17.03.1947
Neðri deild: 97. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hér áðan næstum 11/2 tíma ræðu. En tilefnið var stundarfjórðungsræða, sem ég flutti á föstudaginn var. Hæstv. ráðh. sagði, að þessar umr. hefðu ekki gefið tilefni til þess að taka starfsemi nýbyggingarráðs til sérstakrar athugunar, en það hefði ég gert í minni ræðu, og hans ræða var svar við þeim atriðum ræðu minnar. Ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. ráðh., að ekki sé ástæða til að ræða um nýbyggingarráð. því að þetta frv., ef að l. verður, nemur úr gildi l. um nýbyggingarráð, og þess vegna er ástæða til að ræða þetta nokkuð. Annars var það þó sérstaklega annað, sem gaf mér tilefni til að standa upp.

Í fyrri ræðu sinni sá hæstv. fjmrh. ástæðu til þess að fara sérstökum hrósyrðum um hv. 2. þm. Reykv. fyrir samstarf þeirra í nýbyggingarráði og hældi honum og nýbyggingarráði mjög fyrir störf, sem það hefði unnið og þeir saman 2 s.l. ár. Það mun hafa komið ýmsum mönnum á óvart, að hæstv. fjmrh. skyldi fara að kasta þannig ástarorðum yfir salinn til leiðtoga stjórnarandstöðunnar, og menn voru ennþá meira undrandi. þegar þeir heyrðu, að ekki stóð á því, að hv. 2. þm. Reykv. tæki undir þessa ástarkveðju, og í einni ræðu sinni lýsti hann yfir sérstakri ánægju af samstarfinu við hæstv. fjmrh. í nýbyggingarráði og hrósaði öllum störfum nýbyggingarráðs hið mesta. Þetta þótti ýmsum næsta spaugilegt og nokkuð óvenjulegt, að þannig skyldi kastað ástarorðum milli ráðh. og leiðtoga stjórnarandstöðunnar. En þegar farið er að athuga, hvort þessi hrósyrði þarna á milli eru eðlileg eða á nokkrum rökum reist, þá verður manni ljóst. að þau eru nokkuð undarlegri en orðin sjálf kunna að hafa gefið tilefni til að halda. Ég benti á það í ræðu minni, að samkvæmt l. um nýbyggingarráð hefði það verið höfuðverkefni nýbyggingarráðs, eins og segir í l., að búa til heildaráætlun, fyrst um sinn fyrir næstu 5 ár, um nýsköpun íslenzka þjóðarbúsins, og nýbyggingarráð fékk til umráða 300 millj. kr. og átti að verja þessum fjármunum eingöngu til kaupa á framleiðslutækjum og til annarrar nýsköpunar í atvinnulífi þjóðarinnar. Höfuðverkefni nýbyggingarráðs var sem sé tvenns konar: annars vegar að semja heildaráætlun og hins vegar að ráðstafa þessum 300 millj. kr. og auk þess 15% af útflutningsverðmæti þjóðarinnar. Ég leiddi að því rök, að nýbyggingarráði hefði ekki farið þetta starf sitt svo vel úr hendi, að sérstök ástæða væri fyrir form. og varaform. — hæstv. fjmrh. og leiðtoga stjórnarandstöðunnar — að hrósa hvor öðrum sérstaklega mikið af því. Ég gat um það, að nýbyggingarráð hefði ekki enn innt af hendi þá meginskyldu sína að semja heildaráætlun um nýsköpun íslenzkra atvinnuvega. sú áætlun er ekki til og hefur aldrei verið samin. Það eina, sem gert hefur verið í þessa átt, er, að samin hefur verið áætlun um togaraflotann og aukningu hans, sem frekar má telja ritgerð en áætlun, en nýbyggingarráð hefur ekki gætt þeirrar höfuðskyldu að semja heildaráætlun um nýsköpun í íslenzku atvinnulífi. Ég benti á, að nýbyggingarráð hefði, síðan það tók til starfa, gefið út leyfi fyrir 355 millj. kr. til 1. marz. þar af eru eftir leyfisveitingar fyrir 8 millj. kr., sem ekki hafa verið notaðar, svo að leyfisveitingar hafa verið notaðar fyrir 347 millj. kr. Að vísu er nokkur spurning um það, að eitthvað af þessum leyfum hafi ekki verið framlengt, það veit ég ekki um, en það mun form. ráðsins vita. Heildarleyfisveitingar nýbyggingarráðs eru þá 347 millj. kr. Nýbyggingarreikningurinn nemur hins vegar 304 millj. kr. Það eru því 304 millj. kr., sem nýbyggingarráð hefur haft til að gefa leyfi út á, en það gefur hins vegar leyfi út á 347 millj. kr. Ég veit ekki, hvort formenn nýbyggingarráðs hafa ástæðu til að hrósa hvor öðrum fyrir þessa ráðsmennsku. — ég held þó ekki.

