14.03.1947
Neðri deild: 95. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þessar umr. hafa farið svo á við og dreif, að mig langar til að segja um málið nokkur orð. — Ég er búinn að vera alllengi á mælendaskrá um málið og þingbekkir nú að vísu þunnskipaðir.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur hlotið verulega gagnrýni, bæði frá hægri og vinstri. Hv. þm. A-Húnv. hefur talað gegn þessu frv. út frá því, að það miði of mikið í kommúnistíska átt. Hins vegar hefur hv. 2. þm. Reykv. og ýmsir aðrir úr Sósfl. gagnrýnt það frá því sjónarmiði, að með því væri ekki gengið nógu langt til vinstri. — Ég held. að gagnrýni beggja þessara aðila sé ekki á rökum reist.

Það er óþarfi fyrir hv. þm. A-Húnv. að óttast. að afleiðingin af samþykkt þessa frv. verði, að kommúnistískt þjóðskipulag komist á á Íslandi. Og mér kemur líka gagnrýni Sósfl. nokkuð á óvart.

Inn í umr. um þetta frv. hafa blandazt bollaleggingar um það, hvort þetta frv., eða samþ. þess mundi þýða áætlunarbúskap á Íslandi. Um það vil ég segja nokkur orð.

Ef meginhluti framleiðslutækjanna er í höndum einstaklinga og ágóðavonin ein ræður því. hvað framleitt er og hvað ekki, þá er sagt, að um prívat-kapítalisma sé að ræða. En svo sem kunnugt er, er það markaðsverðið. sem fyrst og fremst ræður um það. hve ágóðavonin er mikil. Í prívatkapítalisku þjóðfélagi er það því markaðsverðið. sem ræður því, hvað er framleitt. — En ef tekinn er upp áætlunarbúskapur í einhverju þjóðfélagi. þá er hann fólginn í því, að ágóðavon og markaðsverð er ekki látið ráða því einvörðungu, hvað framleitt er eða ekki framleitt, heldur er samin áætlun um það, hvaða þörfum í þjóðfélaginu skuli fullnægja, og það er þá látið ráða því, hvað framleitt er og hvað ekki, en ekki markaðsverðið fyrst og fremst, í áætlun, sem þarf að semja, ef koma skal á áætlunarbúskap hjá þjóðfélagi, þarf að ákveða tvennt: hve miklu af þjóðartekjunum skuli verja, til þess að koma upp framleiðslutækjum, og þá til hvaða framleiðslutækja á að nota þann hluta teknanna, og í öðru lagi, hve mikinn hluta teknanna má nota til eyðslu. — En áætlunarbúskapur er ekki þetta eitt að semja slíka áætlun, heldur er áætlunarbúskapur líka fólginn í því að skipuleggja atvinnulífið þannig og tryggja áhrif ríkisvaldsins þannig í þessu efni, að þar með sé fengin aðstaða til þess að framkvæma þessa áætlun.

Með frv. um fjárhagsráð er tilætlunin, að samin sé áætlun um framleiðslu í íslenzkum þjóðarbúskap, að vísu um nokkuð tímabundið skeið, og að þessu leyti er rétt að segja, að komið sé á áætlunarbúskap á Íslandi. Um þetta er ekki nema það bezta að segja. Hins vegar mun engum detta í hug að í þessu frv. séu ákvæði, sem tryggi, að atvinnutækin séu rekin á vissan tiltekinn hátt, þannig að atvinnutækin séu rekin til þess að framleiða þetta eða hitt tiltekið af vörum. Ef um algeran áætlunarbúskap á að vera að ræða, er ekki nóg, að samin sé áætlun um skiptingu á þjóðartekjunum á milli þess, sem á að fara í framleiðslutæki og nauðsynlegar byggingar, og hins, sem megi verja til annars, heldur verður að gera ráðstafanir til þess að ákveða, hvað eigi að framleiða með framleiðslutækjunum, og tryggja, að framleiðslutækin séu notuð. En þetta tvennt síðast talda er ekki tryggt í þessu frv. Og það hefur heldur ekki verið til þess ætlazt, að það væri í þessu frv., svo að mér finnst ekki hægt að segja, að með samþ. þessa frv. sé stofnað til fullkomins áætlunarbúskapar á Íslandi. Það er að vísu rétt. að í þessu frv. er gert ráð fyrir þeirri áætlun, að ákveðið sé, hve mikill hluti af þjóðartekjunum skuli fara til nýbyggingar á framleiðslutækjum og hve mikill hluti til annars. Að þessu leyti finnst mér rétt að segja, að stofnað sé til áætlunarbúskapar með samþ. þessa frv., þó að hann sé ekki alger, enda hefur engum dottið í hug að halda því fram.

