14.05.1947
Neðri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

240. mál, félagsheimili

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja örfá orð. en ég vil gjarnan koma þessu máli áfram, áður en hlé verður gefið á fundi, og skal ég stilla orðum mínum mjög í hóf.

Það hefur borið hér á deilum bæði frá hv. þm. Borgf. og hv. þm. S-Þ. um það, að það væri ekki nægilega séð fyrir því í þessu frv., að sveitar- og bæjarfélög, sem tækju að sér forgöngu um að reisa hús eins og þau, sem hér um ræðir, gætu orðið styrks aðnjótandi, og í því sambandi hefur mjög verið vitnað í það, að sveitarfélögin séu ekki talin upp í l. gr. frv. Þetta er rétt út af fyrir sig. En aftur er sérstök gr. í frv. alllöng. sem fjallar um þetta, að ef sveitarfélög beita sér fyrir framkvæmd málsins, þá skal heimilt að styrkja hana úr félagsheimilasjóði, enda sé þá húsið notað í þágu slíkrar starfsemi, sem þau félög, sem um ræðir í 1. gr., hafa með höndum. Það er sjálfsagt að taka þetta til athugunar á milli umr., ef hv. þm. Borgf. eða aðrir óska, og breyta því. ef ástæða þykir að breyta orðalaginu eða fella saman 1. gr. og 4. gr. að einhverju leyti. Annars er mér ekki kunnugt um það, að munur sé á gildi lagaákvæða eftir því, hvort þau stæðu í 1. gr. laga eða síðar í sömu l. Ég fæ ekki séð, að það sé meginatriði í þessu máli, hvort réttindi og skyldur gagnvart sveitarfélagi vaxi eða minnki eftir því, hvort slík ákvæði séu sett í 1. gr. eða aðrar gr. þeirra.

Annars vil ég ítreka það, sem hæstv. menntmrh. var að vísu búinn fullkomlega. að þar sem um það er rætt, að sveitarfélög geti ekki fengið styrk út á hús, sem þau byggja að fullu, þá er sú undantekning einungis gerð, ef þau eru notuð í öðru skyni en til menningarstarfsemi, sem fram er tekið í 1. gr. frv., og kemur þá frádráttur á styrk til greina, sem telja má, að sé þarna til mikilla bóta, að koma í veg fyrir, að þessi styrkur renni nema til þeirrar menningarstarfsemi, sem frv. miðar að. (JJ: Hvaða ómenningu á að hafa þarna í frammi?) T.d. ef bæjarstj. Reykjavíkur setti þarna upp skrifstofu sína í eitthvert þessara húsa eða það yfirleitt væri notað í þeim tilgangi, því að það er ekki meiningin að styrkja byggingu. sem reist er til þeirra afnota.

Þá hefur hv. þm. S-Þ. orðið nokkuð tíðrætt um það, að það væri búið að skattleggja allt landið um margra ára skeið til þess að byggja þjóðleikhúsið í Reykjavik, og nú, þegar breytt væri um stefnu í þessu máli með þessu frv., þá væri dreifbýlinu sýnd hin mesta smán — þá ætti að búa mjög illa að því í þessum sökum, vegna þess að hlutur dreifbýlisins væri þarna gerður allt of lítill, þar sem gert væri ráð fyrir aðeins 45% af skemmtanaskattinum. Út af þessu vil ég aðeins minna á það, sem í l. um skemmtanaskatt og þjóðleikhús frá I927 segir — við kannske munum nú ekki allir þá tíma, en Alþingismannatalið hlýtur að geta frætt okkur um það, hverjir réðu hér á Alþ. á því ári og um það leyti — og í þessum l. segir svo, að í öllum kaupstöðum landsins, sem hafa 1500 íbúa eða fleiri, skal leggja skatt á skemmtanir fyrir almenning.

Nú hefur mér virzt, að við hv. þm. S-Þ. værum sammála um það að telja það ekki óvirðulegt brot af þjóðinni, sem býr á stöðum, þar sem færri eru en 1500 íbúar í einu sveitarfélagi. Þess vegna fær það ekki staðizt, að það hafi verið dregið saman fé af öllu landinu til þess að reisa þjóðleikhúsið fyrir. En í þeim l. segir enn fremur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Skemmtanaskatturinn rennur í sérstakan sjóð, „Þjóðleikhússjóð“. Honum skal varið til þess að koma upp „þjóðleikhúsi“ í Reykjavík og til að styðja sjónleika, sem sýndir verða að staðaldri í því húsi.“ Það virðist þess vegna. að í öndverðu hafi verið mörkuð sú stefna, að í það minnsta hluti af skemmtanaskattinum — og verður naumast skilið öðruvísi en allur þjóðleikhússjóðurinn og allur skemmtanaskatturinn þar með hafi átt að renna til þess að styðja þjóðleikhúsið, þegar það tæki til starfa. Þetta er orðrétt ákvæði l., sem sett voru 1927. (JJ: Þau voru sett 1923, þm. veit það ekki.) Það breytir ekki meginefni málsins. Þá kem ég að því hlutfalli, sem gert er ráð fyrir að styrkja félagsheimilin með, það er sagt, að 40% af byggingarkostnaðinum sé of lágt. Það má vitanlega um það deila, og gæti vel verið, að það væri eðlilegt og æskilegt að færa þessi hlutföll að einhverju leyti til. En þegar við ætlum að meta þetta með sanngirni, þá finnst mér ekki óeðlilegt að líta á ýmsa aðra þætti og hvernig hefur gengið með styrk ríkisins til þeirra. Vil ég í því sambandi minna á íþróttal. og íþróttamannvirki, sem styrkt eru samkvæmt íþróttal., sem sett voru fyrir nokkrum árum. Framlagið til íþróttasjóðs mun nú hafa komizt hæst 1 millj. kr. á ári, og hefur staðið um það allhörð atkvgr. við meðferð fjárl. á undanförnum árum, hvort það væri kleift að hafa þá upphæð svo háa. Eftir skilríkjum, sem fyrir liggja. má gera ráð fyrir. að sá hlutur, sem félagsheimilasjóður fengi af skemmtanaskattinum, kunni að nema um 8 hundruð þús. kr., þá er þarna ekki mikill munur á. Ég hygg, að íþróttasjóður styrki ekki þau mannvirki. sem hann hlynnir að, meira en að 1/3 af kostnaðarverði. Ef við litum á annað dæmi sambærilegt við þetta. sem er skólabyggingar, þá má minna á það. að l., sem sett voru um barnafræðslu 1936. og þingmannatalið getur frætt okkur um það líka, hverjir þá voru á þingi, gera ráð fyrir að styrkja heimavistar- og heimangöngubarnaskóla úti á landi aðeins að 1/3 byggingarkostnaðar, og þannig hefur staðið öll árin. þangað til framlagið var hækkað í fyrra.

Þegar litið er því á þetta mál og borið saman við ýmsa aðra þætti, þá fæ ég ekki séð, að við, sem erum dreifbýlisþm., eins og við hv. þm. S-Þ., þurfum að bera nokkurn kinnroða út af þessu máli, hvað þetta snertir. Þó að framlagið sé ekki meira en þetta, þá megum við vera vissir um það, að þetta verður til mikils menningarauka fyrir fólkið, sem býr úti í dreifbýlinu.