14.03.1947
Neðri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Aðeins nokkrar aths. þykir mér rétt að taka fram. Og ég vil vænta þess. að þær gætu orðið lokaaths. af minni hálfu við þessa umr. málsins, enda er hún orðin nokkuð langdregin.

Fyrst og fremst vil ég geta þess, að hv. 6. þm. Reykv. endurtók í ræðu sinni í dag, sem hann sagði hér í gær, að í frv. þessu, sem hér liggur fyrir, sé ekki að finna nein ný eða aukin fyrirmæli til tryggingar því, að hægt sé að ráða fram úr húsnæðisvandræðunum í landinu.

Eins og ég sagði í gærkvöld, vil ég mótmæla þessari fullyrðingu, svo fjarri sem hún er því rétta. Í l. um opinbera aðstoð við byggingar í kaupstöðum og kauptúnum, í 38. gr. þeirra l., sem þessi hv. þm. vitnaði til, er að vísu gert ráð fyrir því, að það megi kveða á um, til hverra nota hafa skuli það byggingarefni, sem flutt er til landsins, og í öðru lagi megi setja reglur um það, hvaða framkvæmdir skuli ganga fyrir um byggingarefni. En þetta er nokkurs annars eðlis, þó að ég vilji einnig segja, að það sé skylt að sumu leyti því, sem ákveðið er í þessu frv., sem hér liggur fyrir. En þó að svo sé, þá er þó í frv. um mikið annað og fyllra að ræða. sem er fyrst og fremst það — sem er ekki lítils virði, ef framkvæmdir verða á því sæmilegar —, að gert er ráð fyrir að skipa fjárhagsráð með miklu valdi. Og eitt af þess hlutverkum er að reyna að sjá um það. að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, verði útrýmt með byggingu hagkvæmra íbúða. Fyrr hefur aldrei með löggjöf verið sett á laggirnar sérstök stofnun til þess m.a. að hafa þetta merkilega hlutverk með höndum. Það er nú í fyrsta sinn, sem þetta er gert, og það út af fyrir sig er þó nokkurt atriði. — En til viðbótar þessu, þá er gert ráð fyrir, að fjárhagsráð, sem á m. a. að hafa með að gera framkvæmd á 7. lið 2. gr. frv., eigi að búa til áætlanir um framkvæmdir í þessum efnum eins og öðrum, sem getið er í 2. gr., og reyna að sjá um framkvæmdir þeirrar áætlunar. Og það er gert ráð fyrir því í 2. málsgr. 4. gr., að ef fjárhagsráð t.d. hefur lagt fram áætlun um, að svo eða svo mikið af húsnæði skuli byggja, t.d. árin 1947 og 1948, og ef fjárhagsráði finnst. að vandkvæði muni verða á útvegun fjár í þessu skyni. þá skuli það leita samvinnu við ríkisstj., lánsstofnanir og aðra aðila, sem hlut geta átt að máli, um að útvega fé eða láta af höndum fé m.a. til bygginga. Þessar lánsstofnanir eru ríkisstofnanir, sem gera má ráð fyrir, að ríkisstj., í því tilfelli, sem handhafi æðsta ríkisvalds, muni geta orkað nokkru á um, hvað gerðu í þessum efnum. Og ef búið væri að gera áætlun af fjárhagsráði um byggingu margra íbúðarhúsa víða á landinu og einhver skortur væri á, að fé næðist til þess, þá geri ég ráð fyrir, að möguleikar væru með aðstoð ríkisvaldsins til þess að knýja það fram, að fé væri útvegað til þessara hluta. — Svo eru í 5. gr. frv., að því er snertir byggingar, ákvæði um sjálfa fjárfestinguna. Og þau eru mjög ólík þeim ákvæðum, sem felast í 38. gr. l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Með 5. gr. frv. er fjárhagsráði gefið það vald að geta ýmist synjað eða samþ., að fé skuli varið til þessa eða hins. Og ef fjárhagsráð hefur þannig í höndum framkvæmdarvald yfir byggingum í landinu, þá er augljóst, að með þessu valdi sínu getur fjárhagsráð gert það að verkum, að aukið fé komi til hagkvæmra félagsbygginga til íbúðar. — Þessi atriði vildi ég drepa á út af byggingarmálunum. Ég er ekki í vafa um það, að það er rétt, sem ég hef haldið fram, að í þessu frv. er að finna ný og meiri ákvæði, sem með góðri og skeleggri framkvæmd gætu orðið til þess að hraða og greiða fyrir félagsbyggingum á Íslandi. Og þess er vissulega þörf. Þar að auki vil ég geta þess, að ríkisstj. mun taka til athugunar, væntanlega áður en þessu þingi lýkur. og leggja fram frumvarp eða frumvörp. sem gætu gert það að verkum, að hægt væri að fá aukið fé til bygginga íbúðarhúsa og ýmissa annarra verklegra framkvæmda í landinu. Ríkisstj. er ljóst, að það er nauðsynlegt að afla fjár í þessu skyni. Og ég vænti þess, að hún muni gera till. og leggja fyrir þetta Alþ., áður en því lýkur, sem m.a. gætu greitt fyrir auknum félagsbyggingum í landinu.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi það höfuðgalla á þessu frv., að þar væri eiginlega hvorugt gert, sem þyrfti að gera, hvorki að styðja hreinlega kapítalískt þjóðfélag, framtak einstaklingsins, eða að fella niður framtak einstaklingsins og láta í þess stað koma framtak þjóðfélagsheildarinnar. — Nú kann ég að lita dálitið öðrum augum á hið nýja þjóðfélag, sem ég vildi láta koma á Íslandi eins og annars staðar, heldur en hv. 2. þm. Reykv. En ég er þeirrar skoðunar fyrir mitt leyti, og það eru skoðanir lýðræðisjafnaðarmanna, að leiðin að því marki að skapa nýtt og betra þjóðfélag sé að samhæfa að verulegu leyti framkvæmdir einstaklinga og framkvæmdir þjóðfélagsheildarinnar í verklegum efnum og öðru slíku. Ég held, að ekkert þjóðfélag fái staðizt án víss framtaks einstaklinga. Og það er ekki meining mín sem jafnaðarmanns, að það framtak eigi að hverfa úr sögunni. Langt frá því. En framtak einstaklinga á að vera innan þeirra takmarka. að hagur einstaklingsins verði að víkja fyrir heill fjöldans. Ég ætla, að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé gerð tilraun til þess að samhæfa, ég vil segja á eðlilegan hátt, framtak einstaklinga og framtak þjóðfélagsheildarinnar. Það er einmitt þetta hvort tveggja framtak, sem nauðsynlegt er og skynsamlegt í hverju þjóðfélagi að hafa. En þetta tvenns konar framtak þarf að samhæfa, ef vel á að fara. En nú er svo laust við, að þetta tvennt sé samhæft hér á landi, að það má þvert á móti segja, að framtaki þess opinbera eða almannavaldsins sé að nokkru leyti stefnt á móti einstaklingsframtakinu. En það er mjög óheillavænleg stefna, sem hefur leitt til ýmissa hluta hér hjá okkur um síðustu ár, sem sízt af öllu eru heillavænlegir. En einmitt með lögum og reglum á að setja þessu skorður hvoru tveggja og samhæfa framtak einstaklinga og almannavaldsins. Með sameiginlegu átaki þessara aðila beggja á að vera hægt að endurbæta margt í þjóðfélaginu. Ég hef yfirleitt ekki hugsað mér það þúsund ára ríki, þar sem framtak einstaklingsins sé brotið á bak aftur. En ég hugsa mér það þúsund ára ríki, þar sem framtak einstaklingsins væri háð þeim takmörkunum, að hagur einstaklingsins eigi að víkja fyrir heill fjöldans.

