09.12.1946
Efri deild: 30. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

45. mál, menntaskólar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki deila hér mikið frekar, en vil aðeins benda hæstv. menntmrh. á það, að það er ekki rétt, að ég hafi farið rangt með þau fyrirmæli 63. gr. reglugerðar um menntaskóla, því að þar stendur, að yfirkennari, sem kominn er yfir sextugt, skuli kenna 20 stundir á viku, og þótt kennari byrji með því að kenna 24 stundir á viku, þá kemst hann niður í 22 stundir, svo að það er alls ekki lengur hægt að deila um þetta, og er því engin ástæða fyrir hæstv. ráðh. að ásaka mig um missagnir í þessu atriði.

Það er einnig kunnugt, að þetta ákvæði var byggt á 50 mínútna kennslustund, en ekki 45 mínútna, og var það fyrst tekið upp í tíð þessa hæstv. ráðh. að breyta því niður í 45 mín. kennslustund. Var þetta sett inn í l. í fyrra, af því að hann fullyrti þá, að þannig hefði þetta verið um nokkurra ára skeið. Honum hlýtur líka að vera kunnugt um það, að í mörgum skólum er kennslustund miðuð við 50 mínútur, en eftir að búið er að setja í l. um menntaskóla ákvæði um 45 mín. kennslustund, eru miklar líkur til, að allir aðrir skólar landsins heimti það líka.

Um það atriði, að hæstv. ráðh. vilji ekki gleypa hráar aðrar upplýsingar frá mér, þá vil ég benda honum á, að ég benti n. á að biða með afgreiðslu málsins, þar til gögn lægju fyrir um þau atriði, er ég hef minnzt á, til þess að menn gætu sannfærzt um þetta, og þessi gögn munu koma. Ég get sagt hæstv. ráðh. frá því, að frá ýmsum skólum hafa komið fram gögn, sem sýna, að kennarar hafa fengið töluverða launauppbót með því að kenna svo og svo margar kennslustundir aukreitis, af því reglugerðin kveður á um svo fáar lögboðnar kennslustundir. Og ef hæstv. ráðh. vildi athuga, að þessi yfirkennari, sem ég hef á minnzt, hefur m.a. kennt 38 stundir á viku hverri allt skólaárið, auk þess sem hann hefur haft stórar fúlgur fyrir að yfirfara stíla heima hjá sér, þá getur hæstv. ráðh. séð, að með þeim launum, sem nú eru greidd fyrir kennslu, er ekkert óeðlilegt, þótt þessi yfirkennari hafi haft nálægt 60 þúsund krónum í árslaun. Gögn varðandi þetta liggja hér í þ., og ætti hæstv. ráðh. því ekki að vera að væna mig um falskar upplýsingar.

Ég vil svo að síðustu aðeins víkja að því, er hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að ef þessi ákvæði menntaskólal. um kennslustundafjöldann ættu að vera öðruvísi, en lagt er til í frv. því, sem hér er til umr., þá yrði annar embættismaður að taka við starfi hans. Skil ég ekki í því, að neinn yrði hissa á því, þótt annar maður tæki við starfi hæstv. ráðh. hér, en ég verð hins vegar að láta það álit í ljós, að ég er meira undrandi yfir því, að hæstv. menntmrh. skuli ekki enn vera farinn úr ráðherrastóli eftir öll þau stóru orð, er hann lét falla í sambandi viðafsögn sína, og hefði hann sýnt meiri manndóm með því heldur en með því að sitja enn sem fastast og éta þannig ofan í sig öll stóryrði sín. Ætti hann því ekki að hafa í hótunum um, að hann muni fara úr ráðherrastóli, ef hann fái ekki málið afgr. á þann hátt, er hann leggur til. Ætti heldur að athuga það, hvílíkt böl það er fyrir þjóófélagið, ef hæstv. ráðh. situr áfram og skiptir ekki um skoðun í þessum málum. Mundi ég ekki harma það, þótt annar maður kæmi í hans stað, sem meiri skynsemi og réttlætiskennd hefði varðandi ýmis mál. sem deilt er um hér. Mun það því ekki breyta afstöðu minni um þetta mál, þótt hann hóti að fara úr starfi sínu, ef frv. nái ekki fram að ganga óbreytt. Síður en svo.

Sé ég svo ekki ástæðu til að halda uppi frekari deilum um mál þetta, en vil vænta þess, að hv. n. afgreiði það ekki, fyrr en þau gögn liggja fyrir hjá henni, sem ég hef áður á minnzt.