06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Út af orðum hv. frsm. meiri hl. fjhn. vildi ég gera nokkrar smáathugasemdir. Ég er hræddur um, að hv. þm. V-Ísf., sem mikið talaði um þróun, hafi ekki fylgzt vel með þróuninni upp á síðkastið og ekki gert sér ljóst. hvaða skipulag við erum að taka upp í atvinnulífinu. Hv. þm. gerði lítið úr þeim mun, sem er á því að leggja til af útflutningsverðmætunum 25% eða 15%. Þetta gæti þó riðið baggamuninn um ýmsar framkvæmdir okkar. Næstu 10 árin má gera ráð fyrir 400 millj. kr. meðalútflutningi á ári, og ef 25% væru lögð til hliðar. fengist þar á 10 árum 400 millj. kr. meira en ef aðeins 15% væru lögð til hliðar, og fyrir þær 400 milljónir mætti reisa Urriðafossstöðina og áburðarverksmiðju og auk þess koma upp orkuverum. Þess vegna held ég, að menn verði að gera sér ljóst, einkum þeir, sem mest tala um þróun, að það er aðalatriðið að halda stöðugt áfram að leggja til hliðar og reyna að spara fé til stórfelldra framkvæmda. Hv. frsm. minntist á. að hægara væri að framleiða, ef nægir markaðir væru. Ef við ætlum að byggja framleiðslu okkar á öruggum grundvelli, þá verðum við að gera okkar áætlanir í sambandi við trygga markaði. Öll Evrópa er nú að fara inn á áætlunarbúskap, og ættum við því að geta tryggt okkur örugga markaði víða. Við gætum samið um vöruverð til langs tíma, þar sem stöðugt fleiri þjóðir taka nú að framleiða eftir áætlun. Heimsmarkaðurinn er ekki lengur planlaus. Ástandið er að færast í það horf, að hin einstöku lönd semji um afurðasölu sina um heil árabil. Við þurfum, sbr. 3. brtt. mína, að „innstilla“ okkur á að fá markaði í löndum, þar sem áætlunarbúskapur er upp tekinn, svo að innflutningur okkar geti orðið óháður kreppum auðvaldsríkjanna. Við getum losnað við öryggisleysið með því að verzla við þau lönd, sem útrýmt hafa kreppum með áætlunarbúskap. Ég skal viðurkenna, að markaðurinn verður aldrei alveg fullkomlega tryggur, enda ekkert á móti því að taka „rísikó“ á sumum sviðum og því rétt að fórna ekki alveg markaði auðvaldsríkjanna. Hv. frsm. minntist á, að það væri munur að planleggja, þar sem hægt væri að skipa mönnum að vera hér eða þar. En það er raunverulega gert í þessu frv. Þetta frv. felur ekki í sér frelsi, það felur í sér takmarkanir á öllum sviðum og það, sem verst er, að um leið og fjárhagsráði er gefið svo mikið vald, þá veit maður ekki, hvert ráðið ætlar að stefna, og hef ég því í mínum brtt. lagt til, að því yrði markaður nokkur bás og gengið út frá, að fyrir liggi ákveðin heildarstefna. Hv. frsm. þótti ljótt, að þróun sjávarútvegsins ætti að vera lokið 1950. Hvað það snertir, þá er átt við, að þróun sjávarútvegsins verði þá lokið í bráð, þ.e.a.s. að til ársins 1950 leggi þjóðin meginkraft sinn í að auka flotann, þangað til hann hefur náð réttri aukningu með tilliti til fólksfjölda. Það er röng viðbára, að á nýja báta komi tómir nýir menn, sem ekkert kunni til starfa. Slíkt er hrein undantekning. Venjan er sú. að á sama skipi eru bæði vanir menn, sem kunna sín verk, og svo nýir menn. sem nema af hinum. Og það verður erfitt að fá nægilegt aðstreymi í sjávarútveginn, ef ekki er gert svo mikið fyrir hann, að það verði heppni að komast á togara. Því álít ég rétt að auka flotann til ársins 1950 og líka rétt að takmarka aukninguna þá.

