19.03.1947
Efri deild: 97. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

27. mál, eftirlit með skipum

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti. Um ummæli þau, sem fallið hafa frá hv. þm. Barð., er hann vildi láta líta svo út, að ég hafi einskorðað mig við álit mþn., er það á misskilningi byggt, en ég legg meir upp úr áliti og skoðunum skipaskoðunarstjóra og þekkingu hans á þessum málum, en ég tel till. hv. þm. Barð. draga úr örygginu, en ekki auka það. Í lagaákvæðum er gert ráð fyrir, að skoðun farþegaskipa fari árlega fram og á öðrum skipum með 1½ árs millibili, þ. e. stálskip, sem eru yfir 12 ára og tréskip yfir 16 ára. Mín skoðun er sú, að árleg skoðun skipa skuli fara fram.

Ég verð að segja, að mér kom á óvart yfirlýsing hv. 6. landsk. Ég hafði skilið, að hann væri mótfallinn brtt. þm. Barð. og mundi styðja að greiða atkvæði á móti till. hans. Hins vegar er það atriði nokkurs virði, er þm. vill ekki, að eftirlitsmaður sé í Vestmannaeyjum, en maður, sem er hér í Rvík, á erfitt með að hafa stöðugt eftirlit. Ég held því, að það sé misskilningur að hafa ekki eftirlitsmann í Eyjum. Ég tel það meira öryggi, að eftirlitsmaðurinn gæti gengið daglega niður á höfn til eftirlits.

Ég skal nú láta útrætt um þetta, en ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann láti atkvgr. ekki fara fram að svo stöddu. þar sem helming þdm. vantar.