17.03.1947
Neðri deild: 97. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (747)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég var af sérstökum ástæðum ekki viðstaddur allar umr., sem fóru fram s.l. föstudag, en heyrði þó allmikið af þeim og því, sem fram hefur farið síðan, og þykir mér því ástæða til að segja nokkur orð til viðbótar því. sem ég sagði í ræðu minni hér á fimmtudaginn. Ég var þá svo ónærgætinn að nefna í ræðu minni, að í þessu frv. væri meiri kommúnismi en í nokkru frv., sem ég hefði séð hér á Alþ., og að þennan kommúnisma virtist ríkisstjórnin ætla að lögfesta í andstöðu við sjálfan Kommúnistafl. Þetta hefur komið óþægilega við taugar sumra þm. og það svo, að mótmæli hafa komið úr ýmsum áttum. Fyrstur reið á vaðið hæstv. forsrh. og taldi þetta fjarri öllum sanni, næstur kom svo hæstv. dómsmrh. og greip í sama streng. Þriðji maðurinn var svo hv. 4. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, sem mælti gegn þessu með mjög hörðum orðum og sagði, að þessi skoðun væri hin hreinasta villa. Ég verð nú að hryggja alla þessa menn með því að segja, að þetta hefur ekki haft hin minnstu áhrif á mína sannfæringu í þessum efnum. Rautt er rautt og svart er svart, þó að einhverjir menn vilji kalla það hvítt.

Hvað ert þú að hafa á móti sósíalismanum, sem vildir hafa fyrrv. stjórn áfram? mundi einhver segja. Þar er því til að svara, að ég fylgdi ekki fyrrv. ríkisstj. vegna kommúnistastefnunnar. heldur vegna framfaranna og samvinnunnar milli atvinnurekenda og verkamanna hér á landi, sem ég tel nauðsynlega. En það er nú ljóst orðið, að andstaðan gegn fyrrv. ríkisstj. byggðist ekki á andstöðu gegn kommúnistastefnunni. því að það kom aldrei til mála í tíð fyrrv. stjórnar að framkvæma og lögfesta eins róttækan kommúnisma og felst í þessu frv., sem hér liggur fyrir. en sumum mönnum finnst hann sennilega góður, ef hann er framkvæmdur í andstöðu við Sósfl. Ég tel það hins vegar verra, því að samvinnan við sjálfa hina yfirlýstu stefnu er miklu eðlilegri. Að taka upp meginþáttinn úr kommúnistastefnunni í mikilvægum atriðum. en berjast við Kommúnistafl. er svipað því og að taka eignir annarra manna, en skilja þá sjálfa eftir. Þess vegna er það svo, að þm. Sósfl. skilja þetta og eru því ekkert glaðir yfir þessu frv., sem ekki er heldur von. Að tala um þetta mál við hv. 4. þm. Reykv. blasir einna bezt við. fyrst hann gaf til þess sérstakt tilefni. Hann virðist eftir ritum og ræðum að dæma vera mjög róttækur kommúnisti í skoðunum og meira að segja töluvert róttækari en flestir þm. Sósfl. og vera til þess reiðubúinn að framkvæma sósíalistastefnuna út í yztu æsar með stórkostlegum lögránum á eignum manna og fyrirtækja, með allsherjar ríkisverzlun og ríkisrekstri o.s.frv. En þessi maður telur sér hagstæðara að sigla að því leyti undir fölsku flaggi að vera í andstöðu við Sósfl., og virðist vilja hafa sinn flokk, Alþfl., enn rauðari en yfirlýst er, að Sósfl. sé, sem viðurkennir hreinlega sína stefnu. Annars kom það í ljós í ræðu hv. þm., sem hæstv. fjmrh. vék að. að hann mótmælti því, að nokkur kommúnismi feldist í þessu frv., og sagði eitthvað á þá leið, að þetta frv. væri sönnun þess, að Sjálfstfl. hefði verið knúinn til að ganga frá einu aðalatriðinu í sinni stefnuskrá, sem er atvinnufrelsið. Hv. þm. hafði þannig í sömu ræðunni — með fárra mínútna millibili — endaskipti á sjálfum sér. Skal ég ekkert um það segja, hvorum endanum er í þessum efnum öruggara að trúa, en það, sem á sér stað um þennan þm., það gildir einnig um marga aðra. Það er t.d. ekkert undarlegt við það, þó að aðalforvígismaður haftastefnunnar, hæstv. menntmrh., vilji fá meiri, víðtækari, harðari og áhrifasterkari höft á allt einstaklingsfrelsi en áður hefur verið.

