18.12.1946
Efri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

45. mál, menntaskólar

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson):

Það eru fáein orð út af því, sem hv. þm. Barð. sagði siðast. Hann segir, að fullkomið samkomulag hafi verið á síðasta þingi um breyt., sem gerð var á þessu atriði, milli þeirra aðila, sem komið hefðu fram fyrir hönd kennaranna. Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að frv. var samið af mþn. í skólamálum. Í því frv., eins og það kom til þingsins, voru engin ákvæði um stundafjölda, heldur gert ráð fyrir, að það yrði ákveðið með reglugerð, eins og gert hafði verið með reglugerðinni 1937. En við 3. umr. í Ed. var þetta ákvæði sett inn í frv., en þá var komið að þinglokum, og þess vegna fór það þannig óbreytt gegnum Nd. Þess vegna kom ekki til sérstakt samkomulag um þetta. Annars vil ég gefa þá nýju skýringu á, hvað hér er að gerast, að þótt þetta frv. verði samþ., þá er samt sem áður verið að lengja vinnutíma þessara kennara frá því, sem var, áður en l. um menntaskóla gengu í gildi á síðasta þingi. Það er aukning frá því, sem ákveðið var í reglugerðinni, sem farið var eftir frá 1937, en í henni er svo ákveðið, að kennarar, sem eru ekki yfirkennarar, skuli hafa 24 stundir á viku. en þegar þeir hafi starfað í 16 ár, skuli þeir verða yfirkennarar og kenna 22 stundir. Enn fremur var ákveðið, að þegar þeir væru orðnir sextugir, skyldi fækka stundafjölda niður í 20. En með breyt., sem gerð var á menntaskólal., var svo ákveðið, að allir kennarar, hvort sem þeir væru að byrja eða búnir að vera lengur, skyldu kenna 27 stundir á viku. en samkvæmt þeirri breyt., sem hér er gert ráð fyrir, þá eiga þeir að kenna fyrstu fimm árin 27 í staðinn fyrir 24, næstu fimm árin 26 og þriðju fimm árin 25 stundir, og eftir 15 ár eiga þeir að hafa 24 stundir, en voru áður 22, og á það að haldast upp í 55 ára aldur. Þess vegna liggur ljóst fyrir, að hér er verið að hækka kennslustundafjöldann frá því, sem áður hefur verið. Þetta hafa kennararnir tjáð sig fúsa til að ganga til samkomulags um. Þess vegna vildi ég ákveðið mælast til þess. að hv. d. vildi samþ. þetta frv.

Þá var annað atriði, sem kom fram hjá hv. þm. Barð. Hann sagði, að þessi breyt. væri gerð til þess, að kennararnir hefðu minni vinnu og meiri laun. Nú er það upplýst og öllum fyllilega ljóst, að þessi breyt. er gerð vegna þess, að nemendum skólans hefur fjölgað mikið, en hins vegar er skortur á kennurum, og þess vegna hefur orðið að fá þessa menn til að taka að sér þessi störf og í mörgum tilfellum svo mikil störf. að líkur eru til, að það sé ofætlun hverjum manni til lengdar. Ég get líka bent á það, að það er engan veginn óalgengt, að kennarar kenni minna en 27 stundir á viku, og það er miðað við, hve mikla aukavinnu þeir hafa, en hún er oft mjög mikil. Kennarar við bændaskólana hafa kennt 20 stundir á viku, vegna þess að kennsla þeirra hefur farið fram í fyrirlestrum, sem verður að taka tillit til, og þar ber að taka til greina, að þeir verða að verja miklum tíma til undirbúnings fyrirlestranna.