21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (813)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þessar breyt., sem hér liggja fyrir á þessu frv. frá minni hl. fjhn., þær eru þannig, að mér skilst að minni hl. vilji, að það verði ákveðið nánar í frv., að störf fjárhagsráðs skuli vera ákveðin á þann hátt að skapa hér fullkominn áætlunarbúskap. Ég vil um þessa brtt. segja það með tilliti til atkvgr., að það er vitanlega samið um þetta mál milli stjórnarflokkanna í aðalatriðum, og þess vegna er ekki eðlilegt, að á málinu séu gerðar breyt. frá því, sem um er samið. — Það leynir sér ekki, að hér kemur fram nokkur tvískinnungur, þar sem sagt er, að fyrst og fremst eigi að starfa að áætlunarbúskap samkvæmt 2. gr. frv., meðan hinar miklu framkvæmdir standa yfir. En með því telja sjálfsagt sumir þeir flokkar, sem standa að ríkisstj., að sé sagt að ekki sé verið að samþykkja áætlunarbúskap til frambúðar, heldur sé það tímabundið, þó að það hafi heyrzt í málefnaflutningi. að aðrir flokkar, sem standa að ríkisstj., leggi aðra meiningu í þetta orðalag.

Aðrar brtt. minni hl. fara í rauninni allar í sömu átt, því að það er gert ráð fyrir, að áætlunin nái yfir lengri tíma en frv. segir, og sömuleiðis, að leitað verði til stærri hringa til samráða en gert er ráð fyrir í frv. Að sjálfsögðu, eins og ég sagði áðan, er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að á þessu verði gerðar breyt. Frv. hlýtur, eins og það ber með sér, að sýna, að það er samið af flokkum, sem hafa nokkuð mismunandi sjónarmið, og við það verða stjórnarflokkarnir að sjálfsögðu að sætta sig. Ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, eins og líka kom fram hjá hæstv. forsrh., að það sé ekkert til fyrirstöðu, að áætlun sé gerð lengra en eitt ár, samkvæmt ákvæðum frv. Það er ekkert, sem bannar fjárhagsráði að gera það. Það er alveg auðsætt, að það er ákaflega erfitt að koma við áætlun fyrir eitt ár, og þótt það sé gert ráð fyrir því í frv., að áætlunin sé gerð fyrir eitt ár. þá er líka auðsætt, að það verður næstum ókleift verk fyrir fjárhagsráð að koma því í verk, af því að svo mörg atriði þarf að rannsaka, áður en niðurstaða er fengin, vegna þess að vinnubrögð hagstofunnar eru með allt öðrum hætti en þyrfti að vera, til þess að hér væri hægt að reka áætlunarbúskap, eins og gert er ráð fyrir í frv. Í rauninni álít ég, að það hefði verið eitt af því, sem ríkisstj. hefði þurft að gera samhliða því að bera fram þetta frv., að gera gerbreytingu á Hagstofu Íslands. Það er enginn efi á því, að allt, sem snertir hagskýrslur, um atvinnuvegi okkar og fjármál, er vegna fyrirkomulagsins á hagstofunni svo langt á eftir tímanum, að við stöndum þar verr núna en við stóðum jafnvel á öldinni, sem leið, þegar tveir merkir menn unnu mjög merkilegt starf, einmitt að því er þessi atriði snertir. Þess vegna er það, að fjárhagsráð mun komast fljótt að þeirri niðurstöðu, að það þarf að vinna þau verk, sem hagstofa í hverju landi þarf að vinna, áður en það getur gert áætlun um það, hvernig framkvæmdum skuli háttað, og er það mjög illa farið. Ég geri ráð fyrir því, að vinnubrögðin í fjárhagsráði muni brátt leiða til þess, að lagabreyt. í þessa átt, um hagstofuna. muni verða gerð, enda er það óumflýjanleg nauðsyn. Ég ætla svo ekki að segja fleira um þessi atriði.

