12.05.1947
Neðri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að mörgum hafi þótt harla einkennilegt að heyra málflutning hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, hér áðan. Hann leyfði sér að halda því fram, að þeir sósíalistar hefðu lagt alla áherzlu á það á sínum tíma, að allur gjaldeyrisforði landsins, yfir 500 millj. kr., yrði lagður á nýbyggingarreikning. Þetta er alls ekki í samræmi við veruleikann. Það má geta þess, að þegar l. um nýbyggingarráð voru til meðferðar hér á þingi seint á árinu 1944. þar sem ákveðið var að leggja 300 millj. af gjaldeyriseigninni á nýbyggingarreikning, bárum við framsóknarmenn fram till. um að hækka þá upphæð upp í 450 millj., en þá mun gjaldeyriseignin alls hafa verið nálægt 550 millj. kr. Þessi till. okkar var felld m.a. af þm. Sósfl., og engin till. kom fram frá þeim á þingi um að leggja til hliðar meira en þær 300 millj. kr., sem l. kveða á um. Samkv. l. um nýbyggingarráð átti að leggja 15% af gjaldeyri hvers árs á nýbyggingarreikning. Einar Olgeirsson viðurkenndi í ræðu sinni, að þessi l. hefðu verið brotin af þeirri stjórn, sem hans flokkur var þátttakandi í, enda var það svo.

Í 1. gr. þessa frv. er ákvæði um það, að af andvirði útflutningsins hvert ár skuli jafnan leggja 15% á sérstakan reikning erlendis, og sé því fé eingöngu varið til kaupa á framleiðslutækjum. Þetta er samhljóða fyrirmælum, sem nú eru í l. um nýbyggingarráð. Við 2. umr. um þetta mál bar hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, fram brtt. um þetta atriði. Samkv. henni vildi hann láta ákveða að leggja 25% af útflutningsverðmætum ár hvert á þennan reikning. Þessi brtt. hans var felld, þar sem meiri hl. þm. taldi óvarlegt að slá því föstu, að 1/4 hluti af gjaldeyristekjunum skyldi lagður til hliðar á þennan hátt, ekki sízt þar sem allt er í óvissu um afurðasöluna framvegis, því að vitanlega er það meiningin, að þetta ákvæði verði ekki aðeins dauður bókstafur eins og það var s.l. ár. Útflutningsverðmætið nam 291 millj. kr. árið 1946, og samkv. l. átti að leggja 15% af því, eða tæpar 44 millj. kr., á nýbyggingarreikning. Nú er það viðurkennt af hv. 2. þm. Reykv., Einari Olgeirssyni, að þetta hafi ekki verið framkvæmt af fyrrv. stjórn á árinu 1946. Hún hafði þó til ráðstöfunar, ekki aðeins útflutningsverðmæti ársins, 291 millj. kr., heldur að auki um 177 millj. kr., sem voru til í ársbyrjun 1946 fyrir utan nýbyggingarreikning. Það lítur út fyrir, að hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, beri mikið traust til þeirrar stjórnar, sem nú hefur tekið við, þar sem hann gerir ráð fyrir, að hún geti lagt til hliðar á nýbyggingarreikning 1/4 af væntanlegu útflutningsverðmæti, þó að sú stjórn, sem hans flokkur var þátttakandi í og studdi, legði ekki einn eyri til hliðar til kaupa á framleiðslutækjum, enda þótt hún hefði hátt á annað hundrað millj. til ráðstöfunar auk útflutningsins á árinu. Þessar gömlu eignir eru nú allar til þurrðar gengnar og því útflutningsverðmætið eitt, sem á er að byggja.

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson. talaði um það við 1. umr. þessa frv. hér í d., að nú þyrfti þjóðin að spara, til þess að hægt væri að verja meira en 15% af gjaldeyristekjum hvers árs til kaupa á nýjum tækjum. Hann sagði enn fremur, að það væri hættulegt að stofna til skulda í útlöndum. Þetta er rétt, en þetta hefði hann átt að athuga fyrr, um það leyti sem hans flokkur fór í ríkisstj. og meðan hann var í ríkisstj. Það var ekkert smáræði, sá gjaldeyrir, sem þeir höfðu til umráða. Gjaldeyrisinneignin var, þegar þeir settust í stjórn. um 550 millj. kr. Útflutningsverðmæti beggja áranna 1945 og 1946 nam rúmlega öðru eins. svo að samtals hefur það verið yfir einn milljarður króna, sem þeir hafa haft til ráðstöfunar. Aðeins lítill hluti af þessu hefur farið til svo kallaðrar nýsköpunar, en mikill meiri hluti til venjulegrar eyðslu. Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skipti, sem ráðlitlir menn fara þá fyrst að tala um að spara, þegar þeir eru búnir að eyða þeim arfi, sem þeir hafa fengið í hendur. Það er gömul og ný saga.

