17.03.1947
Neðri deild: 97. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef einu sinni tekið til máls varðandi þetta frv., og bjóst ég ekki við að ræða þetta frekar við þessa umr. En sökum þess að sérstök ástæða hefur gefizt, sem sprottin er af ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem fól í sér ýmsa hluti, sem ég get ekki gengið fram hjá að svara, þá vildi ég gefa nokkrar upplýsingar um þetta mál í sambandi við störf nýbyggingarráðs. Það hefur þegar komið fram, sérstaklega í ræðu hv. þm. A-Húnv. og einnig tekið undir það af hv. 2. þm. Reykv., að það eftirlit og það vald, sem lagt er til, að fjárhagsráði verði lagt í hendur, gæti orðíð fullýtarlegt og að það gæti farið út í of mikla smámunasemi. og vita þó allir, að þess er ekki þörf og er ekki heldur tilgangurinn. Hv. 2. þm. Reykv. lét svo um mælt, að það væri athugandi. hvort afskipti fjárhagsráðs, að svo miklu leyti sem um hömlur er að ræða, ættu að ná víðar en til Reykjavíkur. Það er vitanlegt, að við í nýbyggingarráði, bæði ég og hv. 2. þm. Reykv., erum þeirrar skoðunar og höfum hagað störfum eftir því, að það þurfi að leggja sérstaka alúð við það að skapa fólki utan Reykjavíkur betri aðstöðu en er, enda mun það vera öflugast til að draga úr flutningi fólks hingað til höfuðstaðarins. Tillögur nýbyggingarráðs hafa miðað að þessu og hafa sumar verið framkvæmdar, t.d. dreifing togaranna um landið. og sömuleiðis var till. sú, sem hv. 2. þm. Reykv. og ég bárum fram hér í frv.-formi um nýjan bæ á Skagaströnd, sem var líka byggt á þeirri skoðun að gera landsbyggðina aðgengilegri fyrir fólkið. Þar utan voru ræddar till. og áætlanir um sveitaþorp, og styðst allt þetta við þá skoðun meðlima nýbyggingarráðs, að áherzlu beri að leggja á að bæta skilyrði fólks utan Reykjavíkur. Þegar þess vegna bent er á þá hættu, sem leitt gæti af sér allt of neikvæða stefnu, og þá stefnu sá ég bezt hilla undir í ræðu hv. 4. þm. Reykv., þá er enn meiri ástæða til að hafa gát á, hvernig þetta mál verði afgr. hér á Alþ.

Ég bjóst ekki við, að nýbyggingarráð yrði fyrir svo miklum ádeilum, en þær nálguðust deilur í eldhúsumræðum, og hefði ég álitið, að því mætti halda utan við þessar umræður. Hitt ber nýbyggingarráð mjög fyrir brjósti. að því, sem sú stofnun hefur reynt að gera til gagns, verði ekki stefnt í aðra átt, og að sú fyrirgreiðsla, sem átt hefur sér stað, verði ekki látin niður falla. Þetta þarf kannske skýringa við, er ég tala um fyrirgreiðslur, og má vera, að hv. 4. þm. Reykv. skilji ekki, hvað við er átt. En til okkar hafa komið menn til að spyrjast fyrir, hvernig þeir ættu að taka lán eða hvernig þeir ættu að fá vél í bátinn sinn, svo hafa auðvitað aðrir komið með stærri erindi. Nýbyggingarráð hefur litið á það sem óskrifuð lög, og ég votta öllum þeim, sem starfað hafa við ráðið, að þeir hafa verið fúsir til að vinna að störfum. sem ekki eru skráð í lögum, nefnilega þessa svo kölluðu fyrirgreiðslu og leiðbeiningar fyrir þá menn, sem til nýbyggingarráðs hafa leitað. Það getur verið, að þetta hafi ekki verið gert hávísindalega eða eftir sérstakri áætlun, en það hefur komið mörgum að góðu haldi og mörgum mun bregða við, ef hið nýja ráð tekur upp ólík vinnubrögð.

Eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, þarf oft að ýta undir fólkið og hjálpa því, og hefur sá þáttur starfa okkar í nýbyggingarráði verið hinn ánægjulegasti að ráðleggja og leiðbeina þeim duglegu mönnum, sem til ráðsins hafa leitað. Ég get sagt það, að ég er þakklátur fyrir að hafa starfað með þessum ágætu mönnum í nýbyggingarráði og ég mun sakna þeirra. Hv. 4. þm. Reykv. virtist hneykslaður yfir gjaldeyriseyðslu nýbyggingarráðs, en hafði ekkert að athuga við aðra aðila og minntist oft á orðróm og sögusagnir. Ég þykist vita, að þessi sprenglærði prófessor telji sig til vísindamanna vegna lærdóms síns. En ég verð um leið að láta í ljós, að ég tel það litla vísindamennsku af manni með hans lærdóm og gáfur að dylgja með orðróm og sögusagnir um stofnun, þar sem auðveldlega er hægt að vita hið rétta. Það eru ekki allir eins miklir lukkunnar pamfílar og hv. 4. þm. Reykv. að fá allt upp í hendurnar erfiðislaust, en hætt er við, að þeir verði nokkuð einhliða, þegar dæma á um lífsbaráttu þess meiri hluta þjóðarinnar, sem berst fyrir lífi sínu til sjós og sveita. Hv. 4. þm. Reykv. þarf ekki að fara eftir orðrómi um starfsemi nýbyggingarráðs, því að ráðið hefur samið skýrslu um úthlutun gjaldeyrisleyfa frá 1. jan. 1945 til 31. jan. 1947, og eru þau veitt í samræmi við málefnasamning fyrrv. ríkisstj. Á þessum tíma námu leyfisveitingar rúmlega 335 millj. kr. 205 millj. kr. voru veittar til kaupa á skipum, vélum til skipa og efni til skipasmiða.