En viðkomandi verkefnum fjárhagsráðs vil ég segja það, að ég er sammála þeim, sem um þetta mál hafa rætt — sammála ríkisstj. um það, að verkefni fjárhagsráðs eru áreiðanlega mörg. Ég er sömu skoðunar um það, að þau verk, sem nú hefur verið byrjað á, þurfa skipulegri vinnubragða við en ríkt hefur þar til þessa. En ég álít, að það muni fara svo, að jafnhliða því, sem það verður verkefni fjárhagsráðs að koma í veg fyrir ofþenslu, eins og hefur verið talað um eingöngu, þá verði það ekki síður verkefni fjárhagsráðs að koma í veg fyrir það, að framleiðslan gangi saman. Ég hugsa, að fjárhagsráð starfi ekki lengi, ef það þarf ekki að sinna því verkefni.

Það getur ekki verið dulið fyrir þessari hv. þd., að það er orðið mikið atvinnuleysi, t.d. hjá vörubílstjórum, og tilfinnanlegt, og það er vegna þess, að það skortir efni til þess að halda áfram byggingum, en við það hafa vörubílstjórar mikla atvinnu. Þetta er orðið áberandi nú síðustu vikurnar, og það getur ekki farið fram hjá mönnum, sem um það mál hugsa, að það er svo komið, að bankarnir hafa ekki lengur fé til að lána.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Barð. tók fram, að ríkisskuldabréf hafa bankarnir ekki séð sér fært að kaupa og hafa neitað því í mörgum tilfellum í seinni tíð. Af þessu leiðir það, að ég er ekki í nokkrum vafa um það, að tímabil ofþenslunnar, sem mikið er talað hér um af þm., er raunverulega að verulegu leyti liðið hjá, sem auðsætt er, þegar þess er gætt, að menn eiga ekki fjármagn þeir hafa sett það fast, og lánsgeta bankanna er að miklu leyti gengin til þurrðar. En þrátt fyrir þetta er fullkomin þörf á stofnun fjárhagsráðs, því að það er þörf á því, að það fjármagn, sem við höfum og eignumst í erlendum gjaldeyri, sé notað til þess að vinna þau verk, sem þjóðarbúskapnum eru nauðsynlegust. En þetta atriði skiptir kannske ekki verulegu máli í sambandi við umr. um þetta mál, en það hefur verið svo mikil áherzla lögð á það, að fjárhagsráð ætti að koma í veg fyrir ofþenslu, að mér finnst rétt, að þetta sjónarmið komi hér fram. Ég lít a.m.k. svo á, að það sé engu síður hin hlið málsins — ranghverfa ofþenslunnar — sem þetta fjárhagsráð þarf að fyrirbyggja, að skapist í okkar þjóðfélagi.

Ég ætla ekki að ræða í verulegum atriðum um frv. Það er rétt, að það hefur mjög verið rætt hér á Alþ. og í útvarpsumr. En þó get ég ekki stillt mig um að segja það, að þau stóru og mörgu verkefni, sem um er getið í 2. gr. og fjárhagsráð á að leysa — að lausn þeirra verkefna hlýtur að fara eftir því, hvaða fjárhagsgrundvöll tekst að skapa í landinu. Það á að koma í veg fyrir, að atvinnuleysi skapist — það á að vinna að því, að öll framleiðsla sé með sem mestum blóma, o.s.frv. En ég held. að það velti mest á því, hvernig tekst að leysa dýrtíðarmálin nú á næstunni. Það hlýtur að vera okkur öllum ljóst, að ef ríkisstj. ber ekki gæfu til þess að leysa dýrtíðarmálin þannig, að öruggur fjárhagsgrundvöllur skapist fyrir framleiðsluna í landinu, þá er hætt við, að gangi erfiðlega að ná þeim glæstu takmörkum, sem ætlazt er til, að náð verði samkv. 2. gr. Þetta held ég, að sé nauðsynlegt fyrir okkur að hafa mjög í huga. Það er auðsætt mál, að þegar fiskurinn er raunverulega sú aðalframleiðsluvara og ríkissjóður ber ábyrgð á vissum greiðslum — þegar fiskurinn stendur ekki í nema 2/3 þess verðs, sem við þurfum að fá fyrir hann, og við getum skapað okkur meira en 1/3 af verðhækkun á fiskinum með því að selja lýsi með honum — þá er auðsætt, að framleiðsla okkar stendur ekki á traustum grundveili. Hún stendur m.ö.o. á þeim grundvelli, að það er hægt að selja vöruna, meðan feitmetishungrið er svo mikið í veröldinni. að það er hægt að selja fiskinn fyrir hærra verð en heimsmarkaðsverð raunverulega er með því að selja þessa eftirsóttu vöru. En um leið og úr rætist fyrir hinum þjóðunum með feitmeti, þá sjá allir, hvar við stöndum með okkar framleiðslu.