Hv. frsm. vildi láta líta svo út, að allt ætti að fara í sjávarútveginn, en annað látið sitja á hakanum. Árið 1944 var ákveðið í höfuðdráttum, hvernig 300 milljónunum skyldi skipt. 200 milljónir áttu að fara í sjávarútveginn og afgangurinn í raforku-. iðnaðar- og landbúnaðarmál. Og þessari skiptingu álít ég, að halda beri til ársins 1950, að láta 2/3 fjármagnsins renna til sjávarútvegsins. Þessum 300 milljónum, sem ráðstafað var 1944, var varið til að festa kaup á nýjum framleiðslutækjum, sem koma til landsins á árunum 1945–1949, t.d. verður ullarverksmiðjan varla tilbúin fyrr en eftir 3 ár, og sýnir það, að ýmsar verksmiðjur, sem þarf að reisa, verður að undirbúa löngu fyrir fram. Það er því langt frá því, að það sé ónauðsynlegt að lögfesta það, sem kallað hefur verið hugleiðingar. Það var vissulega heppilegt, að ýmsar hugleiðingar voru lögfestar árið 1944, og býst ég við, að eins sé nú. Verði þessar hugleiðingar ekki lögfestar nú, þá verða ekki teknar neinar afgerandi ákvarðanir á neinu sviði, og þá getur slembilukka ein bjargað, ef alveg sérstakir menn veljast í fjárhagsráð. (Forseti (GÞ): Nú hefur hv. þm. talað í 20 mínútur.) Þar sem nú er verið að afgreiða þýðingarmikla lagasetningu, og þar sem frv. var illa undirbúið af stjórninni og lítið rætt í n. og hv. þm. hafa lítið verið við umr., þá tel ég óforsvaranlegt að afgreiða málið með svona hroðvirkni. (Forseti (GÞ): Hv. þm. er í sínum lagarétti, en að tala lengur en 20 mínútur gefur fordæmi, sem er brot á tilmælum hæstv. 1. forseta. enda hefur nú hv. þm. talað við þessar umr. á 5. klukkustund). Ég þykist hafa dálítið meiri rétt en almennt til að tala í þessu máli, þar sem ég er frsm. nefndarhluta, en ég er fús til að fresta ræðu minni, ef hæstv. forseti óskar að fresta umr. (Forseti (GÞ): Þessum umr. verður ekki frestað, og hv. þm. heldur ræðu sinni áfram.) Hv. þm. V-Ísf. talaði um, að hér ætti að vera þróun, en ekki bylting. Við höfum nú talað um, að þróunin hafi verið svo hröð, að margir hafa notað orðið atvinnubylting. og er það rétt notkun á hugtakinu. Hv. þm. V-Ísf. minntist á. að nánar þyrfti að ákveða um 15% með reglugerð. En því ekki að setja ákvæði um það í lögin? Ég veit alveg, hvernig fer, þegar reglugerðina á að semja og hagsmunatogstreitan byrjar.

Það hefur gengið þannig, að viðskiptaráð hefur reynt að setja á nýbyggingarreikning sem allra mest. t.d. alla varahluti í tæki, sem flutt hafa verið inn á nýbyggingarreikningi, en raunar ættu engir varahlutir að koma þar undir. En þetta verður að ákveðast af Alþ., en ég held. að ekkert eigi að koma á nýbyggingarreikning, sem er endurnýjun. En þegar togstreitan er eins og verið hefur, er reynt að skella öllu á nýbyggingarráð. Þess vegna duga 15% lítið, 25% er það minnsta. sem komizt verður af með, ef ekki á að stöðva alla nýsköpun.

Ég held ég hafi heyrt skakkt hjá hv. frsm., að þetta skuli ekki vera lagt fyrir Alþ. í frv.-formi, það stendur einmitt þar, en það er rétt hjá honum, að þeir fjárhagsráðsmenn, sem ekki eru alþm., geta vitaskuld ekki lagt till. sínar fyrir Alþ.

