21.05.1947
Efri deild: 139. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég vildi byrja á því að lýsa því yfir, að ávallt, þegar hv. þm. Barð. hamast á mér með ókvæðisorðum, þá gleðst ég eiginlega, því að þá veit ég, að hugmyndir mínar og till. bera ekki á sér neinn íhaldsblæ, en ef hann ysi á mig lofi, þá gerðist ég hræddur um, að ég hefði gert einhverja déskotans vitleysu. Sömuleiðis stendur mér nákvæmlega á sama, þó að hann gefi af mér heldur ófagra mannlýsingu. Nýlega gaf hann þá ljótu lýsingu á hæstv. samgmrh., að hann væri sá veifiskati, að hann hefði eina skoðun í dag en aðra á morgun. Þá rak þessi hv. þm. upp ramaóp yfir því, að ég hefði andúð á stefnu Sjálfstfl. Ég viðurkenni, að það sé satt. En hvers vegna hef ég andúð á henni? Ekki af því að ég hatist við þá menn, sem eru þessari stefnu fylgjandi, langt í frá. Ég get viðurkennt þá og umgengizt þá án þess að hugsa um stefnu þeirra. En hvers vegna vil ég þá ekki stjórnarsamstarf við sjálfstæðismenn? Það er af því, að sjónarmið hægri og vinstri flokkanna eru svo gerólík, að þau verða ekki samrýmd. Hvernig ættu t.d. sósíalistar að eiga samstarf við íhaldsmenn um verzlunarmál? Þeir vilja, að verzlunin sé rekin með það fyrir augum. að einstakir menn hafi aðstöðu til að hagnast á henni. Þetta sjónarmið get ég ekki aðhyllzt og enginn okkar jafnaðarmanna. Tökum t.d. togaraútgerðina, verksmiðjureksturinn o.m.fl. Sjálfstæðismenn halda því fram, að einstaklingar eigi að hafa þetta á hendi, en sósíalistar halda fram ríkisrekstri í þessum efnum og að öll alþýða eigi að hagnast jafnt á þessu. Þetta eru hin ólíku sjónarmið. Lítum á verkalýðsmálin. Getur alþýðan átt samleið með sjálfstæðismönnum þar? Ég held ekki. Afturhaldssjónarmið verða aldrei sameinuð sjónarmiðum alþýðunnar. Hvaða flokkur, sem ekki vill komast í „konflikt“ við þennan flokk, má ekki binda bagga sína með þessum mönnum vegna afturhaldssjónarmiða þeirra. Þeir heimta nefskatta og að skattar séu lagðir á menn án tillits til tekna þeirra og eigna. Hvaða leið fundu svo íhaldsmenn út úr dýrtíðinni og hinu óeðlilega fjárhagsástandi í landinu? Hækkaða tolla og ekkert annað. Ég hef enn ekki fundið leið til að sameina hin ólíku sjónarmið og býst ekki við að geta það, en fyrir þá sök, að það er ómögulegt, þá getur samvinna flokkanna ekki komið til greina. Það er vegna þess alls. sem ég nú hef talið, að ég hef andúð á stefnu íhaldsins, og vona ég, að ég hafi nú gert hv. þm. Barð. fulla grein fyrir henni. svo að hann þurfi ekki aftur að standa upp og láta í ljós undrun sína yfir þessari andúð minni.

Þá sagði þessi hv. þm., að Alþfl. ætti Sjálfstfl. líf sitt að launa. Heyr á endemi! Ég tek ekki hið minnsta mark á slíku orðagjálfri. Það, sem jók fylgi Alþfl. við síðustu kosningar, var stefna hans fyrst og fremst. Þá fór þessi hv. þm. að lofsyngja þá göfugmennsku, að á meðan á stjórnarmynduninni stóð. þá hefðu sjálfstæðismenn boðið, að 2 ráðherrar skyldu vera úr hverjum flokki. Sjálfstfl. veit, að hann er orðinn minnsti flokkurinn á landinu, og nú býður hann „principielt“ upp á þau býti, að hann hafi töglin og hagldirnar í stjórn landsins og geti falið hana einni fjölskyldu, Thórsurunum. Svo var farið að láta blítt og dátt að maddömu Framsókn, en nú þjást íhaldsmenn af þeim ótta, að hún kunni þá og þegar að ganga úr hjónasænginni, og því hafa þeir Ólaf Thors á biðilsbuxunum dag og nótt til þess að varna, að þetta verði.

