21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Gísli Jónsson:

Ég er mjög undrandi yfir ummælum hv. frsm. í sambandi við þær fyrirspurnir, sem ég gerði til hans, og út af aths. mínum við frv. Ég óskaði fyrst og fremst að fá upplýsingar um, hvort honum og n. væri kunnugt um þær upplýsingar, sem ég veitti hér og frá mínu sjónarmiði eru ekki veigalitlar í málinu, m.a. hvort kunnugt væri um það. að Útvegsbankinn varð að greiða um hálfa milljón kr. vegna þessa. Ég fékk ekkert svar. Ég fór eindregið fram á, hvort hann vildi stuðla að því sem frsm., að til baka væri tekinn b-liðurinn í brtt. Ég fékk heldur ekkert svar við því. Og ég verð að segja, að ég tel það mjög illa farið, ef málið er sótt af því kappi. að ekki er einu sinni hægt að fá leyfi til að fresta atkvgr. um atriði til þess að komast að einhverju samkomulagi um svo viðkvæmt mál. Tel ég það mjög vafasaman hagnað fyrir málið. Þessi hv. d. hefur ekki haft málið mjög lengi, ekki deilt um það né haldið uppi þrætum né málþófi. Hún hleypti málinu til 2. umr. án nokkurra mótmæla. En nú neitar frsm. og ráðh. um að samþykkja nokkurn frest til þess að afla upplýsinga. Ég vil enn mælast eindregið til þess, að þessi litla till. sé dregin til baka og gerð verði tilraun til að fá samkomulag um þetta atriði, áður en málið fer lengra. Ég gerði fyrirspurn um það, hvort unnt væri að fá yfirlýsingu frá hæstv. forsrh., eins og jafnvel fjmrh. gerði, um það. að sami háttur skyldi hafður á um sölu gjaldeyris milli banka eins og hingað til. Ég hef ekkert svar fengið við þessu. Þetta eru sannast að segja ekki lítils verð atriði í málinu. Viðvíkjandi tilraun um samkomulag að skipta gjaldeyrinum, eins og ég fór fram á, kom hv. frsm. aðeins inn á með útúrsnúningi, að þeir mættu selja hvaða banka sem er. Við þessu fékk ég ekkert svar. Eina svarið við þessu var veitt af hv. þm. Str., og hann var ekki einu sinni í n. Kvað hann vera komið upp stríð milli bankanna og Landsbankinn neitaði að afhenda eða lána hinum bankanum nægilega seðlafúlgu til þess að kaupa gjaldeyri. Ef þetta er rétt, þá er næsta sporið að setja hér upp ákveðinn seðlabanka og knýja þannig aðra viðskiptabanka í landinu, hvort heldur er Útvegsbankann eða Búnaðarbankann. Mig undrar, að bankamálaráðh. skuli ekki vera við þessar umr. Ég held, að ekki verði um það deilt, að ef Landsbankinn hefur þetta vald, sem hv. þm. Str. sagði, að hann hefði og beitti nú, þá sé alveg tímabært að tala um, hvort það á ekki að taka það vald af honum. Ég get upplýst hér, að það er a.m.k. ekki mjög langt síðan Útvegsbankinn hafði 60% af öllum gjaldeyri, eða viðskiptamenn Útvegsbankans. Og ég fullyrði alveg, að á þeim tíma, sem Landsbankinn veik sér undan að hjálpa áfram fyrirtækjum, sem þurftu að afla gjaldeyris, þá hjálpaði Útvegsbankinn af fátækt sinni. Þau fyrirtæki veita okkur nú miklu meiri gjaldeyri en kostaði að koma þeim upp. Ég er því undrandi, ef hv. frsm. vill ekki svara í þessu máli öðru en hann svaraði áðan. Vænti ég þess mjög, að hann taki málið til athugunar, taki þennan lið til baka og fái samkomulag um hann.

Ég get þá ekki látið vera að ræða ofurlítið við hv. 3. landsk. Það er nú svo, að hann hefur notað sérhvert tækifæri hér til þess að sýna andúð á Sjálfstfl. Í stórum málum og smáum hefur það verið rauði þráðurinn, ef ekki fjandskapur, þá a.m.k. andúð, þennan tíma, sem hann hefur verið á þingi. Ræða hans áðan var sérstaklega til þess gerð að sýna fram á, hvað þetta væri ákaflega slæmur flokkur. Nú veit hv. 3. landsk., að í samvinnu við Sjálfstfl. fékk nú aftur Alþfl. sína vítamínsprautu, svo að hann dó ekki, en allan sjúkleika hafði hann í samvinnunni við Framsfl., því að þá var hann alveg að deyja í höndunum á þeim mönnum. En ekki ætla ég frekar út í það, en vil sýna hv. þm. fram á, á hvaða gönuhlaupi hann er hér. Hann lýsti yfir, hvað hann væri ákaflega ánægður með 1. lið í 2. gr. þessa frv. En hann ætti að athuga, að þetta er alveg sama og eitt samvinnuatriði hjá fyrrv. stjórn, að tryggja sem flestum þegnum þjóðfélagsins nægilega atvinnu við sem bezt lífskjör. En þó var þessi hv. þm. fjandsamlegastur allra sinna flokksmanna þeirri ríkisstj. og hélt uppi sérstöku blaði gegn henni. Þá lýsti hann einnig yfir, að hann væri ákaflega fylgjandi 4. lið. En efni hans er nákvæmlega það sama og var eitt atriði í fyrrv. stjórnarsamvinnu og áframhald af því, sem byrjað var á undir forystu Sjálfstfl. Nákvæmlega er sama um 5. lið og 8. lið. Vilji hv. þm. athuga þau l., sem samþ. voru á Alþ. undir stjórn Sjálfstfl. undanfarin þing, þá er einmitt byrjað á þessu, sem talað er um í 8. lið.

