18.02.1947
Neðri deild: 76. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Það er alveg rétt, sem frsm. sjútvn. segir, að þetta frv. hefur tekið allverulegum breyt. í Ed. og á þann veg, að það var mjög dregið úr því skólahaldi, sem til var stofnað í upphafi með flutningi þessa frv. Eins og frv. var lagt fram í upphafi var gert ráð fyrir því, að auk þess sem þetta yrði skóli fyrir matsveina á fiskiskipum, sem áttu að fá nám sitt á einu ári, yrði þarna einnig skóli fyrir þá, sem vildu verða fullkomnir í iðninni og geta stundað hana á beztu hótelum og farþegaskipum, og var miðað við þriggja ára nám og stuðzt við reynslu, sem annars staðar er fengin um þetta efni.

Ég þarf ekki að taka það fram, að nauðsynlegt er að hafa hér á landi skóla og einmitt hér í þessum stað, sem getur útskrifað menn, sem geta innt þessi störf af hendi á farþegaskipum okkar, sem koma hvert af öðru, stór og fullkomin, og er öllum, sem þekkja til þessara mála, kunnugt, hve mikil þörfin er fyrir þessa menn. (Forseti (BG) : Það verður að leggjast niður, að hv. þdm. séu á hljóðskrafi, meðan umr. fara fram.) Þessi breyt., sem gerð var í Ed., miðar að því að draga úr frv., eins og það var í upphafi, og hefur það verið fært niður í það að heimila skólahald fyrir matsveina á fiskiskipum í einn vetur. Hins vegar er því bætt við, að það megi halda námskeið eftir þörfum fyrir þá, sem ætla að vinna á farþegaskipum og hótelum, en eins og hér kemur fram, er hitt aðalatriðið.

Þó að ég fyrir mitt leyti mundi hafa sætt mig við þá afgreiðslu, sem Ed. gerði, verð ég að lýsa því yfir, að ég tel ólíkt, hvað úr frv. fæst, eins og það liggur fyrir á þskj. 416, en með þeim till. er það fært í það horf, sem það var áður. Mér þykir vænt um, að n. hefur séð sér fært að færa það aftur í sitt fyrra horf.