Í lok janúar þessa árs hafði ráðið veitt innflutningsleyfi til hraðfrystihúsa og síldarverksmiðja að upphæð kr. 34591447,00, og eru þá ekki talin með innflutningsleyfi fyrir vörubílum, sem þessi fyrirtæki hafa fengið.

Loks gerði málefnasamningurinn ráð fyrir, að um 50 milljónum yrði varið til ýmissa þarfa landbúnaðarins og rafvirkjana. Í lok umrædds tímabils hafði ráðið veitt innflutningsleyfi fyrir landbúnaðarvélum og vélum til fyrirtækja, sem starfa að nýtingu landbúnaðarvara, að upphæð. kr. 20866484,00, þar með eru talin leyfi fyrir jeppabifreiðum, en þau námu kr. 7894647,00. Leyfi til rafvirkjana námu kr. 19206752,00.

Auk áður talinna leyfa veitti ráðið leyfi til innflutnings ýmissa iðnaðar- og vinnuvéla að upphæð kr. 25100920,00.

Leyfi til samgöngutækja námu kr. 20378367,00, til vita. hafna- og bryggjugerða kr. 6289075,00, til vatnsveitna og hitaveitna kr. 2798876,00, ýmis önnur leyfi námu kr. 801677,00.

Allar leyfisveitingar ráðsins námu 335754496 kr. Með l. nr. 117 31. des. 1945 var ákveðið, að árlega skyldu 15% af andvirði útflutningsins lögð á nýbyggingarreikning. Samkv. því bar að leggja kr. 40131150,00 inn á þann reikning fyrir árið1945, en samkomulag varð á milli nýbyggingarráðs og viðskiptaráðs um, að frá þeirri upphæð skyldi draga 36 millj. kr. vegna vara, sem fluttar hafa verið inn og tilheyra nýsköpuninni. en ekki hafa verið greiddar af nýbyggingarreikningi. Af þeim ástæðum bætast aðeins kr. 4131150,00 við nýbyggingarreikning fyrir árið 1945. Samkv. bráðabirgðatölum hagstofunnar nam verðmæti útfluttra vara kr. 291446430,00 árið 1946, og mun því nýbyggingarreikningur aukast um kr. 43716965,00 fyrir það ár.

Um leyfisveitingar nýbyggingarráðs liggur allt fyrir í skýrslum, þ.e. tímabilið frá 1. janúar 1945 til 31. janúar 1947.

A-flokkur :

1. Skip

a.

flutninga- og farþegaskip

54372454,00

b.

togarar

95545405,00

c.

mótorbátar

27149754,00

d.

ferjuskip, varðskip og önnur skip, sem ekki falla undir a-~

5020367,00

182087980,00

2. Útbúnaður til skipa

a.

lífbátar, léttbátar og nótabátar, hringnótabátar og nætur

1320008,00

b.

troll-, línu-, dekk-, akkerisspil o.fl.

3248565,00

c.

vírar, kaðlar og blakkir o.fl.

2014067,00

6582640,00

3. Vélar til skipa

a.

aflvélar til skipa

8185549,00

b.

allar hjálparvélar, sem notaðar eru um borð í skipi

848710,00

c.

smábátamótorar og varahlutir til skipsvéla

2523319,00

11557578,00

4. Efni til skipasmíða og skipaviðgerða

a.

timbur

3339535,00

b.

járn, boltar o. þ. u. l.

950700,00

c.

viðgerðir erlendis á ísl. skipum

1194615,00

5484850,00

Samtals kr.

205713048,00

B-flokkur:

Vélar og efni til iðnaðar

1. Vélar til fiskiðju

a.

síldarverksmiðja

9659897,00

b.

hraðfrystihúsa

8120849,00

c.

niðursuðuverksmiðja

2219000,00

d.

lýsisbræðslu eða hreinsunar

1831303,00

e.

lýsisherzlu

29030,00

f.

fiskimjölsvinnslu

1518825,00

23378904,00

2. Vélar handa verksmiðjum, sem framleiða nær eingöngu í þágu sjávarútv.

a.