Enn heldur nýbyggingarráð áfram leyfisveitingum í febrúar fyrir 13 millj. kr., jafnvel þótt leyfisveitingar séu orðnar talsvert meiri en stendur inni á nýbyggingarreikningi. Ég veit, að því verður svarað til, að eftir sé að færa inn á nýbyggingarreikning 15% af verðmæti útflutningsins 1946, sem nemur 40 millj. kr., en þar til er því að svara, að þessar 40 millj. eru ekki til, þjóðin á þær ekki lengur — gjaldeyriseignin er þegar orðin neikvæð, því eins og hæstv. menntmrh. minntist á í sinni ræðu, þá er frjáls gjaldeyriseign þjóðarinnar aðeins 44 millj. kr., en greiðsluábyrgðir bankanna 58 millj. kr.

Hv. 2. þm. Reykv. ræddi í sinni ræðu á föstudaginn um það. að nauðsynlegt væri að stofna ekki til erlendra skulda. Þetta er rétt hjá honum. En í ljósi þess virðist það vera undarlegt. að hann skuli ekki sýna meiri varkárni í störfum sínum í nýbyggingarráði en svo að halda áfram útgáfu gjaldeyrisleyfa vitandi það. að engin gjaldeyrisinnistæða er til til þess að veita leyfi út á, og vitandi það. að með þessu er hann að stofna til gjaldeyrisskulda. En í þingsölunum varar hann við að stafna til erlendra skulda. Með tilliti til þessara staðreynda held ég, að ekki hafi verið ástæða til svo rækilegra hrósyrða sem fóru á milli hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Reykv., og þess vegna ástæðulaust fyrir hæstv. fjmrh. að undrast það, að mér og fleirum skuli hafa fundizt nokkuð ofmælt í þessum vinaorðum og hrósyrðum.

Það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh., að ég hafi verið að vitna í orðróm um það, hvernig nýbyggingarráð hafi ráðstafað sínum gjaldeyri. Mér er kunnugt um, hvernig það hefur gert það. En það, sem hann mun meina, þegar hann talar um orðróm, mun vera það, að ég sagði, að það hefði heyrzt, að nýbyggingarráð hefði auk þessa farið nokkuð út fyrir sitt verksvið í sínum leyfisveitingum. Hann sagði. að það væri óþarfi að tala um orðróm, þar sem ég ætti að vita, hvað nýbyggingarráð hefði veitt mikil leyfi. Ég hef hér fyrir mér skýrslu um leyfisveitingar nýbyggingarráðs, og það er alveg rétt, að þar sést ekki neitt um einstakar leyfisveitingar, og þar er heldur ekki mjög nákvæm undirflokkun. Það stendur t.d. ekki í þessum skýrslum, að veitt hafi verið leyfi til kvikmyndastarfsemi, og enn síður, að það hafi verið veitt leyfi til kvikmyndastarfsemi fyrir bæjarstjórann á Norðfirði. ekki til bæjarins sjálfs, heldur til bæjarstjórans prívat.

Ég hygg, að segja megi, að nýbyggingarráð hafi hér seilzt út fyrir starfssvið sitt sökum afbrýðisemi við viðskiptaráð. Það hefur ekki alltaf stýrt í nýsköpunaráttina, þótt leyfi þessi eigi að vera bundin við framleiðslutæki og aðra nýsköpun. Það er t.d. þetta biðleyfi, sem veitt var til Norðfjarðar fyrir mánuði síðan eða svo, enginn heldur því fram, að það sé nýsköpun að veita kommúnista á Norðfirði leyfi til að setja upp bið.

Hæstv. fjmrh. talaði um það, að einhver mundi hafa sent mig til að halda mína gagnrýnisræðu hér, og átti þar við viðskiptaráð, og hann gaf í skyn, að mér væri nú vissara að fara varlega, því að það mundi nú ekki hafa svo hreint mél í pokahorninu. Hann fullyrti þetta, en vísaði í þetta skipti ekki til neins orðróms í þessu sambandi, og læt ég því að mestu ósvarað. En ég vil benda hæstv. fjmrh. á, að ef hann hefur eitthvað út á viðskiptaráð að setja, væri honum nær að snúa sér með umkvartanir sínar til flokksbróður síns, Péturs Magnússonar, hæstv. fyrrv. viðskmrh., því að allir vita, að ráðið hefur á undanförnum árum fylgt stefnu hans í öllum meginatriðum. Sé því starfsemi viðskiptaráðs að einhverju leyti vitaverð. er ekki síður við þennan hæstv. fyrrv. ráðh. að sakast, og átti hann því fremur hnúturnar, sem hæstv. fjmrh. ætlaði viðskiptaráði. En ætti að fara rækilega út í þessa sálma, mundi það lengja umræður um of, en þær eru þegar orðnar langar og hafa borizt vítt og breitt.

