09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

45. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég ætla fyrst að leiðrétta nokkurn misskilning. sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Í fyrsta lagi fullyrti hann, að hámark vinnutíma kennara. samkv. þeirri reglugerð, sem gilt hefur, þar til l. um menntaskóla voru sett á síðasta Alþ., hafi verið 22 stunda á viku. Þetta er ekki rétt, heldur 24 stundir.

Þá vil ég einnig leiðrétta það, að hv. þm. Barð. sagði, að hámark vinnutíma þessara kennara á viku væri samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, 24 stundir. Það er ekki 24 stundir. heldur 27 stundir. Þetta er hugsað þannig í framkvæmdinni. að kennslustundafjöldinn smáminnki. þannig að kennarar kenni fyrst 27 stundir á viku, t.d. í 5 ár, en kennslustundafjöldi þeirra á viku lækki þá um eina stund á 5 ára fresti. þangað til komið er niður í 24 stundir á viku eftir 15 ára kennslustarfsemi. En nú er það svo, að eftir 15 ára starfstíma við slíka skóla sem menntaskóla er kennari orðinn yfirkennari og kennir 24 stundir eftir núgildandi reglugerð.

Þá er enn missögn, sem kom fram í ræðu hv. þm. Barð., að hver kennslustund hafi á síðasta ári við þessa skóla með l. verið stytt úr 50 mínútum niður í 45 mínútur. Þetta er ekki rétt. Kennslustundin hefur undanfarin ár verið 45 mínútur. eins og hún er nú.

Þegar koma fram hjá hv. þm. Barð. svona missagnir, þá verða hv. þm. að virða mér það til vorkunnar, þótt ég gleypi það ekki alveg hrátt, að kennari við menntaskólann hafi haft 60 þús. krónur í árslaun, meðan ekki hafa verið lögð fram gögn, sem sanna að svo sé. En sé svo, að einhver kennari við menntaskólann hafi haft þessi árslaun, þá verður að líta svo á, að hann hafi haft óforsvaranlegan vinnutíma, og er óhugsandi, að sá kennari hafi getað innt starf sitt af hendi eins og vera ber.

Þetta frv. er flutt af ríkisstj. samkvæmt samkomulagi, sem náðist við kennara menntaskólanna, vegna þess að til vandræða horfði um kennslu í þeim skólum í vetur, þar sem kennslustundafjöldinn hefur verið aukinn um 3 stundir á viku með hinum nýju l. um menntaskóla, miðað við það, sem áður var. Álitu kennararnir, að með þeirri nýju löggjöf hefði verið komið aftan að þeim og kaup þeirra lækkað um 12%. Þeir höfðu reiknað með að fá bætt launakjör til frambúðar með þessari löggjöf, en svo þegar l. voru samþ., var sett inn í þau ákvæði, sem jafngilti 12% launalækkun fyrir þá. Kennarar vildu ekki una þessu og tilkynntu ríkisstj., að þeir sæju sér ekki fært að taka að sér aukakennslu fram yfir lögboðinn kennslustundafjölda, nema þessu yrði breytt. Taldi ég ekki neinn möguleika á því að stytta kennslustundafjöldann á viku með reglugerð eða fyrirmælum frá ráðuneytinu, þótt lagaákvæðin um þetta atriði séu að vísu ekki svo skýr, að ekki megi skilja þau nema á einn veg, því að þar stendur, að skyldustundir skólakennaranna skuli vera allt að 27 á viku hverri, en ég held, að meiningin með reglugerð hv. Alþ. á síðasta þ. hafi verið sú, að kennarar skuli kenna 27 stundir á viku hverri nema með sérstökum undantekningum, sem nánar er tekið fram um í l. Taldi ég því ekki fært að gera þarna á neina breyt., nema málið væri lagt fyrir hv. Alþ. og samþykkt þess kæmi til. Varð samkomulag um það, að kennarar tækju að sér aukastundakennslu, eins og þeir hafa áður gert, með því skilyrði, að ríkisstj. legði þetta mál fyrir hv. Alþ., eins og hér er gert, og að þetta skyldi verka aftur fyrir sig, þannig að kennarar fái þessi kjör í vetur. Ef ekki hefði náðst samkomulag við kennarana, hefði ekki verið hægt að halda uppi kennslu við menntaskólana með þeim nemendafjölda, sem þar er, þannig að þurft hefði að draga kennslu mjög saman við þessa skóla. Þetta tel ég alveg óviðunandi, en ef nú á að fara inn á þá braut, að hér verði stigið fyrsta skrefið til almennrar launalækkunar í landinu, eins og kom hér fram hjá síðasta ræðumanni. þá verður að fá annan embættismann í mitt starf.

Þetta mál hefur gengið gegnum hv. Nd. og var mjög rætt í hv. menntmn., þar sem menntaskólakennarar voru viðstaddir og við þá rætt um málið. Komu þá fram ýmsar till. um annað fyrirkomulag, en við nánari athugun kom í ljós, að ekki gat orðið samkomulag um neitt annað fyrirkomulag, sem heppilegra þótti heldur en það, sem hér er lagt til, þannig að hv. menntmn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.

Ég vil þess vegna eindregið mælast til þess, að þetta frv. ríkisstj. nái fram að ganga sem allra fyrst.

Mun ég ekki deila við hv. þm. Barð. um það, hvort þetta ákvæði um kennsluskyldu kennara eigi heima í þessum l. eða í annarri löggjöf um skyldur embættismanna. Það kann að vera, að þegar sú löggjöf kemur, verði þessu ákvæði kippt út úr fræðslulöggjöfinni og flutt þangað, en meðan sú löggjöf er ekki komin, þá er eitt af tvennu nauðsynlegt: annaðhvort að hafa þessi ákvæði eins og nú er í fræðslulöggjöfinni eða að viðkomandi ráðh. séu gefnar frjálsar hendur um að ákveða kennslustundafjöldann í skólunum.