Þá er spurningin um. hversu marga togara við getum mannað upp. Þetta var falið nýbyggingarráði 1944 til rannsóknar, til þess svo að geta lagt fram áætlun, og hún liggur nú fyrir. Sama er að segja um farskipaflotann. Áætlun um hann hefur líka verið lögð fyrir og framkvæmd. Þess vegna er rétt að taka till. ráðsins upp í l., eins og ég hef lagt til, því að það þýðir ekkert að fela neinni stofnun neina framkvæmd, þegar farið er með hana eins og pappírsgagn. Svoleiðis stofnun þýðir ekki að láta gera áætlanir.

Það má vitanlega deila um það, á hvaða stöðum eigi að reisa fiskiðjuver. Hv. þm. V-Ísf. kemur með till., sem ég minntist á. Hann sagði, að það sama gilti um marga aðra staði og þeir ættu eins mikinn rétt til iðjuvers eins og þeir, sem ég tók upp. En það er óframkvæmanlegt að reisa iðjuver á þeim öllum, þess vegna verðum við, ef við ætlum að koma upp nægilega stórum iðjuverum, að hafa þau á fáum stöðum og færa byggðina við sjóinn saman. Þegar verið er að koma upp verstöðvum, þá rekast á hagsmunir ýmissa staða, og þegar um stór iðjuver er að ræða, er ekki hægt að jafna þetta út vegna þess, hve land okkar er stórt. Það verður því að velja á milli, en láta sérhagsmuni ekki verða til þess að sundra og tefja framkvæmdir. En þessi mál þurfa að ræðast meir en milli okkar tveggja, en ekki virðist vera mikill áhugi fyrir þessu mikla nauðsynjamáli, þar sem þm. fást ekki til að taka þátt í umr. Það er ekkert ákveðið um það, hvenær þessi iðjuver skuli komast upp, aðeins að þau skuli reist.

Um viðskiptaráð er það að segja, að ég man ekki eftir neinum l., þar sem viðskiptaráði er falið sérstakt verkefni nema þau, sem falla úr gildi með þessum lögum.

Þá minntist hv. frsm. á, að vandi væri að fá aflinu verkefni. Ég fæ nú ekki séð, að það sé svo ýkja mikið vandaverk. Hingað til höfum við verið of seinir með öll okkar raforkuver og svo komizt í þrot og orðið að grípa til óyndisúrræða, eins og olíustöðvarinnar hér í Reykjavík. Við erum í vandræðum með að koma upp áburðarverksmiðju, af því að það vantar afl. Búnaðarráð samþ., að ákvæði um hana skyldu tekin upp í ræktunarsjóðslögin, en það er aðeins almennt orðalag, sem ekkert segir, en þetta er till. hv. landbn. þessarar hv. d., og var svo til ætlazt, að hún yrði tekin upp í þessi l., þegar til kæmi.

Hv. frsm. sagði, að ég vildi skylda bankana til að hafa nóga peninga. Það er hinn mesti misskilningur. Ef hv. þm. læsi það, sem ég legg til, að bætt verði við 4. gr., og fleiri till. mínar, gæti hann séð, að þetta er alveg út í loftið, en þeir eiga að framfylgja þeim áætlunum, sem eru samdar af ráðinu. Þá vildi hv. þm. líta svo á, að framleiðslunefndir væru óhæfar nema í einhverjum ægilegum þjóðfélögum. En það er nú svo, að þær eru einmitt þar, sem sósíaldemókratar ráða, t.d. Englandi, og vissulega binda þær þegnana nokkuð. en af þeim eiga ekki að stafa óþægindi fyrir þjóðarheildina.

Hv. frsm. sagði, að við ættum að fikra okkur áfram með þróuninni. Ég er honum sammála um það, að ör þróun hefur átt sér stað, en ég held, að hv. þm. hafi ekki fylgzt nægilega vel með þessari þróun og því sleppi þeir tækifærinu, sem nú gefst. út úr höndum þjóðarinnar, tækifæri til að stýra þessari þróun. Ég vildi hjálpa þeim til þessa, og mér þykir leitt, þegar menn eins og hv. þm. V-Ísf., sem hefur gott vit á þessum málum, ef hann kærir sig um, látast ekkert skilja.

Þetta frv., eins og það er nú, er spor aftur á bak, en við eigum að halda áfram, og í því trausti eru brtt. mínar fram bornar. Hv. þm. ráða svo, hvað þeir gera við þær.