21.05.1947
Sameinað þing: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (963)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Frsm. Ed-nefndar (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leiðrétta þann misskilning, sem mér fannst koma fram hjá hv. 5. þm. Reykv. áðan. Það var í rauninni efnislegur ágreiningur um málið. og skal ég gera nokkra grein fyrir honum hér. Mér skildist, að þrátt fyrir það, þótt frsm. hafi haft þetta mál til meðferðar allan þingtímann, sé honum ekki kunnugt, að einmitt fyrir efnislegan ágreining í málinu hefur ekki tekizt að samþ. frv., eins og það liggur fyrir nú.

Eins og málið liggur fyrir á þskj. 519 og Ed. gekk frá því, er gert ráð fyrir, að þetta sé matsveinaskóli fyrir nemendur. sem fara á fiskiskip, eins vetrar skóli, en hins vegar verði hægt að halda uppi námskeiðum fyrir aðra. En eins og málið liggur fyrir á þskj. 670, þá er gert ráð fyrir 3–4 ára skóla í sambandi við iðnlöggjöfina, sem er allt annað mál. Iðnlöggjöfin ákveður, að nemendur í þessum skóla skuli fá sitt nám samkv. iðnlöggjöfinni, og þeir eru ráðnir samkv. sérstökum samningum, og ríkissjóður hefur ekki tekið á sig neina sérstaka fjárhagslega skuldbindingu um að annast námið fyrir þá menn, sem starfa eftir iðnlöggjöfinni, frekar en ákveðið er í iðnlöggjöfinni sjálfri. Þess vegna er hér verið að blanda saman tveimur óskyldum málum, en það vill ekki Ed. viðurkenna að ástæða sé til að gera.

Það er upplýst, eins og frsm. gat um. að kostnaður við þennan skóla verður mjög mikill, verði hann settur á stofn samkv. brtt. á þskj. 670. og hv. Ed. sér ekki ástæðu til þess að fara út í slíkan kostnað á þessu stigi málsins, og þess vegna leggur hún eindregið til, að frv. verði samþ. eins og gengið var frá því í hv. Ed., þar sem hvorki var ágreiningur um það í n. eða d.

Vil ég því mjög vænta þess, að með tilliti til þess, sem ég hef sagt, séu þær brtt., sem eru á þskj. 670, felldar og málið samþ. eins og það kom frá hv. Ed.