Það hefur nokkuð mikið verið rætt í þessum umr. um bankana og yfirstjórn þeirra. Ég get verið fáorður um það atriði, enda hef ég minnzt á það atriði áður út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. Ég skal ekki neita því, að oft hafi verið gerðar skyssur í íslenzkri bankapólitík. En ég ætla. að þær skyssur eigi að verulegu leyti rót sína að rekja til ríkisvaldsins á hverjum tíma. vegna þess að ríkisvaldið hafi ekki viljað eða ekki þótt rétt að beita valdi sínu til þess að koma í veg fyrir, að slíkar skyssur væru gerðar. Vera má, að þetta eigi sér að einhverju leyti stað í framtíðinni einnig. í einhverjum mæli. En ég ætla þó, að að verulegu leyti sé pólitík bankanna byggð á þeirri meginreglu, að ríkisstj. geti haft þar yfirráð, ef hún vill beita valdi sínu. Og ég vænti þess, að yfirstjórn bankanna geri ekki annað en það, sem ríkisstj. telur, að þurfi að gera. Það má vel vera, að þeir aðilar, sem standa að bankamálum, sjái oft ástæðu til að gefa aðvaranir og frá þeirra sjónarmiði hollráð. Það verður ríkisstj. á hverjum tíma að meta, hvort þessar aðvaranir eru réttmætar eða ekki. Þegar ríkisstj. hefur metið það, verður hún að taka sínar ákvarðanir. Og ég hef mikla ástæðu til að ætla, að bankarnir yrðu ekki neinn óyfirstíganlegur þröskuldur þarna í vegi eða stjórnir þeirra.