Kassagerðarvélar

78870,00

b.

dósagerðarvélar, ef verksmiðjan er rekin óháð niðursuðuverksmiðju

200000,00

c.

vélar til hampiðju

303620,00

d.

tunnuverksmiðjuvélar

160081,00

e.

vélar til annarra verksmiðja, sem geta fallið undir þennan flokk

200775,00

943346,00

3. Vélar handa vélsmiðjum og blikksmiðjum

3810922,00

4. Vélar handa dráttarbrautum og bátasmíðastöðvum

2461020,00

5. Efni til ofan greindra fyrirtækja (járn, timbur, sement o. þ. u. l.)

3997255,00

Samtals kr.

34591447,00

C-flokkur :

1. Vélar og efni til rafvirkjunar

19022452,00

2. Vélar og efni til símalagna

184300,00

Samtals kr.

19206752,00

Samtals eru þessar upphæðir kr. 335754496,00. Nú skilja hv. þm., hvað nýbyggingarráð hefur farið út fyrir sinn verkahring með úthlutun á gjaldeyri. Það er hægt að gefa margar skýringar á því, hvers vegna ráðið hefur veitt leyfi fram yfir það, sem má teljast skyldugt með tilliti til nýsköpunar atvinnuveganna. Nýbyggingarráð er sett á stofn, eins og hv. þm. vita, til þess að úthluta gjaldeyri til nýsköpunar atvinnuveganna. Viðskiptaráðið felldi sig illa við þess breytni í byrjun. Þeir höfðu verið til þess tíma einráðir um úthlutun gjaldeyris og voru því nokkuð afbrýðisamir, ef nota mætti það orð, svona fyrst í stað. Ágreiningur varð um nokkra vöruflokka og vélar, sem segja mátti, að væru á landamærum þessara tveggja ráða. En þetta var aðeins framan af, og vissar reglur sköpuðust um þetta, hvernig leysa skyldi slík ágreiningsatriði. og er núverandi formaður nýbyggingarráðs tók við. varð samkomulag brátt hið bezta, og þar voru dregin takmörk, og ef mál reis upp, sem vafi lék á, hvar til heyrði, þá skáru tveir menn úr, sinn frá hvoru ráðinu, hvort málið heyrði undir nýbyggingarráð eða viðskiptaráð, og ég verð að segja það, að með þeirri aðferð varð alltaf samkomulag. En svo, eftir því sem áfram gekk, urðum við þess varir, að okkur í nýbyggingarráði voru send æ fleiri og fleiri erindi, sem áður höfðu verið í viðskiptaráði. Menn komu í viðskiptaráð með erindi sín, en þeir bentu þeim að reyna að tala við nýbyggingarráð, og nýbyggingarráð hefur, nú síðustu mánuði sérstaklega, teygt sig lengra en hinn strangasti lagabókstafur segir til um. Ég skal taka dæmi. Má hér t.d. nefna viðgerðarkostnað botnvörpuskipa. viðgerðarkostnað strandferðaskipa og útbúnað Svíþjóðarbátanna. Er menn fóru utan til að sækja hina nýju báta, er smíðaðir höfðu verið á vegum ríkisins, þá töldum við það praktíska ráðstöfun að láta þessum mönnum í té nokkur auraráð í gjaldeyri, svo að þeir gætu keypt efni til bátanna, svo sem veiðarfæri og annað í sambandi við útgerð bátanna, og létum við því forráðamenn hvers báts fá gjaldeyrisleyfi að vissu hámarki. Þá höfum við og lagt út leyfi fyrir varahlutum í verksmiðjuvélar, bátavélar og skipavélar. Þá timbur, járn og sement, þ.e.a.s. það, sem mætti teljast innan ramma verkahrings nýbyggingarráðs. Nú, nú, þá hefur nýbyggingarráð einnig lagt út gjaldeyri fyrir rafveituefni og sams konar efni í innanbæjarkerfi og kvikmyndaáhöld út á land, og það var nú víst þessi bíóvél, sem hv. þm. minntist á, og ég lít nú svo á, að ef nauðsynlegt er að veita gjaldeyri fyrir kvikmyndafilmum, þá sé nú vart ástæða til þess að meina fólki úti um landið að njóta þeirrar skemmtunar, er kvikmyndir þykja veita. Það kann að vera, að nýbyggingarráð hefði stundum getað sett hnefann í borðið og sagt: Ja, við erum ekki skyldir að gera þetta — en ég tel, að það hefði ekki verið hyggilegt, og hefði það oft komið framtakssömum mönnum mjög illa.

Ég skal minna á eitt dæmi, er sýnir glögglega, hve skammsýnin getur verið dýrkeypt. Ungur maður hafði lært ytra iðn, sem nefnist rafsuða og var áður óþekkt iðn hér á landi. Og þessi ungi maður lærði iðn sína með ágætum vel, en til þess að framkvæma verk sitt hér heima að loknu námi þurfti hann að fá efni, sem heitir rafsuðuvír. Hann leitaði fyrst til viðskiptaráðs um fyrirgreiðslu um gjaldeyri fyrir þessari vöru, en var vísað á dyr.

