16.12.1946
Neðri deild: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Það er hv. 2. þm. S-M., sem er frsm. þessa frv., en það er í sjálfu sér ósköp einfalt, og þar eð hv. þm. S-M. er ekki viðstaddur, get ég vel gert nokkra grein fyrir þeim breytingum, sem við viljum láta á því verða. Í frv. er svo ráð fyrir gert, að skipuð sé 5 manna skólanefnd fyrir þennan skóla — mér þætti hentugast að hafa aðeins eina skólan. fyrir sjómannafræðsluna í heild, en ekki skólanefnd fyrir hverja deild hennar — og skipi ríkisstj. 2 þeirra. En þar sem það er ekki venjulegt, þá kom okkur í sjútvn. saman um, að hún skyldi aðeins skipa einn, en í stað hins skyldi koma skólastjóri stýrimannaskólans, og væri það á alla lund heppilegra, þar eð hann hlýtur alltaf að vera manna kunnugastur í öllu því, er að fræðslu sjómanna lýtur.

Síðari breyt. er við 9. gr. frv., um það, að ríkissjóður greiði allan kostnað við skólahaldið. N. hafði áður mælt með því ákvæði 9. gr., að nemendur greiddu skólagjald, en nú hefur hv. menntmn. bent á, að það komi í bága við almenn l. um ríkisskóla. Hvort sem það er nú eðlilegt eða ekki þá fannst n., að þetta þyrfti að vera í samræmi við löggjöf annarra ríkisskóla, og því sjálfsagt að nema burt úr 9. gr. frv. það ákvæði, sem kveður á um skólagjöld. Ég tel svo ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessum breyt. og vona, að þær nái samþykki þm.