Þá ræddu hv. 2. þm. Reykv. og hæstv. utanrrh. um áætlunarbúskapinn eftir upphafi 2. gr. frv. Það er rétt, sem hæstv. utanrrh. tók fram, að það er eftir ósk Sjálfstfl. tekið fram, að þetta um samræmingu á framkvæmdum einstaklinga og almannavaldsins, sem sett er í þá gr., sé fyrst og fremst miðað við hinar miklu framkvæmdir, sem nú standa yfir, vegna þess að Sjálfstfl. hefur ekki viljað slá því föstu, að það skyldi til ævarandi tíðar snúa sér að þjóðarbúskap eftir áætlun. Nú skiptir það frá mínu sjónarmiði ekki afgerandi máli orðalagið á þessu atriði. Það er aukaatriði. Og í raun og veru er það svo í lýðræðislandi, að þó að ákvæði eins og þetta stæði skilyrðislausara en hér er fram sett í íslenzkri löggjöf, þannig að héðan í frá skyldi taka upp þjóðarbúskap á Íslandi eftir áætlun, þá yrði það svo, t.d. eftir næstu kosningar, ef sá þingmeirihluti, sem þá yrði kosinn, væri þeirrar skoðunar að þjóðarbúskap ætti ekki að reka eftir áætlun, þá yrði þeim ákvæðum bara breytt í löggjöfinni, sem nú væru sett um ævarandi áætlunarþjóðarbúskap, þótt samþ. væru nú. Þannig getum við ekki með l. sett upp neitt fyrirkomulag, meðan við erum í lýðræðislandi, sem síðari tíma þingmeirihluti gæti ekki með einfaldri lagasetningu numið að fullu úr gildi. Til þess að ekki væri hægt að nema slík l. þannig úr gildi, þyrfti að gera byltingu, þannig að t.d. „kvalifíseraður“ minni hluti þjóðarinnar gripi völdin og hugsaði sér að halda völdunum í krafti einhvers valds. sem þessi minni hluti treysti á. Með því móti væri kannske hægt að halda við slíkum l., meðan því valdi væri ekki hrundið af stóli. En í lýðræðis- og þingræðisþjóðfélagi er ekki hægt að búa slík ævarandi ákvæði til. sem er ekki hugsanlegt að geta breytt, þegar kominn er annar meiri hluti á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. — Þess vegna skiptir mig það litlu máli, þó að þessi ákvæði um þessa samræmingu einstaklingsframtaksins og almannavaldsins séu bundin við að gilda, á meðan hinar miklu framkvæmdir eru á ferðinni í íslenzku þjóðfélagi. En það, sem tekið er fram í upphafi 2. gr. frv. um þessa samræmingu. meðan hinar miklu framkvæmdir standa yfir, er áætlun um þjóðarbúskap. hversu langan tíma sem það varir.

Í þessu sambandi minntist hv. 2. þm. Reykv. dálítið á lengd þeirra áætlana, sem gert er ráð fyrir, að gerðar verði af fjárhagsráði, og gerði hann samanburð á því. sem í frv. þessu er um þetta, og hinu, sem ákveðið var í l. um nýbyggingarráð, þar sem gert var ráð fyrir áætlun um framkvæmdir til fimm ára. En í 3. gr. þessa frv. er hér gert ráð fyrir, að fjárhagsráð semji fyrir fram fyrir hvert ár áætlun um heildarframkvæmdir. Vildi hv. 2. þm. Reykv. halda fram, að hér væri um svo mikinn reginmun að ræða á þessum ákvæðum um áætlun um framkvæmdir í þessum tvennum l. og hér væri stigið vegna þessa mikla munar spor aftur á bak, að hér væri, eftir þessu frv., í raun og veru ekki um áætlunarbúskap að ræða. — Nú er mér ekki kunnugt um, að skilgreining á orðinu áætlunarbúskapur geri það á nokkurn hátt nauðsynlegt, að ef áætlunarbúskapur eigi að framkvæmast, þurfi áætlun um hann að vera gerð fyrir eitthvert visst árabil og að það sé skilyrði fyrir því, að hægt sé að tala um slíka áætlun, að hún sé gerð til fimm ára eins og í Rússlandi, en áætlun til eins eða tveggja ára geti ekki komið til greina um áætlunarbúskap. Ég þekki ekki þá skilgreiningu fyrir áætlunarbúskap. — Nú er það að vísu svo, að það má vel vera, að hentara þyki að gera áætlun fyrir lengri tíma en eitt ár í senn og að fjárhagsráð geri það að einhverju leyti, þó að ég álíti satt að segja, að tímarnir séu svo hverfulir nú og óvissa, um marga hluti svo mikil. að ekki sé hægt að gera bindandi áætlun um mörg ár fyrir framtíðina. Ég ætla, að slíkt mundi örðugt verk.

