðagerð eins og felst í því frv., sem hér liggur fyrir, þannig að mér og öðrum hv. þm. hlýtur að koma það mjög á óvart, þegar einstöku þm. bregðast nú við á þann hátt, sem þeir hafa aldrei gert fyrr, og láta eins og hér sé um algera nýjung að ræða. Því fer fjarri, að svo sé, og ég fullyrði, að ekki hefði verið með nokkru móti mögulegt að koma saman stjórn á Íslandi, eins og nú horfir. nema því aðeins að einhverjar ráðstafanir í þessa átt væru gerðar. Og að svo miklu leyti sem sagt hefur verið, að þessar ráðstafanir væru kommúnistískari en nokkuð, sem áður hefði þekkzt, þá fer því auðvitað fjarri, því að efni þessara till. er, eins og ég sagði, mjög hið sama og sízt róttækara en fólst í þeim till., sem lagðar voru til grundvallar við þá stjórnarmyndun, sem Sjálfstfl. beitti sér fyrir, áður en núv. ríkisstj. var mynduð. Munurinn er sá einn, að nú er ráðgert, að þessar framkvæmdir verði gerðar undir stjórn, þar sem sá ágæti flokkur, kommúnistar, eiga ekki fulltrúa og þess vegna líklegt, að þeirra áhrifa gæti minna varðandi framkvæmdir en orðið hefði, ef hin stjórnarmyndunin hefði tekizt. Það hefur líka komið fram hjá hv. 2. þm. Reykv., að honum finnst þessar till. ganga hvergi nærri nógu langt, þar sem aftur á móti er haldið fram af þeim, sem mest óska eftir samvinnu við hann, að till. gangi allt of langt, og er erfitt að sameina þau sjónarmið. En ég vildi leggja áherzlu á það hér og undirstrika það, að þær ráðstafanir, sem hér liggja fyrir, að svo miklu leyti sem þær horfa í þá átt að skerða frelsi einstaklinga til framkvæmda, eru engin nýjung, heldur að efni til samhljóða þeim ráðagerðum, sem áður hafa verið uppi og allir virtust þá vera sammála um. Ég vil einnig skýrt lýsa yfir því, út af ummælum hæstv. forsrh. hér í gær, að þótt Sjálfstfl. hafi fallizt á þessar ráðagerðir vegna þess ástands, sem nú stendur yfir í þjóðfélaginu og líklegt er, að verði enn um hríð, þá ber engan veginn að skilja það svo, að hann hafi bundið sig út af ráðstöfunum eða róttækum aðgerðum í þessa átt um alla framtíð. því fer fjarri. Þótt Sjálfstfl. hafi fallizt á þessar till., vegna þess sérstaka ástands, sem nú ríkir, þá hefur hann ekki horfið frá sinni meginstefnu, eins og hv. 2. þm. Reykv. hélt fram í gær, að hann gerði. Þar fyrir hefur hann alls ekki horfið frá sinni meginstefnu, alveg eins og hann hefði ekki horfið frá henni, þótt hann hefði samið um þessar ráðstafanir við flokk hv. 2. þm. Reykv. Seinni villuna var komið í veg fyrir. En þótt Sjálfstfl. hafi þessa skoðun, þá haggar það auðvitað ekki því, að hæstv. forsrh. er á alveg sama hátt og hv. 2. þm. Reykv., en gagnstætt Framsfl., sannfærður um það, að þetta séu þær ráðstafanir, sem ekki skuli neitt hagga við á þeim sérstöku tímum, sem við nú lifum á. Þeir eru þarna sammála, en eiga í höggi við okkur í Sjálfstfl., og ef til vill við Framsfl. einnig að einhverju leyti. um það, hve lengi slíkar ráðstafanir eigi að standa. Og sé ég ekki að þeir geti af þessum sökum haft uppi miklar deilur sín á milli, vegna þess að skoðanir þeirra í þessu fara í mjög svipaða átt, en aðstaða beggja til að koma þeim fram er hin sama, eins og núverandi þingmeirihluta er háttað. Og þó að við séum þeim ekki sammála um þær meginstoðir og höfum fallizt á þessar ráðstafanir nú um sinn, þá er það ekki frekar bindandi fyrir okkur en það var bindandi fyrir hv. 2. þm. Reykv. og hans flokk sem viðurkenning á hinu frjálsa framtaki einstaklingsins, sem fólst í stjórnarsamningi fyrrv. stjórnar, eða frekar en slík samningsatriði, sem felast í núverandi stjórnarsamningi, eru bindandi fyrir hæstv. forsrh. og hans flokksbræður. Þeir gera þetta til þess að koma málum fram, eins og sakir standa, en ekki vegna þess. að þeir hverfi frá sinni höfuðstefnu í stjórnmálum.

Það er nauðsynlegt í tilefni þeirra umr., sem hér hafa farið fram, að þetta sé skýrt fram tekið, svo að enginn misskilningur um það geti átt sér stað. Hitt vil ég segja, að það kann að vera, að þessar ráðstafanir séu gerðar helzt til seint, vegna þess að einmitt sá glundroði, sem í þessum efnum hefur verið á undanförnum árum, hefur átt nokkurn þátt í því, að svo getur farið, því miður, að við þurfum ekki um langa hríð að óttast það, að of mikil eftirspurn verði eftir vinnuafli hér á landi. Vonandi er ástandið þó ekki orðið þannig. En eins og hæstv. fjmrh. glögglega tók fram í gær, þá er þó ljóst, að ef ekki verða bráðlega gerðar ráðstafanir til þess. að við getum orðið samkeppnisfærir við aðra um sölu á afurðum, þá hlýtur illa að fara, og þá þurfum við ekki að kvíða því, að ef mikið verði um framkvæmdir í þessu landi. En sem betur fer, þá hefur vegna frumkvæða og forystu fyrrv. stjórnar þannig tekizt til, að íslenzka þjóðin stendur nú miklu betur að vígi en nokkru sinni áður í sinni lífsbaráttu — hún hefur við betri kjör að búa, hún hefur þrátt fyrir allt við betra húsnæði að búa, hún hefur miklu betri. öflugri og meiri atvinnutæki en nokkru sinni áður í sögu sinni. Flest er þetta, sérstaklega öflun framleiðslutækja, að þakka forystu fyrrv. stjórnar, og með því móti hefur hún unnið ódauðlegt starf fyrir íslenzku þjóðina. En hins verður mjög að gæta, að þetta komi að því gagni, sem verða þarf, og að það verði ekki gert á annan veg en þann, að við notum þessi tæki til þess að verða samkeppnisfærir við aðra og geta selt okkar afurðir á frjálsum markaði, vegna þess að við getum framleitt jafnódýrt betri vöru en nokkur annar. Annars skal ég ekki fara að ræða þau mál, það yrði of umfangsmikið og skiptir ekki máli frekar í þessu sambandi, enda hefur hæstv. forsrh. gert grein fyrir frv. og einnig hæstv. fjmrh. Þó vildi ég segja það, að þó að ég og minn flokkur sé samþykkur þessu frv. í höfuðatriðum. þá eru þar auðvitað einstök atriði, sem við teljum, að betur mættu fara, og er þar sérstaklega um að ræða skipun fjárhagsráðsins. Við höfum ekki talið, að sú skipun, sem í frv. er ráðgerð, sé sú hagkvæmasta, og áskiljum okkur því rétt til að koma fram með brtt. við það efni hér í þinginu.