Hann kom síðan til okkar í nýbyggingarráði og lýsti fyrir okkur, hvernig farið hefði í viðskiptaráði. Við gáfum svo þessum unga manni leyfi fyrir rafsuðuvírnum og hjálpuðum honum þannig að fá vírinn. Þessi maður hefur svo bjargað þremur bátum frá tapi af vertíð, með því að hann gat framkvæmt viðgerð á vélahlutum, sem annars hefði ekki orðið hægt hér á landi. Ég vildi aðeins benda á þetta dæmi til þess að sýna og undirstrika, hve skammsýnin getur verið bagaleg og að áherzlu skuli leggja á það að afhenda iðnaðarmönnum okkar hin réttu efni, svo að þeir geti stundað sína iðn.

Ég hef ekki dregið hér fram fleiri dæmi og mun ekki gera það, og ef hv. 4. þm. Reykv. ætlar að halda hér eldhús á nýbyggingarráð fyrir þá, sem hafa sent hann til þess, þá gæti hann ef til vill fengið að heyra um eyðslu á gjaldeyri annars staðar frá og þar sem hann er kunnugri. Einn af hinum elztu og reyndustu rörlagningameisturum þessa bæjar sagði við mig um daginn, að viðskiptaráðið neitaði sér um leyfi fyrir svokölluðum „fittings“ og að þær væru alveg ófáanlegar í bænum, en ef Jón í Austurbænum eða Pétur í Vesturbænum færu á stúfana til viðskiptaráðs, þá fengju þeir hinar svokölluðu „fittings“ út á hús sín. Þetta er ekkert fyrirkomulag, en aðeins til þess að auka skriffinnskuna.

En er minnzt er á eyðslu gjaldeyris, þá má minna á, að Alþ. og stjórn sú, er mynduð var 1944, tók þá stefnu að leggja til hliðar gjaldeyri til nýsköpunar, og má fullyrða, að sú ráðstöfun hafi bjargað frá eyðslu á mörgum sviðum. Og hví skyldi hv. 4. þm. Reykv. vera að dylgja um sögusagnir, hvernig gjaldeyri nýbyggingarráðs hefur verið ráðstafað, þar sem það liggur hér fyrir, og með dylgjum sínum er hv. þm. kominn út á hálari ís en hann getur staðizt.

Ég get getið þess, að hv. þm. skaut því inn í ræðu sína, að Sjálfstfl. hefði hörfað eitthvað frá stefnu sinni með því að standa að frv. um fjárhagsráð, að það er alveg óþarfi fyrir mig að svara honum þar. Það hefur hæstv. dómsmrh. þegar gert. Hann gaf til kynna. með hvaða forsendum Sjálfstfl. stendur að þessu frv. Hitt vita allir, að er margir flokkar starfa saman, þá er ekki nema eðlilegt, að menn slaki eitthvað til, og þarf hv. 4. þm. Reykv. ekki að ögra Sjálfstfl.

Hv. þm. var sérstaklega að tala um jeppabifreiðarnar, sem fluttar hafa verið til landsins á vegum nýbyggingarráðs. Það er mál að sönnu, að nýbyggingarráð hefur veitt mörg leyfi fyrir jeppabifreiðum og vörubílum. Við höfum flutt þessa bíla út um landið, og er það nauðsynlegt að hjálpa mönnum um nauðsynleg og heppileg farartæki, og við höldum því fram, að amerísku vörubílarnir séu hentugri okkar vegum en þeir ensku. Viðskiptaráðið hefur haft aðra stefnu í þeim málum en við í nýbyggingarráði. Þeir hafa veitt leyfin fyrir hinum ensku bílum og halda því fram, að þeir henti fullt eins vel hér á landi og þeir amerísku, en við í nýbyggingarráði héldum fram hinu gagnstæða. En fyrst ég minntist á jeppana, þá má geta þess, að fyrst út í það var farið að flytja inn litla og létta bíla. þá er rétt að undirstrika það, að bændur hafa yfirleitt verið mjög ánægðir með jeppa, sem þeir hafa fengið, og áður en þessir bílar voru fluttir til landsins, lágu fyrir umsagnir mætra manna um gildi þeirra og not í þágu sveitanna, og leyfi ég mér að nefna hér einn þessara manna, sem gáfu ráðinu álit sitt, en það var Kristján Karlsson, skólastjóri að Hólum. Ég held því, að reynslan hafi orðið góð með þessa bila, enda er eftirsókn eftir þeim mjög mikil, og má hér til nefna marga iðnaðarmenn, sem sótt hafa eftir því að fá jeppa, en hafa engan farkost haft að komast í til vinnustaðar, en aðallega hafa jepparnir farið til sveitamanna, en við höfum líka orðið varir við, að sumir sveitabílarnir hafa komið í bæinn aftur, og er nú ekki svo gott að sporna á móti því, að ekkert verði um slíkt. Yfir höfuð má segja, að það hafi verið betri ráðstöfun að flytja inn jeppana en litlu ensku eða frönsku bílana, sem komast hvergi í hálfkvisti við jeppana.