Snúum okkur nú að fjárhagsráði og spyrjum: Sætta íhaldsmenn sig við að hafa einn mann í því? Svarið verður neitandi. Þeir sætta sig ekki við það, og nú eru þeir búnir að breyta l. um fjárhagsráð á þá leið, að í því skulu eiga sæti 5 menn, og á Sjálfstfl. að eiga 2 af þeim, og skal annar vera formaður ráðsins, en öll líkindi benda til, að formaðurinn verði þessi eintrjáningur, sem þarna situr, eða nánar til tekið Gísli Jónsson, en sízt af öllum þeim 52 þm., sem sæti eiga á þingi, er hann búinn þeim þroska, sem þetta starf kemur til með að útheimta, jafn„stagneraður“ íhaldsmaður og hann er.

Fjárhagsráði er ætlað það höfuðhlutverk að starfa að „planökónómí“. Nú er það á allra vitorði, að sjálfstæðismenn eru andvígir þessu í sjálfu sér, og því er gersamlega óviðunandi, að þeir skulu eiga að hafa 2 menn í þessu ráði. Ég verð að segja það, að eðlilegast hefði mér þótt, að þeir hefðu lýst sig hreinlega á móti þessu. Ég vil, að sá flokkur, sem hefur „planökónómí“ á sinni stefnuskrá, leggi til formanninn og beri hita og þunga dagsins. Þá hefði ég haft miklu meiri trú á, að hér væri meira en orðin tóm á ferð, ef slíkur flokkur réði stefnunni. Ef ætti að samþykkja eitthvert frv. á þessu þingi, sem fyrst og fremst þræddi stefnu Sjálfstfl„ — ætli við hefðum viljað koma því framkvæmdamáli í hendur t.d. alþýðuflokksmanna? Langeðlilegast hefði þá verið að velja einhvern íhalds-harðjaxl eins og hv. þm. Barð. til að framkvæma þá stefnu. Við erum búnir að þreifa á því oft og lengi á þessu landi, að einkasölur, sem fengnar voru í hendur mönnum, sem voru í hjarta sínu andvígir einkasölu, hafa flestar gefizt illa. En það er engin sönnun þess, að það skipulag, sem þær starfa eftir, sé ómögulegt. Þeir, sem vinna að framkvæmd verks eða skipulags, þurfa að hafa trú á því. Það er vitað, að illa fer, ef þeir eru fjandsamlegir því skipulagi.

Hv. þm. fullyrti, að ég vildi útiloka Sjálfstfl. úr ráðinu. Það er alveg rangt. Ég vildi, að hann ætti þar einn mann, og hefði ekki talið óeðlilegt, að hann hefði (Rödd af þingbekkjum: formanninn.) jafnvel formanninn einan, ef flokkurinn hefði átt einhvern mann innan sinna vébanda, sem hefði haft „sósíala tendensa“, sem enginn er eins laus við og hv. þm. Barð. En þegar flokkurinn ætlar að heimta formanninn og annan mann til, þykir mér það meira en svo, að hægt sé að kalla sanngjarnt.

Hv. þm. vék að því, að ég hefði verið andvígur fyrrv. stjórn. Hann ber hana alltaf fyrir brjásti. Það er alveg rétt, að ég tók nýsköpunarskrumið svona nærri því eins og Morgunblaðs-sannleika. Ég vissi, að undir því fólst margt, sem líka hefur komið á daginn, eftir að ég hef heyrt hv. þm. Barð. skýra frá einu og öðru, sem hann skýrði aldrei frá. meðan sú dýrðlega stjórn sat að völdum. Ég hef heyrt hann áfellast fyrrv. stjórn og reyna að vísu að koma öllu á vissa flokka. Ég hef heyrt hann skýra frá ýmsu, sem hann hampaði ekki áður, meðan fyrrv. stjórn var við lýði. Ég hef heyrt hann skýra frá byggingarmálum ríkisverksmiðjanna á Siglufirði og fleiru, og eftir þessari núverandi lýsingu hans hefur ekki verið þar allt í sómanum. Margt fleira er nú bak við tjöldin, sem látið var gott heita, meðan fyrrv. stjórn sat á stólum. Það var alltaf hamrað á því, að stjórnin væri að nýskapa atvinnulífið og þjóðfélagið. En ætli árangurinn verði ekki nokkuð mikið undir því kominn, hvernig framkvæmdirnar reynast að vera. Eins er með þetta frv. Það er ákaflega margt fallegt í því á pappírnum, en meir skiptir þó, hvernig það verður framkvæmt. Og eigi þetta að framkvæmast af íhaldsmanni sem formanni með annan íhaldssegg sér við hlið, þá finnst mér íhaldið fái það mikla aðstöðu til að setja fingraför sín á framkvæmdirnar, að mér lízt illa á þetta, vægast sagt.