Varðandi jeppainnflutning nýbyggingarráðs er það misskilningur, að ég hafi gagnrýnt jeppainnflutninginn yfirleitt. Ég var aðeins að gagnrýna það, að sá innflutningur hefði ekki allur gengið til atvinnulífsins. Og auk þess eru yfirbyggðu jepparnir, sem fluttir hafa verið inn. allir vita, að þeir geta ekki stuðlað að nýbyggingu atvinnuveganna.

Það, sem í fyrsta lagi gaf mér tilefni til að taka hér til máls, voru þessi fúlsyrði formanns nýbyggingarráðs, núverandi hæstv. fjmrh., og mér fannst sannarlega, að hann hefði sízt ástæðu til að láta sér þau um munn fara. Og í öðru lagi var það vegna þeirrar gagnrýni, sem fram hefur komið á þessu frv., en hún hefur verið alveg sérstaklega máttlaus. Þessi gagnrýni hefur bæði komið frá vinstri og hægri, ýmist hefur það verið talið allt of róttækt eða ekki nærri nógu róttækt. Hv. þm. A-Húnv. hefur nú endurtekið þau rök, sem hann færði fyrir því, að frv. væri of róttækt, og hæstv. forsrh. svaraði þeirri gagnrýni svo rækilega, að ég ætla ekki að bæta neinu við það. En mig langar til að segja hér nokkur orð um gagnrýni sósíalista, þar sem ég varð að ljúka ræðu minni svo skjótlega s.l. föstudagskvöld, vegna þess að kvöldverðartími var kominn.

Gagnrýni sósíalista hefur einkum verið tvenns konar. Annars vegar hefur ekki verið talið vera um nógu mikinn áætlunarbúskap að ræða, þ.e.a.s. ekki samin áætlunargerð um nógu mörg mál, og hins vegar hefur verið talið að með þessu frv. fengi fjárhagsráð ekki vald yfir bönkunum, en að það vald væri nauðsynlegt, til þess að fullur árangur næðist. Það fer ekki hjá því, að mönnum þyki það hljóma undarlegar en við mætti búast, er hv. 2. þm. Reykv. þykir ekki nógu langt gengið í átt áætlunarbúskapar með þessu frv. Hann átti sinn þátt í setningu nýbyggingarráðslaganna, og þar var gert ráð fyrir að nýbyggingarráð sendi áætlun um nýsköpun íslenzks atvinnulífs. Hv. 2. þm. Reykv. hafði sérstaklega góða ástæðu til að framfylgja þessu ákvæði l. En eftir rúmlega tveggja ára starf hans í nýbyggingarráði er engin slík áætlun til um nýsköpun atvinnulífsins. En nú, þegar miklu víðtækara frv. kemur fram, frv., sem ekki miðast við nýsköpunina eingöngu, heldur skipulagningu alls atvinnulífsins og eftirlit með allri fjárfestingu í landinu, þegar slíkt frv. kemur fram, sem endurbætir mjög lögin um nýbyggingarráð og eykur mjög íhlutun ríkisins, þá verður hv. 2. þm. Reykv. skyndilega óánægður. En hann var ánægður með l. um nýbyggingarráð, líklega vegna þess, að þau voru sett að tilhlutan þeirrar ríkisstj., sem flokkur hans átti þátt í að mynda, og hann vissi. að mundi sjálfur hafa áhrif á þau l. í framkvæmdinni. En nú er hann óánægður með miklu víðtækari og róttækari löggjöf á sama sviði, af því að hann er í stjórnarandstöðu og getur ekki sjálfur hafi áhrif á framkvæmd l. Hér er mjög skýrt dæmi um afstöðu, sem ekki mótast af eðli málsins sjálfs, en mótast af því einu. hvort um stjórnaraðstöðu eða stjórnarandstöðu er að ræða.