Það var ekki von, að hv. þm. skildi þetta. Hann hefur ekki komið nálægt neinu starfi. Það er ekki von, að hann skildi, að sveitabóndi, sem er þrjár klukkustundir að koma mjólk sinni upp á veg, hvað hann virðir mikils þann tímasparnað að vera ekki lengur en 20 mínútur til hálftíma að skreppa með mjólkina á jeppabíl og hvað honum þykir hentugt að hafa farkostinn ávallt heima við og þurfa ekki sí og einatt að vera að elta uppi hest. Þessir jeppar eru sterkir og áreiðanlegir vagnar, og má m.a. nota þá við ýmis önnur störf en til flutninga, svo sem við heyvinnu og önnur landbúnaðarstörf, svo að ég er ekki kviðinn dómi fólksins um jeppana. Búnaðarfélag Íslands, sem flutti jeppana inn í fyrstu, hefur nýlega fengið ósk sína uppfyllta, að þeim hefur verið ætluð sending til úthlutunar til búnaðarsambandanna.

Þetta er starfsemi nýbyggingarráðs, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur gotið hornauga til. Hann segir, að starfsemi nýbyggingarráðs hafi verið byggð á áætlunarleysi. Þetta, að ekki sé byggt á fyrir fram gerðri áætlun, þau ummæli hef ég heyrt áður, og þau eru þekkt og gamalkunn. Hann heldur kannske eða hefur kannske hugsað sér, að það gæti verið vinningur að því að halda því fram, að nýbyggingarráð hafi eytt gjaldeyrinum í ráðleysi, eins og einu sinni var sagt í Tímanum, þegar nýbyggingarráð greiddi fyrir því, að menn gætu keypt sér báta í Svíþjóð — ekki hina svo kölluðu Svíþjóðarbáta. heldur sænsk-byggða báta, sem Svíar höfðu ætlað sér sjálfum að nota — þá var þetta kallað ráðleysi af Tímanum. Og líklega er það frá svipuðu sjónarmiði. sem hv. 4. þm. Reykv. segir, að ekki hafi verið starfað nóg í nýbyggingarráði samkv. fyrir fram gerðri áætlun. En þetta er ekki eins haldgott reipi eins og hv. 4. þm. Reykv. hugsar sér. Nýbyggingarráð hefur starfað allt sitt aðalstarf eftir áætlun. Það er langt síðan lögð var fram áætlun nýbyggingarráðs um fiskiskipaflotann. og það er orðið alllangt síðan lögð var fram fyrir hv. þm. — og á borð hv. 4. þm. Reykv. líka — áætlun nýbyggingarráðs um fiskveiðiflotann til ársins 1951. Í 2. gr. l. um nýbyggingarráð eru eftirfarandi ákvæði um áætlunargerð ráðsins:

„Hlutverk þess er að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn miðaða við næstu fimm ár, um nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Skal þar áætlað, hver atvinnutæki. samgöngutæki, byggingar og annað þurfi til sjávar og sveita“ o.s.frv. — Það má nú segja, að skipting þessara þrjú hundruð milljóna, sem nýbyggingarráð fékk umráð yfir og gert var ráð fyrir í stjórnarsamningnum, hafi verið fyrstu frumdrög í þessari áætlun. Ég hef nú gert nokkra grein fyrir, hvernig sú skipting hefur orðið í framkvæmdinni. Það, sem gert hefur verið af hálfu nýbyggingarráðs til þess að auka og koma upp fiskiskipastól og flutningaskipastól, og það, sem gert hefur verið af hálfu þess ráðs til þess að koma upp frystihúsum, hefur verið gert eftir áætlun. Um leið og tilmæli um gjaldeyri til þess að koma þessu upp hafa verið tekin til athugunar og fyrirgreiðslu nýbyggingarráðs, hefur nýbyggingarráð tekið þessar framkvæmdir inn í þá áætlun íslenzks þjóðarbúskapar, sem gert er ráð fyrir í l. þar um. Þar að auki hefur stofnlánadeild sjávarútvegsins á ákveðnum tíma, samkvæmt reglugerðinni um stofnlánadeild, sent þessari stofnun þær tilskildu áætlanir um skip og iðjuver og hvers kyns annað, sem tekið hefur verið upp í áætlun ráðsins og hefur fengið meðmælt þess um lánveitingar. — Þess vegna er það, hvað snertir sjávarútveginn og iðnaðinn í sambandi við sjávarútveginn og millilandasiglingar, að ráðið hefur þar gert þær áætlanir, sem nauðsynlegar voru. En eins og ég gat um áður við umr. um þetta mál, þá voru fleiri verkefni fyrir hendi. sem nýbyggingarráð hefur stefnt að að leysa og sumpart undirbúið það, en það er ekki fullgert. Það verksvið, sem ráðið hefur sérstaklega haft í huga, fyrir utan sjávarútveginn og vissar iðngreinar í sambandi við sjávarútveginn, er annar iðnaður, landbúnaður og byggingarstarfsemi. Það hefur ekki verið hafizt handa á sviði iðnaðarins að tilhlutun nýbyggingarráðs, að undanskildum þeim athugunum. sem fram hafa farið viðvíkjandi ullariðnaði og áburðar- og sementsgerð. Þessu lýsti ég við umr. málsins og gat þess þá líka, að fyrirrennari nýbyggingarráðs, skipulagsnefnd atvinnumála. sem starfaði frá 1933 til 1944, hafði látið byggingarmálin til sín taka og samið ýtarlega álitsgerð um þau mál. Og þó að nýbyggingarráð hafi ekki haft bein áhrif á byggingarmálin, hvorki með leyfisveitingum eða á annan hátt, þótti því ekki rétt að leiða þau mál alveg hjá sér. Og var því á vegum ráðsins starfað að áframhaldandi áætlun og till. um þau mál, og sérstök grg. hefur verið samin af ráðinu um byggingarmálin. — Annars mun það nú verða svo, að þegar nýbyggingarráð hættir störfum, þá hverfur þetta inn í þá nýju stofnun, og mun þá verða lögð fram greinileg og ýtarleg skýrsla um öll störf nýbyggingarráðs og leyfisveitingar frá byrjun. Verður þá hægurinn hjá fyrir hv. 4. þm. Reykv. að kynna sér til hlítar, hvað ráðið hefur haft með höndum. Og hvað hvatvísa menn snertir, þá eiga þeir síður á hættu, þegar þeir hafa þessa skýrslu við höndina, að hlaupa á sig með aðfinnslur við ráðið, þó að mikið þyki nú við liggja.