Eitt af því, sem hv. þm. Barð. bar á borð, var það, að ég vildi alla verzlun í hendur kaupfélaganna. Það er alveg rétt, að ég hef miklu meiri velþóknun á því, að vöruútvegun landsmanna sé í höndum neytendasamtakanna sjálfra en einstakra manna, sem gera sér hana að gróðavegi. Hann sagði það hafa komið fyrir, að kaupmenn hafi horfið, þar sem kaupfélög hafi komið. Hvers vegna þá það í frjálsri samkeppni? Af því að yfirburðir kaupfélaganna eru svo miklir, að kaupmennirnir hafa orðið að lúta í lægra haldi. Þetta er beint í anda samkeppnispostula eins og hv. þm.

Hv. 1. þm. Eyf. leiðrétti nú ýmsar missagnir hv. þm. Barð. í skattamálum, að því er snertir hlutfall milli kaupmanna og kaupfélaga, og sást þá, að það hefur hent þennan sannleikspostula að fara ekki alveg rétt með. Hitt drap hv. þm. Barð. ekki á, að á undanförnum árum hefur verið kreppt meir að kaupfélögum en kaupmönnum. Samvinnufélögin hafa ekki haft aðstöðu til að flytja inn þær álagningarfreku vörur, sem kaupmenn hafa safnað að sér, ýmist með því að fá leyfi eða vegna þess, að innflutningseftirlitið hefur verið mest til að sýnast. Það er nú látið í veðri vaka, að þeim eigi að heimila innflutning, sem geta sýnt fram á, að þeir selji vörur með sem minnstum dreifingarkostnaði og kaupi inn með hagkvæmustu verði. Út frá þessu segir hv. þm. Barð., að frekar þurfi ekki að hlynna að kaupfélögunum en þetta. Ef þau hafi yfirburði, fái þau innflutninginn á sínar hendur, en kaupmenn ekki. Það þykir nú samt ástæða til að minna á þetta í frv. á tveimur stöðum: Í 1. lið 12. gr., þar sem talað er um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. En það er ekki minnst í fyrsta kafla frv. Það er við þennan kafla, sem hv. 4. landsk. ber fram brtt. og vill, að kaupfélögum sé tryggð hlutdeild í heildarinnflutningi á vefnaðarvörum, búsáhöldum og skófatnaði í sama hlutfalli og þau hafa á undanförnum árum annazt og annist framvegis matvöruinnflutninginn. Um það er ekkert sagt í 1. kafla þessa frv. Þess vegna er þessi till. óþörf. Hv. þm. Barð. andmælir þessu, af því að hann vill ekki, að kaupfélögin fái rétting á ranglæti, sem þau hafa orðið að þola á undanförnum árum. En það sér hver maður, að sá aðili, sem hefur á þeim tíma. sem kaupmenn seldu feikn af þeirri þarfri og óþarfri vöru, sem gaf hæsta álagningu og mestan gróða, selt sínar vörur með lágri álagningu og litlum eða engum gróða — sá aðili á rétt til að fá svipaða hlutdeild í álagningarhærri vörum eins og hann hefur haft viðvíkjandi matvörum á liðnum tíma. Ég held, að mikið skorti á, að hv. þm. Barð. sé þeirri rökfimi gæddur að sanna. að ekki sé réttlátt, að kaupfélögin og Sambandið fái leiðrétting á þessu sviði.

Ég endurtek svo að síðustu, að ég hef illan bifur á framkvæmd þessa frv., ef Sjálfstfl. á að hafa sterkasta aðstöðu. formennsku fjárhagsráðs og annan fulltrúa í ráðinu. Og ég er ekki búinn að sjá, að til séu svo víðsýnir menn innan vébanda flokksins, að þeir leggi sig alla fram af lifi og sál í starfi á grundvelli stefnu, sem er andstæð þeirra flokksstefnu. Mig langar til að spyrja, og því getur hæstv. ríkisstj. svarað: Er búið að semja um það, að formaður fjárhagsráðs skuli vera sjálfstæðismaður? Er búið að semja um það, að formaður ráðsins verði hv. þm. Barð.? Ef svo er, gefur það ekki góðar vonir, að framkvæmd frv. verði fyrirmyndar „planökónómí“. En ég mun þó verða að beygja mig undir að bíða þess, hverju fram vindur. Trúna hef ég ekki nú, en ég vona ég öðlist hana við framkvæmdirnar.