Nú hefur nýbyggingarráð gert litlar áætlanir, sem komið hafi fyrir almenningsaugu a.m.k. Að vísu hefur það gert verulega áætlun um rekstur sjávarútvegsins. Þessi áætlun er miðuð við árslok 1951. Og þá er gert ráð fyrir, að togarafloti landsmanna verði orðinn 75 togarar. Nú má vera. að þetta verði. En ég er ekki sannfærður um, að það sé alveg rétt að slá því föstu, að togarafloti landsmanna ætti í árslok 1951 að vera orðinn 75 skip. Nú fáum við á þessu ári og í byrjun næsta árs 31 togara. Við fögnum þessu og vitum, að það verður til mikilla happa fyrir íslenzkt þjóðfélag. En við eigum eftir að reyna á þessu tímabili, hve mikinn mannafla við höfum til að reka þessa togara, áður en við getum slegið því föstu, hve margir togarar okkar eigi að vera í árslok 1951. — Ég hygg, að það sé því ekkert höfuðatriði, hvort áætlun er gerð fyrir fram til fimm ára eða til eins eða tveggja ára. Aðalatriðið er, að áætlunin sé gerð með þekkingu á fortíðinni og einhverju viti, eftir því sem hægt er að vita um möguleika framtíðarinnar, og framkvæma svo þá áætlun. eftir því sem frekast er kostur.

Í þessu sambandi vil ég taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði í gær, að ég tel sjálfsagt, að það nýja fjárhagsráð fái allar þær áætlanir, sem kunna að liggja fyrir í nýbyggingarráði, til athugunar. Ég dreg ekki í efa, að margt og merkilegt hafi verið gert í nýbyggingarráði. sem rétt er að gangi til fjárhagsráðs. Vera má, að einhver áætlun sé þar á ferð, því að fimm ára áætlun átti að semja af nýbyggingarráði. þó að hún komi nokkuð seint. Ef hún er til hjá nýbyggingarráði, þá álít ég, að fjárhagsráð eigi að athuga hana og athuga, hvort eigi að reyna að framkvæma hana.

Ég hygg, að það sé byggt á misskilningi, að það sé afgerandi um samræmingu einstaklingsframtaksins og framkvæmdir almannavaldsins, hvort áætlun um það er gerð til eins, tveggja, þriggja, fjögurra eða fimm ára. Aðalatriðið er að gera sér grein fyrir ástandinu, eins og það er í dag, og þeirri reynslu, sem fengizt hefur, og reyna svo að byggja brú svo langa frá fortíðinni yfir í framtíðina sem hægt er og reyna að gera þá brú svo úr garði, að hægt sé að láta þjóðina feta eftir henni.

Ég læt um þessi efni þessar aths. mínar nægja við þessa umr.

En loks vil ég segja, að ég tel, að með frv. þessu sé gerð merkileg tilraun af hálfu löggjafans og ríkisvaldsins til þess að koma mun betra skipulagi á atvinnuhætti á Íslandi en áður hefur gert verið í þessum efnum. Ég vil treysta því, að framkvæmdir þessara mála í höndum fjárhagsráðs. hverjir sem það skipa. og í höndum ríkisstj., hverjir sem hana skipa, gætu orðið til þess, að hægt væri að bæta úr ýmsum vandræðum, sem án efa eiga sér stað í hinu íslenzka þjóðfélagi. Það er tilgangur þessa frv. Og ef nógu góð samvinna og skilningur og vilji eru fyrir hendi til framkvæmdanna, efa ég ekki, að það tekst. Og verði svo, þá er þessi löggjöf mikið happaspor.