Þó að ég sé því þeirrar skoðunar, að með samþ. þessa frv. sé ekki komið á fullkomnum áætlunarbúskap á Íslandi, þá eru það ekki andmæli gegn frv. Það eru ekki frekar andmæli gegn því heldur en að segja, að með frv. þessu er ekki komið á kommúnisma á Íslandi. Og þó að það sé ekki tryggt með þessu frv., að áætlunarbúskapur verði rekinn á Íslandi, þá er ég ekki á móti frv. þess vegna, vegna þess að það markar þýðingarmikið spor í áttina að fullkomnum áætlunarbúskap í landinu. Heildarstefna þessa frv. er að mínu viti rétt og góð.

Í þessu frv. eru fjögur nýmæli. Nú á að semja heildaráætlun um íslenzkan þjóðarbúskap, í staðinn fyrir að áður var í l. ákvæði um, að semja skyldi áætlun um nýsköpunarframkvæmdir. Í öðru lagi eru ákvæði í þessu frv. um fjárfestingu. Í þriðja lagi eru þar ákvæði um verðlagseftirlit. Og í fjórða lagi um innflutning og gjaldeyrismeðferð. Þetta eru meginatriði frv., sem hér liggur fyrir. Langþýðingarmest af þessum ákvæðum tel ég ákvæðið um fjárfestinguna. Þar er um nýmæli að ræða, sem ég hygg, að allir vinstri menn í landinu fagni yfir, að lögtekin eru. Hér er um það að ræða, að Sjálfstfl. hefur mjög hopað á hæl og gert verulega tilslökun frá sinni meginstefnu, og er það út af fyrir sig ekki nema ánægjulegt. En rétt er að vekja sérstaklega athygli á því, að Sjálfstfl. hefur þarna verið knúinn frá einu meginatriði í stefnu sinni.

Viðvíkjandi því, að nú er gert ráð fyrir áætlun um allar framkvæmdir í íslenzkum þjóðarbúskap, en ekki aðeins nýsköpunarframkvæmdir, er rétt að vekja athygli á því, að í l. um nýbyggingarráð er ákvæði um að semja áætlun um nýsköpunarframkvæmdir. Og mér kemur dálítið á óvart gagnrýni Sósfl. á þessu frv. að þessu leyti, þar sem sósíalistar áttu þátt í sjálfri setningu nýbyggingarráðs og einhver duglegasti og mesti maður þeirra hefur átt sæti í nýbyggingarráði. Samkv. l. um nýbyggingarráð hvílir á því sú skylda að gera áætlun um íslenzkan þjóðarbúskap. Vil ég lesa um það upp úr l., með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur: „Hlutverk þess er að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn miðaða við næstu fimm ár, um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Skal þar áætlað, hver atvinnutæki, samgöngutæki. byggingar og annað þurfi til sjávar og sveita, til þess að allir Íslendingar geti haft vinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, svo og. hvernig bezt verði komið fyrir innflutningi fáanlegra tækja og efnis á næstu árum með það fyrir augum að hagnýta sem bezt vinnuafl þjóðarinnar og auðlindir landsins.