Þá kem ég að hinu atriðinu í gagnrýni sósíalista, valdinu yfir bönkunum. Nýbyggingarráði var ekki heldur gefið slíkt vald, og ekki kom það fram, að sósíalistar teldu það neinn galla á þeim l. Og í öll þessi ár hefur tiltölulega lítið heyrzt frá þeim í þá átt, að brýna nauðsyn bæri til, að nýbyggingarráð fengi slíkt vald. Það, sem áður var gott, á meðan hv. 2. þm. Reykv. og flokkur hans var í stjórnaraðstöðu. er nú skyndilega orðið algerlega óhæft, óalandi og óferjandi í alla staði. þegar flokkurinn er ekki lengur í þeirri aðstöðu. Slík gagnrýni er meira en litið máttlaus. Og satt að segja kemur mér það nokkuð á óvart, hve veigalítil þessi gagnrýni er. Með því er ég ekki að segja, að ríkið eigi ekki að hafa full tök á útlánapólitík bankanna. Hitt er annað mál, hvort heppilegt sé, að fjárhagsráð og bankaráð sé beinlínis sameinað í eina stofnun, og um það skal ég ekki fjölyrða.

Hæstv. fjmrh. fór allmörgum orðum um „planökónómi“ í ræðu sinni, gagnrýndi hana mjög og vitnaði í erlendar bækur máli sínu til stuðnings. Hæstv. forsrh. hefur hins vegar lýst vel, hve þýðingarmikið spor þetta frv. er í áttina til fullkomins áætlunarbúskapar hér á landi. En nú vill hæstv. fjmrh. ekkert með áætlunarbúskap gera og ekkert við hann kannast. Ég hélt að vafalaust mætti skilja stefnuyfirlýsingu hæstv. forsrh. í þessu máli sem stefnu ríkisstj., og kom mér því nokkuð á óvart að heyra þessi ummæli hæstv. fjmrh. Hitt er minna tiltökumál, þó að hv. þm. A-Húnv. þrumi hér gegn áætlunarbúskap og kommúnisma.

Hæstv. fjmrh. talaði allmikið um það, að mig skorti talsvert skilning á lífskjörum og hagsmunum almennings, og bæru ýmis skrif mín vott um það. Öðru máli væri að gegna um hann sjálfan, skilning hans og ást á alþýðunni og umhyggju hans fyrir bættum kjörum hennar. Ef þetta væri nú allt þannig, held ég, að hann ætti sem fljótast að segja sig úr þeim flokki. sem hann er nú í. Hingað til hefur sá flokkur ekki verið sérlega giftudrjúgur alþýðunni, og gæti ég nefnt mörg dæmi um það. ef ég vildi þenja umræður svo vítt og breitt. En hér skýtur nokkuð skökku við, er einn af forvígismönnum Sjálfstfl. telur alþýðuflokksmanni það til sérstaks lasts. að hann sýni heldur lítinn skilning á lífskjörum og hagsmunum alþýðunnar. Ég veit hvaða hagsmunum hæstv. fjmrh. hefur sérstakan skilning og áhuga á, hann hefur ekki eingöngu sýnt það í ræðum sínum, heldur og í ýmsum verkum.

Hæstv. fjmrh. lýsti eftir því, að ég gerði grein fyrir, hvort ég hefði lagt fram nokkrar sérstakar skipulagningartillögur í viðskiptaráði, en í því ráði hef ég átt sæti, þegar það hefur fjallað um verðlagsmál. Var það á hæstv. ráðh. að heyra, að ekki sæti á mér að vita nýbyggingarráð fyrir framkvæmdaleysi. þar eð ekki mundu hafa legið miklar tillögur fyrir frá mér í viðskiptaráði. Ég furða mig mjög á þessum ummælum hæstv. ráðh. og sérstaklega á því, að hann skuli viðhafa þau einmitt nú, og skal ég síðar koma að því.

Annars ætti ekki að þurfa að skýra hæstv. ráðh. frá því, að hlutverk viðskiptaráðs, þegar það fjallar um verðlagsmál, er ekki að semja „skipulagstillögur“, heldur að setja reglur um verðlagningu þeirra vörutegunda, sem undir það heyra, og á því sviði hefur það vissulega verið allathafnasamt. Þegar það tók til starfa fyrst á árinu 1943, fór því víðsfjarri, að verðlagsákvæði væru til um allar vörur, sem fluttar eru til landsins. Á fyrsta starfsári sínu setti ráðið ákvæði um allar þær innflutningsvörur, sem ákvæði vantaði um, og auk þess mikinn fjölda innlendra iðnaðarvara og ýmiss konar innlendrar þjónustu. Skömmu eftir að ráðið tók til starfa, gerbreytti það og allri framkvæmd verðlagseftirlitsins með innfluttum vörum, og hirði ég ekki um að lýsa því fyrirkomulagi, sem upp var tekið og viðhaft er enn, en þess má þó geta, að verðlagseftirlitið fær nú afrit af verðreikningi yfir sérhverja vörusendingu, sem flutt er til landsins, og endurskoðar það. Jafnframt fær svo eftirlitið afrit af öllum sölureikningum innflytjenda, svo að hægt er að fylgjast með því, að söluverð sé í samræmi við verðreikninginn. Viðskiptaráðið hefur og nokkrum sinnum endurskoðað flest gildandi verðlagsákvæði, eftir því sem ástæða hefur þótt til.