Ég skal svo koma nánar að því, hvers vegna ég held því svo ákveðið fram, að þetta frv. sé byggt á grundvelli kommúnistastefnunnar. Er þess þá fyrst að geta, að hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað tekið það fram í ræðum sínum, að höfuðtilgangurinn með þessu frv. væri sá, að koma hér á skipulögðum þjóðarbúskap eftir fyrir fram saminni áætlun, þ.e. áætlunarbúskap, en hann er, eins og kunnugt er, eitt af höfuðstefnumálum kommúnista.

Hvernig á þetta svo að gerast? Ríkisstj. á samkv. upphafi 2. gr. að skipa 4 manna n., sem tekur við miklu af verkefnum Alþ., og mundi þetta því verða langveigamesta n., sem nokkru sinni hefur verið stofnsett hér á Alþ., hún á að heita fjárhagsráð. Vald hennar og verkefni er hreint ráðstjórnarfyrirkomulag. Allt fjármagn þjóðarinnar, viðskipti, atvinna og framkvæmdir á að vera henni háð. Alþ. má ekki einu sinni kjósa n. samkv. frv., eins og það liggur hér fyrir. Einn þm. úr mínum flokki sagði við mig fyrir nokkru: „Það er engu líkara en að ýmis atriði í þessu frv. séu beinlínis tekin úr stjskr. Sovétríkjanna.“ Ég vil spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvað er eftir, þegar öllu er ráðstafað, sem ákveðið er með 2. og 5. gr. þessa frv.? Öll atvinnumál, framkvæmdir, dýrtíðarmál, fjármál og húsnæðismál — allt á þessi mikla n. að hafa, öllu á hún að ráðstafa.

5. gr. er svo hátoppurinn á þessu valdahúsi, þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til hvers konar fjárfestingar einstaklinga, félaga og opinberra aðila, hvort sem er til stofnunar nýs atvinnurekstrar. til aukningar á þeim, sem fyrir er, húsbygginga eða annarra mannvirkja, þarf leyfi fjárhagsráðs, og gildir þetta einnig um framhald þeirra framkvæmda, sem þegar eru hafnar.“

7. gr. er svo til frekari áherzlu, þar segir: „Fjárhagsráð og þeir aðilar, er það felur umboð til þess, hafa með höndum framkvæmd áætlunarinnar, veiting fjárfestingarleyfa, innflutningsleyfa, gjaldeyrisleyfa og verðlagseftirlits, sbr. II. og III. kafla laga þessara.“ Hvað vilja menn hafa það öllu meira?

Enginn má stunda verzlun nema hafa til þess leyfi. því að ekkert þýðir að hafa verzlun, nema hafa leyfi fyrir vörum. Enginn má byggja hús, ekki byggja brú, ekki kaupa skip og ekki stofna nýjan atvinnurekstur. ekki má einu sinni ljúka þeim mannvirkjum, sem þegar er byrjað að byggja, nema leyfi þessa stóra ráðs komi til. Atvinnufrelsi, viðskiptafrelsi og umbótafrelsi. Allt verður það lagt undir eina n. Og ráðh. og þm. hrópa hver í kapp við annan: Þetta er ekki kommúnismi. Það er jafnvel gengið svo langt, að ýmsir þm. eru sí og æ að brigzla okkur fylgjendum fyrrv. stjórnar um dýrkun á kommúnistastefnunni, þó að þeir séu fúsir til að gleypa við þessu frv., sem gengur miklu lengra í kommúnistískum ráðstöfunum en kom til mála í tíð fyrrv. stjórnar. Þessum mönnum virðist nægja það eitt að koma í veg fyrir, að þm. Sósfl. séu í ríkisstj., þó að kommúnistastefnan sé lögfest og ákveðin í framkvæmd — það virðist þeim vera nokkurn veginn sama um. Fyrir mér er þetta allt annan veg farið. Mér eru framfarirnar aðalatriðið. Ég vil láta framkvæma sem mest af þeim af einstaklingum og eins fyrirtækjum. Takist það ekki, þá verður ríkið að koma til sögunnar, en þar á Alþ. að ráða, en ekki einhver yfirráð utan þingsins. Ég býst við, að einhver ráðh. eða aðrir vilji spyrja: Er þetta ekki allt góður og nauðsynlegur kommúnismi. mundi hann ekki verða enn magnaðri, ef Kommúnistafl. væri með í ríkisstj., eins og þú gjarnan vilt? Hvorugu þessu ætla ég að svara í dag, en ég ætla að segja annað, það er þetta: Ég kann ekki við, að menn séu að flytja eða fara með þá blekkingu, að þeir séu að berjast á móti kommúnistastefnunni. þegar þeir vilja auðfúsir framkvæma hana, eins og ég hef þegar sýnt fram á. Og ég endurtek það, að það er miklu viðfelldnara að framkvæma þennan kommúnisma, ef það á endilega að gera, í samvinnu við Kommúnistafl. en í andstöðu við hann. Svo kemur og fleira til, sem ég skal í þessu sambandi víkja að, og það er þá eðlilegast að nefna nokkur atriði. sem fram hafa komið í ræðu hæstv. fjmrh. Hann flutti hér ræðu á fimmtudaginn var, og ég man ekki eftir neinni setningu í þeirri ræðu, sem ég gæti ekki undirskrifað. En það kom fram í henni hjá hæstv. ráðh., að í þetta frv., sem hér liggur fyrir, vantaði allar tryggingar fyrir því, að haldið yrði áfram með þær margvíslegu framfararáðstafanir, sem nýbyggingarráð stofnaði til á undanförnum tveim árum.