Hv. 4. þm. Reykv. eyddi mörgum orðum í það að mikla það fyrir þeim, sem tækju við störfum í fjárhagsráði — og hafði allan þann blæ á ræðu sinni. hve þessi hv. þm. teldi sig það miklu skipta — hve erfitt yrði verkefni fjárhagsráð — ákaflega, skelfing erfitt — og sérstaklega vegna þess, að ekki væri vel búið í hendur fjárhagsráðs af hálfu nýbyggingarráðs.

Ég hef nú dálítið reynt að sýna fram á, hvað tilefnislítið það var af hendi hv. 4. þm. Reykv. að efna til umr. um nýbyggingarráð í þeim anda, sem hann gerði. Ég gæti gert það miklu ýtarlegar og betur, ef ég vildi eyða miklu meira af tíma hv. þd. til þess. En ég álít þess í sjálfu sér ekki þörf.

Hv. 4. þm. Reykv. hefur talað hér af ókunnugleika. Hann skilur ekki þessi mál eins og vera skyldi. Hann skilur sjálfsagt sína vísindalegu afstöðu í þessu efni, en það þýðir ekki það, að hann hafi réttan skilning á þeim verkefnum, sem slíkar stofnanir þurfa að sinna, og sízt af öllu nokkurn skilning á lífskjörum fólksins, sem á að leita aðstoðar og fyrirgreiðslu hjá slíkum stofnunum, hvort sem heldur heita viðskiptaráð, nýbyggingarráð eða fjárhagsráð eða annað slíkt. Það er það, sem skortir hjá þessum hv. þm. Hann vantar alla lífsreynslu. Hvað þekkir hann það, hvaða þýðingu það hefur fyrir fátækan útvegsmann, sem er að berjast við það að vinna fyrir sér og sínum, að honum sé hjálpað til þess að fá nýja og betri vél í bátinn sinn? Hvað ætli hann þekki það, þessi hv. þm., hvaða breyt. það gerir í litlum sjávarþorpum, að menn taka höndum saman og fá aðstoð þess opinbera og fyrirgreiðslu þeirra, sem betur vita, til þess að koma upp hraðfrystihúsi og öðru slíku á stöðum, þar sem þessi fyrirtæki gerbreyta alveg viðhorfinu til atvinnu hjá fólkinu og lífskjörunum hjá svo og svo mörgum mönnum? Þessi hv. þm. veit sjálfsagt allt, sem stendur skrifað í bókum um þessa „planökónómi“. og kann að fara rétt með það. Það er gott og blessað. En það er fleira til í dæminu en fyrir fram samdar og skrifaðar áætlanir, jafnvel þótt frá lærðum hagfræðingum séu. Við rekum okkur á það iðulega í lífinu, að það er þróun lífsins, sem kallar eftir lausn verkefna, þrátt fyrir það að ekki hafi verið gert ráð fyrir því upprunalega í einhverri áætlun. Eftir því sem hv. 4. þm. Reykv. þroskast og ef hann vitkast í þessum málum, þá á hann sjálfsagt eftir að reyna þetta sjálfur.