Við setningu verðlagsákvæða hefur viðskiptaráð til skamms tíma — eins og raunar þeir, sem með verðlagseftirlit hafa farið á undan því, fyrst og fremst orðið að styðjast við rekstrarreikninga fyrirtækjanna, þá sömu, sem þau afhenda skattayfirvöldum, en á allra vitorði er, að þeir eru ekki mjög áreiðanleg heimildarskjöl. Þess vegna stofnaál verðlagseftirlit til rannsóknar á raunverulegum dreifingarkostnaði innfluttrar vöru á grundvelli verðreikninga þeirra, sem verðlagseftirlitið fær, samkv. því, sem ég gat um áðan, og var rannsókninni ætlað að ná til áranna 1944 og 1945. Átti niðurstaðan að liggja fyrir í ársbyrjun 1946, en skýrslan varð þó ekki fullbúin fyrr en í apríl í fyrra. Ég var þá farinn utan í þágu embættis míns og kom ekki til landsins aftur fyrr en um mánaðamótin sept.–okt. Meðan ég var erlendis, höfðu engar tillögur verið undirbúnar um breytingar á verðlagsákvæðum á grundvelli þessarar skýrslu. en eftir heimkomu mína var farið að vinna að því, og nú nokkru eftir áramótin lágu fyrir tillögur um ný verððlagsákvæði um nær allar innfluttar vörur, og miðuðu þær til verulegrar lækkunar á álagningu frá því, sem verið hefur, Jafnframt var svo gert ráð fyrir því, að í ýmsum vöruflokkum væri hætt við að miða álagninguna eingöngu við kostnaðarverð vörunnar, en hún miðuð sumpart við magn hennar og sumpart kostnaðarverð. Þessar tillögur voru ræddar við fulltrúa verzlunarstéttarinnar, og tóku þær viðræður alllangan tíma. En vitað var, að meiri hluti væri fyrir samþykkt þessara till. í viðskiptaráði. Engu að síður hefur ráðið ekki enn tekið þessar till. til endanlegrar afgreiðslu, og veit hæstv. fjmrh. vel, af hverju það hefur ekki verið gert. Hæstv. ríkisstj. hefur nefnilega óskað eftir því, að till. yrðu ekki endanlega afgreiddar, fyrr en ríkisstj. hefði rætt við viðskiptaráðið, og mun einmitt hæstv. fjmrh. hafa staðið að þessari ósk. Eftir þessum fundi hefur viðskiptaráðið beðið nú alllengi, og getur hæstv. fjmrh. vafalaust ráðið miklu um, hvenær hann verður haldinn.

Hér er m.ö.o. um það að ræða, að í viðskiptaráði liggja fyrir fullbúnar til afgreiðslu víðtækar tillögur um endurskoðun og lækkun gildandi verðlagsákvæða, en frá þeim er ekki gengið vegna þess, að hæstv. fjmrh. hefur óskað eftir því. Auðvitað veit hæstv. fjmrh. þetta allt, og þess vegna er mér öldungis óskiljanlegt, hvernig hann telur sig þess um kominn að sveigja að mér í þessu sambandi með því að spyrja, hvort fyrir lægju frá mér eða öðrum till. um aðgerðir á starfssviði viðskiptaráðs og láta það liggja í orðum sínum, að svo sé ekki. Hann veit, að þetta er ekki rétt. Hann veit, að fyrir liggja mjög þýðingarmiklar og víðtækar till. til endurskoðunar og lækkunar álagningarstigans, og hann veit, að þetta hefur enn ekki verið endanlega afgr., m. a. af því, að hann hefur sjálfur óskað eftir, að það væri ekki gert.

Enda þótt ástæða væri til að svara fleiri atriðum í ræðu hæstv. fjmrh., ætla ég nú að láta hér staðar numið. því að full ástæða er til, að umr. færu að styttast.