06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (764)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja skrifl. brtt. við 12. gr. frv., og fjallar hún að efni til um innflutning samvinnufélaganna. Fer hún í þá átt, að ákveðið sé í l., að hlutdeild þeirra í heildarinnflutningi vefnaðarvöru, búsáhalda, skófatnaðar og byggingarefnis sé a.m.k. hin sama og þau hafa í matvöruinnflutningi á hverjum tíma, enda séu engar hömlur lagðar á matvörukaup þeirra.

Ástæðan til þess, að ég flyt þessa brtt., er fyrst og fremst sú. að á síðasta aðalfundi Sambands ísl. samvinnufélaga, sem haldinn var s.l. sumar, var ýtarlega rætt um innflutningsmál kaupfélaganna. Að loknum þeim umr. var gerð samþykkt, sem gekk efnislega í þá átt, að aðalfundur Sambandsins lýsti því yfir, að hann teldi æskilegt, að innflutningur til landsins væri frjáls, svo að kaupfélögin gætu tekið þátt í frjálsri samkeppni um vörukaup við kaupmenn, og gerði það að kröfu sinni, sem brtt. mín fer fram á. Rökin fyrir þessari kröfu samvinnufélaganna eru augljós. Á undanförnum árum hefur innflutningur á matvöru verið ótakmarkaður, og þar hefur hver fengið það. sem hann hefur þurft og viljað. Sala kaupfélaganna á þessari vöru er því mælikvarðinn á það, hver vilji landsmanna er til þess að fylgja þessum samtökum, og eftir því sem upplýst hefur verið af Sambandinu. sýnir það sig, að þessi vilji landsmanna er mikill. Það hefur komið í ljós, að Sambandið hefur flutt inn rúm 50% af öllu haframjöli og rúgmjöli, sem flutt var til landsins, af mjölsykri 45%, af strásykri 33%, en eins og ég hef áður tekið fram, hefur svo mátt heita, að innflutningur á þessum vörum hafi verið frjáls, sérstaklega á kornvöru, og þar hafa kaupfélögin fengið það, sem þau hafa viljað og þurft. Þetta virðist benda til þess, að um það bil helmingur landsmanna óski eftir því að eiga viðskipti við þessi samtök. Hins vegar kemur það í ljós, að innflutningur Sambandsins á vefnaðarvöru. búsáhöldum og annarri notavöru almennings er ekki nema ca. 141/2%. Er því augljóst af þessum tölum, að mjög mikið vantar á það, að samvinnufélögin geti fullnægt eftirspurn meðlima sinna hvað þessar vörur snertir. enda er mér kunnugt um það, að hvar sem kaupfélög eru starfandi á landinu, eru sífelldar umkvartanir frá félagsmönnum um það, að þeir verði að leita til annarra verzlana til þess að kaupa búsáhöld, skófatnað og að nokkru leyti byggingarefni. Mér finnst ekki nema eðlilegt og réttmætt, að landsmenn ráði sjálfir, hverjum þeir vilja fela verzlun sína og við hverja þeir vilja verzla. Þeir, sem vilja verzla við samvinnufélögin, þeim á að vera það heimilt, hinir, sem vilja annan hátt um þetta hafa, þeir um það. — Ástandið í þessum málum þarf að breytast. Það má ekki hefta kaupfélögin í þessum efnum. það verður að gera þeim kleift að flytja inn vefnaðarvörur, búsáhöld og fleiri slíkar vörur engu síður en matvörur. Það eru og fleiri stoðir, sem undir þessa kröfu samvinnufélaganna renna, m.a. sú, að álagning á matvörur er svo lág, að það er rétt um það bil, að matvöruverzlun beri sig, en hins vegar er verulegur hagnaður að því að verzla með vefnaðarvörur, búsáhöld og skófatnað. Það er því ekkert réttlæti í því, ef innflutningsyfirvöldin haga sér áfram eins og hingað til, að láta kaupfélögin dreifa álagningarlægstu vörunni, þannig að þau fullnægi allt að helmingi landsmanna, en fái aðeins að fullnægja 7.–8. hluta af íbúatölu landsmanna hvað snertir álagningarhærri vörur. Vil ég leyfa mér að vænta þess, að hv. þd. líti með skilningi á þessa sanngjörnu kröfu kaupfélaganna og verði með þessari skrifl. brtt., sem ég flyt hér.