Þá skal nýbyggingarráð gera áætlanir um, hvar tækin skuli staðsett, og tillögur um nýbyggingar og aðrar framkvæmdir í því sambandi.“

Það er því rétt, sem haldið hefur verið fram, að það eru ekki nýmæli í þessu frv., sem hér liggur fyrir, að það eigi að semja áætlun um framkvæmdir í atvinnulífi þjóðarinnar. Þetta átti samkv. l. að gera. Og það var nýbyggingarráð, sem átti að gera það.

Um leið og fjárhagsráði verður falið að semja ennþá víðtækari áætlanir en nýbyggingarráð átti að gera samkv. l. þá vil ég vekja athygli á því, að samþykktir Alþ. um að fela stjórnskipaðri nefnd að semja slíka áætlun hafa ekki reynzt vel. Mér er ekki kunnugt um, að nýbyggingarráð hafi gert þessa áætlun. Ég hef aflað mér upplýsinga um það og komizt að raun um, að þessi fimm ára áætlun nýbyggingarráðs er ekki til. Frá nýbyggingarráði hefur ekkert birzt um slíkt, annað en ritgerð, sem að vísu er á ýmsan hátt greinileg, um áætlaðar framkvæmdir í íslenzkum sjávarútvegi. En það er ekki rétt, að þar sé um að ræða áætlun um rekstur sjávarútvegsins í venjulegum skilningi á áætlun um þjóðarbúskap, heldur miklu fremur ritgerð um það, hvaða framkvæmdir séu æskilegar í sjávarútveginum á næstu fimm árum. Þessi ritgerð er prýðilega samin. Hún er samin af einum sérfræðingi í nýbyggingarráði, og er öll hin ágætasta. En því verður ekki með réttu haldið fram, að þar sé um venjulega áætlunargerð að ræða. Ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. er kunnugur því, hvernig slík áætlunargerð fer fram, t.d. í ráðstjórnarríkjunum. Og mér kemur ekki til hugar, að honum detti í hug, að þessi skýra ritgerð nýbyggingarráðs eigi nokkuð skylt við slíka áætlun um þjóðarbúskap sem í Rússlandi hefur verið gerð. — Þó að nokkrar vonir hafi staðið til þess, að þessi áætlun yrði gerð af nýbyggingarráði, um framkvæmdir á næstu fimm árum, þá hafa þær vonir brugðizt. svo að arfurinn, sem fjárhagsráð tekur við af nýbyggingarráði í þessum efnum, er ekki sem beztur. Og ég vona, að ekki þurfi síðar að staðhæfa á hæstv. Alþ., að fjárhagsráð hafi uppfyllt þessar skyldur sínar álíta vel og nýbyggingarráð hefur gert. Það er ekki nóg að setja það í l., að semja skuli slíkar áætlanir, ef þeir, sem eiga að gera það, semja þær ekki og ósamkomulagið í ríkisstj. er svo mikið, að næstum ekkert verður úr framkvæmdum þeirra litlu áætlana, sem þó eru samdar.

Það er rétt í þessu sambandi að minna á, að nýbyggingarráð hefur ráðstafað gjaldeyri, sem nemur 360 til 380 millj. kr. af gjaldeyriseign þjóðarinnar. Og mér er ekki kunnugt um, að nýbyggingarráð hafi gert það eftir nokkurri sérstakri áætlun. Að vísu hefur af þessum 360–380 millj. kr. verið tekin upphæð um 180 millj. kr. til togarakaupa samkv. áætlun nýbyggingarráðs. En að öðru leyti hefur nýbyggingarráð ráðstafað af gjaldeyriseign þjóðarinnar yfir 200 millj. kr. til nýsköpunarframkvæmda án sérstakrar áætlunargerðar. A.m.k. hafa utan að komandi aðilar ekkert vitað um, að ráðstafanir á þessum 200 millj. kr. hafi verið gerðar eftir nokkru sérstöku heildarplani. Og hygg ég, að ekki verði annað sagt en að þetta valdi nokkrum vonbrigðum og sé vissulega ekki gott veganesti fyrir fjárhagsráð, sem nú tekur til starfa.

