21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (816)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Ég get verið ákaflega stuttorður. Ég álít, að um þetta mál hafi orðið svo miklar umr. og það sé þegar svo þrautrætt, að ekki sé ástæða til þess að ræða lengi enn um sjálfa stefnuna, sízt þegar svo er áliðið þings. Ég vildi aðeins gera örstutta aths. við þær ræður, sem hér hafa verið fluttar. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að þegar við erum að byrja að taka upp áætlunarbúskap, ættum við að fara með gætni. Ég álít, að ekki sé farið með gætni í þessu frv. Hér er lagt gífurlegt vald í hendur örfárra manna. Og það er undir stefnunni komið, hve vel tekst, en um stefnuna er mjög mikill ágreiningur. Hv. þm. sagði, að erfitt sé að gera áætlanir hér á landi fyrir langt tímabil, og færði þau rök, að þjóðarbúskap og atvinnuvegum sé þannig háttað í undirstöðuatriðum, að þeir eru stopulir, eins og síldveiðar og fiskveiðar. En hjá ýmsum öðrum þjóðum eru atvinnuvegir einnig stopulir. svo sem uppskera. En svo höfum við ýmislegt fram yfir aðrar þjóðir. sem gerir okkur mögulegra en þeim að hafa áætlunarbúskap, m.a. að mikill hluti þjóðarbúskaparins og fjármálanna er undir „ríkiskontról“. Það, sem er aðalatriðið, er. að fyrir okkar þjóðfélag er áætlunarbúskapurinn meiri nauðsyn en fyrir flestar aðrar þjóðir.

Það er mjög lítil aths., sem ég þarf að gera við ræðu hæstv. forsrh. Hann kvaðst vera undrandi yfir afstöðu Sósfl. til laganna um nýbyggingarráð. Hann sagði, að hefði það verið fengur að fá nýbyggingarráð stofnað, væri enn meiri fengur að fá þessi l., sem farið er fram á að setja með þessu frv. En það er nú einmitt um þetta atriði, sem við erum ósammála. Með l. um nýbyggingarráð hófst hið mesta framfara- og framkvæmdatímabil. sem verið hefur hér á landi. En með þessum l. eru aftur á móti allmiklar líkur til, að nýsköpunarframkvæmdirnar verði heftar eða a.m.k. mjög úr þeim dregið, eins og leidd hafa verið rök að og alveg óþarft er að endurtaka, til þess að vera ekki að lengja umræður í þinglok. Hann sagði, að úr því að 15% hefðu nægt í l. um nýbyggingarráð, ætti slíkt einnig að nægja í þessu frv. En honum láðist að geta þess, að nýsköpunarframkvæmdirnar voru gerðar fyrir 300 millj. kr., sem Íslendingar áttu í innstæðum erlendis. En jafnframt vil ég taka fram. að Sósfl. barðist á sínum tíma fyrir því. að þessi upphæð yrði hærri en 15%, svo að þessi till. mín er í fullu samræmi við fyrri till. flokksins í þessu efni. En hæstv. ráðh. gat ekki mótmælt því, sem ég sagði, að með því að leggja aðeins 15% af gjaldeyristekjum á nýbyggingarreikning. er ekki hægt að leggja í stórvirkar framkvæmdir eða halda áfram nýsköpuninni með nokkuð svipuðum hraða og verið hefur.

Þá sagði hæstv. ráðh., að samkv. l. væri hægt að leggja meira en 15% á nýbyggingarreikning. Það er rétt, samkv. bókstafnum. En ég tel engar líkur til, að það verði gert, jafnvel þó að gjaldeyristekjurnar yrðu miklar. Reynsla undanfarinna ára bendir ekki til þess, að svo verði gert, þar sem — eins og tekið var fram í umr. af öðrum þm. — fékkst ekki einu sinni framgengt að leggja þau 15% til hliðar á sérstakan reikning, sem ákveðið var með l. Og það er nú svo, að ráðstafanir á gjaldeyri á hverjum tíma eru miðaðar við ákvæði l. Þannig hefur það verið og mun verða, svo að það eru ekki líkur til, að um neinn verulegan afgang verði að ræða, jafnvel þótt gjaldeyristekjurnar verði miklar, vegna þess að það er miðað við þá skiptingu gjaldeyrisins á hverjum tíma, sem ákveðin er í lögum.

Hæstv. ráðh. andmælti því ekki, að um áætlunarbúskap gæti ekki verið að ræða, nema áætlun væri gerð fyrir lengri tíma, eins og ég reyndi að færa rök fyrir. Hv. þm. Str. minntist á þetta, viðurkenndi það og meira að segja undirstrikaði mjög í sinni ræðu. En hæstv. ráðh. sagði, að í frv. væri ekkert, sem bannaði, að áætlun væri gerð fyrir lengri tíma. En það er alveg sýnilegt, að til þess er ekki ætlazt. því að hvers vegna skyldi þá vera tekið fram, að áætlun skuli vera til eins árs? Og hvers vegna þá að fella till. um, að áætlun skuli gera til lengri tíma samkv. nánari ákvörðun ríkisstj. í samráði við ráðið? Enda sagði ráðh., að ekki væri hægt að gera áætlun langt fram í framtíðina, svo að það þarf ekki að fara í grafgötur um skoðun og stefnu ríkisstj. í þessu efni. Það hefur greinilega komið í ljós í umr.

Hæstv. ráðh. hélt, að síðasta brtt. mín við 12. gr. varðandi samvinnufélögin og rétt þeirra til innflutnings á vefnaðarvörum, búsáhöldum og skófatnaði væri fram borin til þess að koma með fleyg. Það er mikill misskilningur. Fulltrúar Sósfl. á þingi Sambands íslenzkra samvinnufélaga gerðu ásamt öðrum fulltrúum þar samþykkt um þetta efni. Við munum standa við þetta heit okkar hér á Alþ. og vonum, að aðrir geri hið sama.

Ég vil svo þakka hv. 3. landsk. fyrir undirtektir hans undir sumar af mínum till.