Þetta ítrekaði hæstv. ráðh. nú mjög rækilega í sinni löngu ræðu, og þetta er í fullu samræmi við margt af því, sem hv. 2. þm. Reykv. hefur haldið fram í þessum umr.

Þessir tveir menn hafa líka með fyrrv. stjórn verið forystumenn hinnar mestu framfarastefnu, sem hafin hefur verið á Íslandi, annar sem form., hinn sem varaformaður í því ráði, sem þessi nýja stóra n. á nú að gleypa.

Mig furðar ekkert á því, þó að hæstv. fjmrh. hafi fundið öryggisleysið í þessu efni. þegar það er beinlínis bannað samkv. 5. gr. að halda áfram með framkvæmdir, sem byrjað hefur verið á, nema sérstakt leyfi komi til. Hitt hefði mér fundizt miklu viðfelldnara fyrir hæstv. fjmrh., að setja inn í frv. einhverjar frekari tryggingar fyrir nýsköpunarframkvæmdum, áður en hann samþykkti, að frv. væri lagt fram sem stjfrv. En væntanlega og vonandi tekst hæstv. fjmrh., því að ég ber til hans fullt traust í því efni, að fá úr þessu bætt að fullu. áður en frv. kemur til 2. umr. í þessari hv. d., og það getur haft mikla þýðingu fyrir framkvæmd málsins næsta tímabil.

Hæstv. dómsmrh. mun hafa lýst því yfir, að hann ætlaði að flytja brtt. um skipun þessa ráðs í samræmi við það, sem ég lýsti eftir í ræðu minni á fimmtudaginn. Það er stundum gott og stundum ekki gott að flytja brtt. við sín eigin frv., í þessu efni er það gott. En ef hæstv. ráðh. hefur tryggingu fyrir því að fá samþykkta þessa brtt., þá hefði hitt verið enn betra og forðað okkur sjálfstæðismönnum frá því að fá frv. sem stjfrv. eins og 2. gr. þess nú er. Þess hefur verið getið í tveim blöðum ríkisstj., að ég hefði lýst mig fullan andstæðing þessa frv. Um það hef ég ekki sagt meira en það, að ég mundi aldrei fylgja því óbreyttu. Afstaða mín fer mjög eftir því, hvað margvíslegar og miklar breyt. verða gerðar á frv., áður en það kemur til lokaafgreiðslu hér í hv. d., Ég það má, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, fara alla vega með þetta mál í framkvæmd. því að það fer að sjálfsögðu eftir því. þegar jafngífurlegt vald er lagt á hendur fárra manna eins og hér er gert — þá fer það eftir því. hverjir mennirnir verða og hvernig þeir fara með þetta vald.

Þetta mál er eins og kunnugt er í aðalatriðum stjórnarsamningur og verður vafalaust samþ. í einhverri mynd. Fyrir mig skiptir það, úr því sem komið er, mestu máli að vita um það, áður en málið fer úr þessari hv. d., hvort þessi n. verður skipuð mönnum, sem ég ber traust til, eða einhverjum öðrum.