En svo segjast þessir menn hafa farið inn í stjórn til þess að tryggja nýsköpunina. Hafa menn heyrt annað eins? Saga liðinna ára sýnir, að þeir hafa fyrst og fremst farið í stjórn til þess að eyða fé í annað, og ekki sögðu ráðh. þeirra af sér vegna ágreinings við aðra ráðh. um þessi mál, eyðsluna. Nei, ónei. Þar var allt annað gefið upp.

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, talar um, að óhamingju Íslands verði allt að vopni, því að nú verði ekki áframhald á stefnu fyrrv. stjórnar, að því er manni skilst.

En ég er nú bara hræddur um, að það verði lítið úr áframhaldi nýsköpunarinnar, ef fylgt verður eyðslustefnu þeirrar ríkisstj., sem Sósfl. var þátttakandi í. Hv. þm. talar um, að menn verði kallaðir til reikningsskila. Víst væri þörf á því að kalla þá menn til reikningsskila — þar á meðal þm. Sósfl., sem með óhófseyðslu erlends gjaldeyris á síðustu árum glötuðu að verulegu leyti möguleikum þjóðarinnar til nauðsynlegra framkvæmda og framfara. Þessa menn á að kalla til reikningsskila. Hv. þm. talar um till. sínar nú sem einhverja úrbót. Hvaða töfralyf er hann þar með? Hvort mundi sá gjaldeyrir, sem flokkur hans sóaði, koma aftur, ef till. hv. þm. væru samþykktar? Ég hef ekki séð þess getið í till. hv. þm. Hann flytur m.a. till. um, að gerðar verði áætlanir um þjóðarbúskapinn. Þessi hv. þm. var í nýbyggingarráði og átti að gera slíka áætlun, en gerði það ekki.

Eins og þegar hefur verið tekið fram í þessum umr., er það eitt af aðalverkefnum hins væntanlega fjárhagsráðs að samræma framkvæmdir einstaklinga og hins opinbera. Vissulega er þess þörf, að betur sé vandað til undirbúnings opinberra framkvæmda og áætlana um þær en gert hefur verið nú um skeið, því að mjög hefur skort á sæmilegan undirbúning og fyrirhyggju við ýmsar stórar ríkisframkvæmdir. Sem dæmi um það má nefna byggingu síldarverksmiðjanna á Skagaströnd og Siglufirði, sem sagt var fyrir síðustu kosningar, að mundu verða tilbúnar í byrjun síldarvertíðar 1946, en eru langt frá því að vera fullgerðar enn. Fyrst var lántökuheimildin vegna þeirra hækkuð úr 10 millj. í 20 millj. króna. Næst sagði fyrrv. atvmrh., að lánið þyrfti að hækka upp í 27 millj. og að framkvæmdir væru það vel á veg komnar, að fyrirsjáanlegt væri, að verksmiðjurnar mundu kosta um það bil þessa upphæð. Þetta var í apríl í fyrra, tveim mánuðum fyrir alþingiskosningarnar. En í nóvember í haust biður hann þingið um að hækka lánsheimildina upp í 38 millj. vegna verksmiðjanna, og nú í vikunni sem leið var áætlaður kostnaður við þessar verksmiðjubyggingar kominn upp í 43 millj. kr. Ekki skakkaði nú meira en 16 millj. hjá karli frá því, sem hann sagði fyrir einu ári! Á þessu sviði þarf vissulega að taka upp önnur og betri vinnubrögð. Slík hroðvirkni og flaustur við undirbúning þýðingarmikilla stórframkvæmda er vissasta leiðin til þess að sigla þeim í strand á miðri leið. — Og vonir okkar um framfarir eru fyrst og fremst byggðar á því, að nú eru þeir menn farnir úr ríkisstjórn, sem fyrirhyggjuminnstir og eyðslusamastir hafa verið allra þeirra, sem þar hafa setið.