Auk þess hefur gengið nokkur orðrómur um það, að nýbyggingarráð hafi farið nokkuð út fyrir þann ramma, sem l. um nýbyggingarráð setja því um starf sitt. þannig að það hafi ekki aðeins veitt leyfi til nýsköpunarvara, heldur einnig annarra vara. Væri gott að fá það upplýst, um leið og þessi l. taka gildi. sem frv. þetta miðar að, hvort nokkuð er hæft í þessum orðrómi, þar sem form. nýbyggingarráðs er nú hæstv. fjmrh. og annar nýbyggingarráðsmaður á einnig sæti í þessari hv. þd. En sögusagnir hafa gengið um það, að leyfi hafi verið veitt af nýbyggingarráði fyrir hlutum, sem algerlega eru óskyldir nýsköpun, svo sem ísvélum ásamt ýmsu öðru slíku, og auk þess fyrir miklum bílainnflutningi. sem ekki verður talinn til nýsköpunar, svo sem jeppum og þar fram eftir götunum.

Hv. 2. þm. Reykv., sem hefur verið mjög mikil driffjöður í nýbyggingarráði. átti að hafa með höndum m.a. að semja áætlunina um nýsköpun atvinnuveganna, þótt ekki hafi af því orðið. Og það má náttúrlega segja, að ekki hafi þýtt mikið að semja slíka áætlun, þar sem nýbyggingarráð hafi ekki haft neitt vald til þess að framkvæma hana og samvinna við ríkisstj. um það efni hafi ekki verið mikil. Og þetta kann að vera laukrétt. En annars minnist ég þess ekki, að opinberlega hafi komið fram frá nýbyggingarráði óskir um það, að eftirlit yrði tekið upp með allri fjárfestingu, og má þó vera, að nýbyggingarráð hafi látið slíka ósk í ljós. En meginatriðið í þessu máli er það, að við höfum ekki sérstaklega góða reynslu af því að hafa lagaákvæði ein um það, að semja skuli áætlanir, og ég hygg, að rétt sé að benda á það sérstaklega nú, þegar gert er ráð fyrir í þessu frv., að þessi áætlun sé gerð, að þetta sé stóraukið frá því, sem verið hefur, og er rétt, að n. taki það til athugunar. Ég dreg ekki í efa, að óskir allra standi til þess. að fjárhagsráð muni bera gæfu til þess að vinna þetta verk betur en nýbyggingarráð.

Þá verð ég að segja, að mig furðar stórlega á, að í hinum löngu og ströngu umr., sem farið hafa fram um þetta frv., skuli ekki hafa verið rædd ákvæði 10. gr., en sú grein hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fjárhagsráð starfrækir innflutnings- og gjaldeyrisdeild. er einnig hefur með höndum verðlagseftirlit.“ Það hlýtur að vekja athygli, að ekkert er um það sagt, hvernig þessi innflutnings- og gjaldeyrisdeild skuli skipuð, ekki hve margir skuli vera í henni, hverjum hún skuli lúta, tekið fram um verkaskiptingu hennar o.s.frv. En þegar þess er gætt, að það er þessi deild, sem á að annast úthlutun allra gjaldeyrisleyfa og hafa með höndum allt verðlagseftirlit, held ég, að ekki verði annað talið en það sé sjálfsagt, að miklu nánari ákvæði séu í l. um þetta efni. Hlutverk fjárhagsráðs sjálfs á að vera að semja heildaráætlun og ýmislegt annað. sem nefnt er í 2. gr., en hlutverk þessarar deildar fjárhagsráðs á að vera að úthluta öllum einstökum leyfum, svo að ég hygg, að ekki verði um það deilt, að öll dagleg störf deildarinnar séu miklu þýðingarmeiri en störf fjárhagsráðs sjálfs. Ég geri því ráð fyrir því, að mjög margir verði við nánari athugun þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að setja nánari ákvæði í l. um þessa deild, skipun hennar og starf, en þarna á sér stað.

