18.12.1946
Efri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (91)

45. mál, menntaskólar

Gísli Jónsson:

Ég vil aðeins mótmæla því, sem hér hefur verið sagt um þetta mál. Í fyrsta lagi var þetta sett í l. á síðasta Alþ. í fullu samræmi og samkomulagi við þá aðila, sem mættu fyrir hönd þessara manna við samningu launal. Þess utan vil ég líka benda á, að þegar launal. voru samin, var ætlazt til þess, að afnumin yrðu öll sérstök fríðindi. sem hefðu verið gefin til þess að bæta allt of lág laun, en þetta er ekki í fyrsta skiptið, sem það er svikið. Það hefur verið svikið svo að segja alls staðar, og þess vegna vilja þeir halda áfram þeirri svikakeðju, sem þessir flokkar hafa verið með. (GÍG: Eru þá ekki hinir ráðh. að svíkja líka?) Ég hef ekki ennþá heyrt þá samþ. þetta. Hv. 3. landsk. ber hér fram svo að segja í hvert einasta skipti, sem hann stendur upp, fullyrðingar, sem ekki standast svo lengi sem hann er að snúa sér við í stólnum. Hann segir, að kennararnir hafi 100% lengri vinnutíma en standi á stundaskrá. Nú er það í l., að ef kennarar hafa mikla heimavinnu í þágu skólans, þá eiga þeir að fá greiðslu fyrir það. Það er búið að ákveða með l., að þeir hafi 27 stundir, og það er svo lítill vinnutími. að ekkert þjóðfélag getur leyft sér að hafa styttri vinnutíma fyrir nokkurn þegna sinna. En með þeirri breyt. sem hér liggur fyrir, er ekki verið að hlífa kennurunum fyrir lengri vinnutíma, heldur er verið að veita þeim meira fé, meiri laun. Það á að stytta þeirra skyldustundafjölda, svo að þeir geti aftur lengt hann og fengið sérstaka borgun fyrir. Það þýðir því ekkert að koma með svona rökleysur, eins og þessir hv. þm. eru með.

Ég skal svo ekki deila um þetta meir. Ég er búinn að setja fram mín rök. En hv. 3. landsk. berst ef til vill fyrir þessu frv., til þess að hann njóti sjálfur þar góðs af, þegar þar að kemur.