Ég lít þess vegna þannig á, að nýbyggingarráð hafi beinlínis bjargað mörgum hundruðum millj. kr. frá því að fara í aðra eyðslu en þá, sem nytsamleg er.

Hv. 4. þm. Reykv. lýsti eftir því, hvaða vöruinnflutningi og framleiðslutækja nýbyggingarráð heyrði stutt að. Ég hef hér langan lista, sem snertir staði víðs vegar kringum landið, og get lagt hann fram eða lesið hann upp, ef ég teldi þess þörf á þessari stundu, sem sýnir, hve miklu meira hefur verið flutt inn af bátum á síðasta ári en áður. — Það hafði þó borizt þessum hv. þm. til eyrna, að varið hefur verið þessum milljónum til togarakaupa, sem gert hefur verið. Það hafði þó náð í gegnum hans skólaeyra til hans.

Ég er ekki sannfærður um gildi þessara fyrir fram gerðu áætlana, þessarar „planökónómíu“, sem okkar sprenglærðu hagfræðingar lofa svo mjög. Það er eitthvað. sem er gott á vissum stöðum. En ég held, að við að athuga þau náttúruskilyrði, sem íslenzkir atvinnuvegir eiga við að búa, og þær sveiflur, sem hér hljóta að verða á framleiðslu- og atvinnuháttum einmitt í sambandi við hnattstöðu landsins og í sambandi við eðli atvinnuveganna, þá hljóti menn að reka sig á það fyrr eða síðar, að það á ekki sama „planökónómia“ við hér eins og í þeim löndum, sem byggja tilveru sína mest á verksmiðjuiðnaði. Það er gott að gera áætlanir og ennþá betra að gera þær góðar og geta uppfyllt þær. En það er vissulega nauðsynlegt, þrátt fyrir allt þetta, að hæfilegt tillit sé tekið til lífsins sjálfs, fólksins í landinu og lífskjara fólksins og afkomu.

Ég býst við, að margir hv. þdm. hafi heyrt talað um það stórfellda átak, sem víðfrægt er orðið um allan heim og kennt er við Tennessee-dalinn í Bandaríkjunum. Hér er bók, sem heitir „Tennessee Valley Authority on the March“ — og lýsir þeim feikna miklu vatnsvirkjunarframkvæmdum, sem komnar eru á í þessum mikla dal. þar sem Tennessee-áin rennur í gegn. Þar er breyt. orðin sú, að stórfljót, sem svo að segja árlega hótaði eyðileggingu með flóðum og oft líka flæddi og eyðilagði meira og minna með því að flæða yfir akra og engi og taka með sér svo að segja, allt laust og jafnvel hrífa með sér það, sem álitið var að vera fast þetta mikla fljót hefur verið beizlað og látið framleiða kraft, sem gerir hvort tveggja í einu að halda fljótinu í skefjum og líka að ljá kraft öllum þeim búskap og öllum þeim iðnaði, sem blómgast í Tennessee-dalnum. Þessi bók, sem ég nefndi, lýsir þessu. Hún er nærri því eins og skáldsaga að lesa hana, hún er svo skemmtileg. Og þó lýsir hún eingöngu raunverulegum framkvæmdum. sem staðið er að af fyrirhyggju og mikilli verkfræði, ásamt því — og það er hér undirstrikað —, að allt er gert þar með lýðræðislegum anda og fyrirkomulagi. Þar er ekkert, sem hefur verið gert eftir einstrengingslegum boðum eða fyrirskipunum, án þess að reynslan hafi fengið að komast þar að. — Nú skyldi maður ætla, að um slíkt og annað eins fyrirtæki hjá þessari stórþjóð, eins og þarna er um að ræða, mundi nú „planökónómian“ hafa fengið að njóta sin. En hvað skal segja? Á bls. 192 í þessari bók er um þetta atriði talað, og heitir sá kafli „Planning and planners“, þ.e.a.s. áætlanir og þeir, sem gera áætlanir. Og í þessum kafla er komizt þannig að orði. lauslega þýtt, með leyfi hæstv. forseta:

„Tennessee Valley Authority“ er álitin að vera áætlunarstofnun fyrir þetta umdæmi. Samt sem áður er ekki nein deild innan þess, sem gæti heitið deild fyrir félagslegar áætlanir, og þegar ég bið um eintak af TVA-áætlunum, er það ekki fyrirfinnanlegt. — Eitthvað á þessa leið hefur oft verið sagt við okkur af mönnum, sem vilja kynna sér Tennessee Valley Authority. — Ástæðan fyrir þessu er sú, að það er engin slík áætlun til og ekki heldur er nein sérstök deild, þar sem starfað er eingöngu að samningu áætlana.“

Ja, það virðist vanta „planökónómiuna“ heldur illilega þarna, finnst mér. Og væri nú ekki úr vegi fyrir okkar vísindamenn að benda stjórnendunum þarna í Tennessee-dalnum á það, að þeir hafi alveg gleymt „planökónómíunni“. sem við Íslendingar teljum, sumir af okkur, vera algerlega nauðsynlega fyrir okkar þjóð.