Hv. þm. kvaðst telja það óhamingju, að þessi flokkur fengi sterkari aðstöðu en gert var ráð fyrir í upphafi. Og hann endaði með því að segja, að ef þeir menn, sem færu í þetta ráð, reyndust ekki færir um að horfa yfir öll flokkssjónarmið, mundi verkið ekki takast eins og til var stofnað. Ég er honum sammála um þetta og vænti þess, að ekki verði teknir aðrir menn í ráðið en þeir, sem hafa þroska til að líta eitthvað upp fyrir þau takmörkuðu sjónarmið. Ég vona, að hver flokkur finni slíkan mann til að senda í ráðið. En þá vil ég í sambandi við þetta benda hv. 3. landsk. á annað. Ég held, að það sé í fyrsta skipti í þingsögunni, sem nokkur flokkur hefur boðið upp á það að hafa jafnmarga fulltrúa í ríkisstj., hvort sem flokkurinn er stór eða smár, eins og Sjálfstfl. gerði. En nú vill þessi þm. byrja að svívirða þennan flokk, setja hann niður í völdum og útiloka hann frá þátttöku í þessu ráði. Það væri skemmtilegt að eiga mann með þessum hugsunarhætti í þessu ráði! Það færi þá ekki margar mílur, ef sá hugsunarháttur ætti að ríkja.

Þá óskaði hv. 3. landsk. eftir, að till. minni hl. um sérstöðu um innflutning til samvinnufélaga yrði samþ., og mig furðar ekki, þótt hann vilji fylgja því, því að hann hefur viljað fylgja öllu, sem ósanngjarnt hefur verið á þessu þingi. En ég vil benda honum á, hvað er hér í 12. gr. frv. Þar stendur. að þeir eigi að sitja fyrir innflutningsleyfum, eftir því sem frekast er unnt, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera. Nú vill hv. 3. landsk. setja til viðbótar þessu skilyrði annað skilyrði um það, að þetta skuli ekki vera heildarsjónarmiðið, heldur hitt, að verzlunin sé rekin undir samvinnufélagabúskap. Ef verzlunin uppfyllir þetta ákvæði, þarf ekki að samþykkja till., því að þá er hún óþörf, en hún er sett fram af því, að þessi þm. veit, að það verður erfitt fyrir þessa verzlun að geta uppfyllt þessi skilyrði og því nauðsynlegt að setja þetta inn. Samvinnufélagsverzluninni hafa verið tryggð sérstök fríðindi með skattal. Hún þarf aldrei að greiða í tekjuskatt meira en 8% á móti 22% hjá öðrum aðilum. sem með verzlun fara, og hún hefur þar að auki fengið þau fríðindi, að það er ekki talið heimilt að leggja veltuskatt á alla hennar verzlun og ekki nema á þann hluta verzlunarinnar, sem er við utanfélagsmenn, þannig að það hefur verið skipulagt að tryggja það, að kaupfélagsverzlunin bókstaflega útiloki frjálsa verzlun, þar sem samkeppni á sér stað. vegna þess að frjáls verzlun eða einstaklingsverzlun, sem á að bera fulla skatta, á að bera skatta til ríkis og bæjar eftir öðrum mælikvarða. Síðan hámarksverð var sett á vörur í landinu, hef ég ekki orðið var við, að þetta hámarksverð hafi orðið 1/2% meira hjá kaupfélögunum en hinum verzlununum, og veit ég, að þetta gengur svo langt, að víða óska sveitarfélögin ekki eftir því, að einstaklingsverzlunin hverfi, því að þá verða þeir að leggja skatt á kaupfélögin, og ég get bent á marga staði á landinu. þar sem skattþegnarnir hafa verið píndir þannig, að þeir hafa flæmzt burtu. og hefur þá orðið að leggja á kaupfélögin, sem hafa þá kveinað undan því. — Nú er ekkert af þessu nóg, heldur vill hv. 3. landsk. stiga lengra, gefa ekki þessum mönnum sama rétt um innflutning og öðrum aðilum né heldur leyfa þeim að gera innkaup með sem hagkvæmustum kjörum, því að annars væri gr. óþörf.

Hv. 3. landsk. sagði, að ekki hefði verið staðið við það á s.l. ári að leggja til hliðar lögboðinn hluta af gjaldeyri. Ég skal ekki á þessu stigi málsins fullyrða neitt um þetta, en vildi gjarnan heyra frá honum. hve mikið af þessu hafi verið vanrækt, því að ég man ekki betur en fyrrv. fjmrh. lýsti yfir því hér við 1. umr. fjárl., að því hefði verið frestað þá, á meðan verið væri að reikna út, hve mikið af þessari upphæð hafi farið yfir á annað, hve mikið af innflutningnum raunverulega hefði átt að færa á þennan reikning, og átti hann þá, að ég held, sérstaklega við vélar til iðjuvera og hluta, þar sem andvirði þeirra átti lögum samkvæmt að fara á þennan reikning. — Þetta er það síðasta, sem ég veit í málinu. Vera má. að hv. þm. viti meira, og vildi ég þá vita, hvað það væri, ef hann gæti farið nokkuð rétt með. En ég held nú, að nokkrar af þessum fullyrðingum hans séu ekki á miklum rökum byggðar frekar en margt annað, sem hann hefur sagt í þessu máli og mörgum öðrum. — [Fundarhlé kl. 7,38 til kl. 9 að kvöldi.]