21.05.1947
Efri deild: 140. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

195. mál, fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit

Hannibal Valdimarsson [frh.]:

Ég held, að ef herra forsetinn hefði verið hér áðan og hlýtt á ræðu hv. þm. Barð., þá gæti hann gengið inn á, að ég verð að haga orðum mínum á þennan hátt.

Sjálfstfl. gat gengið inn á að fá fé með tollum og með veituskatti. Það lá í orðum hv. þm. Barð., að sjálfstæðismenn hefðu gengið inn á tollana, af því þeir tækju ekki þátt í að greiða þá, sem sé að þeir vildu hafa sig undan að bera þungann. Það gera þeir með tollum og hafa gert með veltuskatti, og hafi sá skattur komið þyngra niður á kaupmönnum en samvinnufélögum, er það vegna þess, að samvinnufélögin útvega mönnum einkum matvöru og aðrar vörur, sem lítið er á að græða.

Þá var þm. að álasa mér fyrir, að ég hefði ekki kunnað að meta það, þegar Sjálfstfl. og Sósfl. höfðu samvinnu um að koma í veg fyrir, að það þyrfti að halda mönnum uppí með snjómokstri. Heldur þm., að hann geti talið mér trú um, að svo lítið hafi verið um atvinnu, að flokkurinn hafi þurft að kaupa því að ganga til samstarfs við andstæðing sinn til þess að afstýra slíku? Hver, sem hefði setið við stjórnvölinn, hefði getað notið þess, að atvinna var meiri en nokkru sinni fyrr, og var það ekki eingöngu landslýðnum að þakka, heldur einnig eftirspurn frá erlendum herjum, að svo erfitt var að fullnægja eftirspurn eftir vinnu.

Enn fjölyrti ræðumaður (GJ) um þá sanngirni, sem Sjálfstfl. hefði sýnt með því að bjóða hinum flokkunum að eiga jafnmarga ráðherra í stjórn og hann átti. og taldi hann það ólíkt meiri sanngirni en hefði veríð, þegar lagt var til, að tryggingaráð skyldi skipað 8 mönnum, þar sem 1 skyldi kosinn af hverjum flokki, einn maður síðan frá hverjum hinna flokkanna, öðrum en Sjálfstfl., og svo átti ráðh. að skipa formanninn. Ég held, að þessu sé ekki saman jafnandi, og svo mikið er víst, að þann þátt hefur Alþfl. átt í tryggingamálunum og borið það mál svo fyrir brjósti umfram Sjálfstfl., að ég held, að því máli sé betur borgið en þótt horfið sé að því ráði að láta Sjálfstfl. fara með framkvæmdir trygginganna. Þær eru eitt af þeim málum, sem sjálfstæðismenn hafa ekki talið til sinna mála. Tryggingamálunum börðust þeir á móti eins lengi og þeir gátu, og þar af leiðandi átti sízt af öllu að fela þeim að hafa forystu um framkvæmd l., þegar þau gengu í gildi. Nákvæmlega hið sama held ég, að sé um að ræða í sambandi við þetta frv. Það er ekki Sjálfstfl., sem hefur borið „planökónómi“ fyrir brjósti, og ég álít alveg óhugsandi að fela þeim forystuna í slíkum málum og yfirleitt að fela skipulagningu þeim flokki, sem ekki hefur trú á „planökónómi“.

Hæstv. forseti hefur nokkrum sinnum vikið að því, að við hv. þm. Barð. færum frá efninu, þegar við erum að ræðast við um stefnumál Sjálfstfl. og Alþfl. Þetta er að nokkru leyti rétt, en þó eru þessar umr. um grundvöllinn að því, sem hér er um að ræða. Frv., sem byggir á sósíalistískum „principum“, er ekki óeðlilegt til þess að vekja upp umr. um grundvallaratriðin í jafnaðarstefnunni og stefnu Sjálfstfl. Frv. er eftir grundvallaratriðum jafnaðarstefnunnar, og virðist þá vera furðulegt, að það sé höfuðandstæðingur hennar, sem á að hafa forustuna og vera sterkasti aðilinn í fjárhagsráði.

Ég lýk svo máli mínu með því að láta í ljós, að ég hef mjög veika von um, að myndarlega og röggsamlega verði á þessum málum tekið, ef framkvæmd þessara l. á að vera í höndum manna, sem í hjarta sínu eru andvígir „planökónómí“.