Ég bendi aðeins á þetta til þess að sýna það, að í Bandaríkjunum er ráðizt í stórvirki og hafðar með höndum þúsundfalt stærri framkvæmdir en þær, sem hér er um að ræða hjá okkur og við höfum vald á, án þess að þar séu nokkrir dósentar, prófessorar eða hagfræðingar með sína „planökónómiu“ — og þó snúast hjólin á þessum stöðum.

Ég vil svo mega segja að lokum þetta: Nýbyggingarráð er stofnað í þeim anda og með það verkefni, sem og var samþ. af Alþ., að það má heita að hafa verið jákvæð stofnun. Það var stofnað með framfarahug fyrir augum. Og í þeim anda hefur ráðið leitazt við að starfa. Þegar það nú á að hætta störfum og eftir liggja ýmis hálfunnin verk og mörg óunnin, þá er nauðsynlegt, að sú stofnun, sem við þessum málum tekur. fari ekki of mikið yfir í hitt hornið og verði neikvæð í þeim málum. En ræða hv. 4. þm. Reykv. gerði mig nokkuð uggandi í þessu efni. Ég vil. að við tökum nokkuð til athugunar þann varnað, sem hv. þm. A-Húnv. hafði hér í umr. um þetta mál, um það, að ekki verði lagðar of miklar hömlur á framkvæmdir manna.

Hv. 4. þm. Reykv. var að vísu að minnast á það sem einn ágalla á starfsemi nýbyggingarráðs, að hann hefði ekki heyrt um það, að nýbyggingarráð hefði neitt viljað beita sér fyrir fjárfestingu, sem hann og margir telja nauðsynlega. Nei. nýbyggingarráð hafði satt að segja ekki aðra fjárfestingu með höndum en þá að dæma um það, hvort þeir menn, sem til þess komu með sín erindi og fyrirætlanir, hvort sem það var varðandi skipakaup eða annað, stefndu að framkvæmdum í þeim efnum með nokkru viti, og mæla því aðeins með þeirra fyrirætlunum, ef nýbyggingarráði virtust þær vera viturlegar að dómi ráðsins. En þetta var ekki á öðrum sviðum en viðkomandi nýsköpun. En á öðrum sviðum var það ekki nýbyggingarráð, sem hafði aðstöðu né heldur skyldu til þess að beita sér í þessum efnum, heldur annað ráð, sem hv. 4. þm. Reykv. — þótt hann sé ekki í því —þekkir miklu betur, sem sé viðskiptaráð. Viðskiptaráð hafði og hefur ásamt viðskmrn. ávallt í höndum sér allt vald um veitingu eða neitun á gjaldeyri til innflutnings á öðrum vörum en til nýsköpunar og hefur haft þetta vald í höndum öll stríðsárin. Og þá gat það a.m.k. neitað að veita þeim innflutningsleyfi. sem voru á skakkri leið. og leitt þá inn á réttar brautir eða frá því, sem hv. 4. þm. Reykv. og aðrir góðir menn kalla, að væru rangar leiðir. En nýbyggingarráð hafði ekki slíkar leyfisveitingar með höndum, að þar væri að ræða um neitt það, sem talizt gæti til óþarfa eyðslu. Það er viðskmrn. og viðskiptaráð, sem hafa alltaf haft það í hendi sinni öll hin síðustu ár að beita þessum hemli.

Ég hefði svo gaman af að spyrja hv. 4. þm. Reykv. um annað atriði. Hann er nokkurs konar viðskiptaráðsmeðlimur, af því að hann er í verðlagsnefnd. Nú þætti mér fróðlegt að vita hjá svo miklum „planökónómista“, hvort hann hefur ekki öll þessi ár, sem hann er búinn að starfa í verðlagsráði, haft með höndum áætlanir um það, hvernig slík stofnun eigi að starfa. Það hefur ekki, svo að ég viti, komið fram í verki. að neitt liggi eftir hann í þeim efnum, nema kannske það að setja niður kaffipundið, en ekki heildarskipulagning um verðlagningarstörf. — Nú er hér í þessu frv. látið hilla undir það, að fara megi inn á nýjar brautir að því er snertir verðlagningu. Þess vegna væri fróðlegt að heyra frá þessum strangvísindalega hagfræðingi. hvað hefur brotizt um í hans heila öll þessi ár í þeim efnum og hvaða till. hann hefur haft á takteinum í sínu ráði til þess að bæta úr þeim ágöllum, sem kynnu á að vera í því efni. Ég vil gjarnan hlusta á það, sem hv. 4. þm. Reykv. kann að vilja segja mér og öðrum í þessari hv. þd. af afrekum sínum í verðlagsráðinu og þeim skipulagningarumbótum — ef einhverjar eru sem þessi hv. þm. kann að hafa komið á í þeirri deild. sem hann hefur starfað í að þessum málum.