Það eru nokkur atriði í verðlagskaflanum, sem ég hefði viljað ræða nokkuð, því að þar er sumt, sem ég tel, að gæti farið betur, en ég mun þó ekki gera það við þessa umr. Ég get bera skýrt frá því, að verðlagsstjóri hefur haft í undirbúningi nokkrar brtt. við ýmsar gr. hinna fyrri l. um verðlag og hafði m.a. komið þeim brtt. á framfæri við fyrrv. viðskmrh., sem taldi rétt að láta það biða um sinn. En nú hefur hins vegar ekki verið neitt til verðlagsstjórnarinnar leitað í sambandi við samningu þessa frv., svo að hún hefur ekki átt þess kost að koma þessum aths. sínum á framfæri. en vafalaust mun fjhn. leita til þessa aðila.

Ég vil svo að lokum geta þess. að þessari innflutnings- og gjaldeyrisdeild fjárhagsráðs er hinn mesti vandi á höndum, þegar hún tekur til starfa. Gjaldeyrisástandið er nú mjög alvarlegt. Það er alveg rétt, sem hæstv. menntmrh. tók fram áðan, að gjaldeyrisástandið er nú þannig, að í raun og veru er hinn frjálsi gjaldeyrir bankanna þrotinn — og meira en það. Spádómur hagfræðinganefndarinnar frá því í október, að hinn frjálsi gjaldeyrir mundi næstum að þrotum kominn um næstu áramót, hefur samkv. þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir. ekki reynzt of svartsýnn, eins og sumir héldu fram. Frekar hefur áætlun n. reynzt nokkru hagstæðari en reynslan hefur síðar leitt í ljós. Og það er ekki eingöngu í gjaldeyrismálunum sem ástandið er slæmt, heldur er það einnig skipulagsleysið í fjárfestingunni innanlands, þar sem allt er á ringulreið. Og með tilliti til þess, hvernig gjaldeyrisástandið er orðið, held ég, að ekki sé ofsagt, að gífurlegir erfiðleikar séu fram undan og það sé ekki öfundsvert verkefni, sem fjárhagsráð fær nú í hendur að leysa, þar sem ástandið í þessum málum, bæði í gjaldeyrismálunum og fjárfestingarmálunum, er jafnslæmt og raun ber vitni, þegar fjárhagsráð tekur við störfum. Á undanförnum árum hafa átt sér stað greinileg mistök í þessum málum, og skal ég ekki um það ræða, hver ábyrgð ber á því. En ég álít rétt að vekja athygli á þessu, að það ástand, þegar fjárhagsráð tekur við, og þau verkefni, sem þess bíða, kemur til með að verða mjög vandasamt. Það mun vera ósk allra, að fjárhagsráði takist að inna af höndum hið vandasama hlutverk sem allra bezt. Sá rammi, sem því er skapaður með þessum l., er mun betri en verið hefur undanfarið, Ég skilyrðin til þess að hrinda góðu og gagnlegu í framkvæmd eru því betri nú en áður átti sér stað. Og þó að einhverjir mundu segja, að annað gæti verið mun betra, þá er það alltaf takmarkað, hverju má koma í framkvæmd. En óhætt er að fullyrða, að með þessu frv. eru skilyrðin til þess að reka skynsamlega pólitík mjög mikið bætt, og þess má óska af alhug, að fjárhagsráði takist að leysa þann mikla vanda, sem nú bíður þess, á sem heppilegastan og beztan hátt.