Ég sagði, að ég ætlaði ekki að orðlengja um þetta frv., en taldi þó rétt að minna á þetta með örfáum almennum orðum. En það er eitt atriði hér í brtt. meiri hl., sem ég tel ástæðu til að fara nokkrum orðum um. Það er ekki nema eðlilegt, að sú brtt. kæmi fram í Nd., að bankarnir allir hefðu gjaldeyrissöluna á hendi. Munu þessar till., sem þarna eru bornar fram, hafa verið bornar fram eftir ósk stjórnenda Búnaðarbankans. Mér finnst í alla staði eðlilegt, fyrst þjóðbankinn einn hafði ekki gjaldeyrisverzlunina, að þá hefðu bankarnir hana allir nokkurn veginn í hlutfalli við umsetningu eða eitthvað annað, sem miða mætti við. því þó að t.d. Búnaðarbankinn sé fyrst og fremst lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, þá er hann opinn fyrir sparifé og verður hins vegar að hafa almenn viðskipti út yfir það þrönga svið að annast lánveitingar til landbúnaðarins. Á sama hátt átti t.d. Útvegsbankinn fyrst og fremst að sinna útveginum, en hefur nú aukið viðskipti sín og fært þau langt út fyrir það svið. Búnaðarbankinn er í örum vexti, og það er á allan hátt réttlátt, að gjaldeyririnn skiptist þannig á milli. En þjóðbankinn hefur alltaf sótt það fast að hafa einn gjaldeyrissöluna og hefur vísað til erlendra fordæma í því sambandi, en ég er því ekki svo kunnugur. En eftir að þessi brtt. var samþ. í Nd., hafa framkvæmdastjórar Landsbankans og Búnaðarbankans rætt allýtarlega saman, og ég hygg, að framkvæmdastjóri Búnaðarbankans vilji ekki gera þetta að kappsmáli í bráð, Ég vil ekki draga dul á, að gjaldeyriskaup krefjast starfskrafta og töluverðs fjármagns, og það mun vera rétt, sem hv. þm. Barð. talaði um ágreining milli Útvegsbankans og Landsbankans um sölu gjaldeyris. Þannig háttar til, að Landsbankinn á nokkra inneign hjá seðlabankanum, en Útvegsbankinn á þar ekki inni, heldur hið gagnstæða. Það er að vísu svo með Búnaðarbankann, að hann á ef til vill tiltölulega stærri sjóði en Landsbankinn í svipinn, en í þessu sambandi er auðséð, að banki, sem ekki hefur nægilega mikla peninga í sjóði, verður að sækja um lán til þjóðbankans til að kaupa gjaldeyrinn, og um það lán mun Landsbankinn neita Útvegsbankanum. Og án þess að ég blandi mér inn í þetta býflugnabúr, mun það standa, sem hv. þm. Barð. sagði um þetta mál. Og þó að Búnaðarbankinn hafi nægilegt fé til gjaldeyriskaupa, þá hygg ég, að framkvæmdastjóri hans leggi ekki ríka áherzlu á þetta vegna hitans, sem er í þessu máli innan þings og utan. Búnaðarbankinn álítur hins vegar, að honum beri þessi réttur, því að engin sanngirni mælir með því, að hann hafi enga gjaldeyrisverzlun, eins og hinir bankarnir. Hins vegar er auðsætt að með aðstöðu Landsbankans, sem hann beitir eða notar sér gegn Útvegsbankanum, getur hann samkv. l. ráðið því að verulegu leyti, hver hlutföllin verða, með því að neita honum um fjármagn til gjaldeyriskaupa. A-liður brtt. meiri hl. fjhn. á hins vegar að jafna þessa deilu milli Útvegsbankans og Landsbankans, en ég held, að ég greiði hvorki þeim lið né b-liðnum atkvæði. Ég læt það land og leið af fyrr greindum ástæðum, en vildi hins vegar taka fram, að Búnaðarbankinn hefur sinn rétt í þessu sambandi.