21.05.1947
Sameinað þing: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það er ekki vani minn að blanda mér í mál, þegar tveir menn deila um það. En mér skilst, að ágreiningurinn í þessu máli, eftir því sem hv. frsm. hafa upplýst, sé hér á milli hv. d. Og það er alltaf svo. að það fer eftir því, hvernig málið er túlkað fyrir dm., hvaða afstöðu þeir taka.

Ég ætla að bæta hér ýmsu við það, sem form. sjútvn. Ed. gat um, og undirstrika það svo langt sem það nær. En mér þykir leitt, að málið skyldi snúast inn á þessa braut, jafnviðsjált eins og það er að ætla að koma upp matsveinaskóla í sjómannaskólanum og hefja allmikinn kostnað til þess að taka á móti nemendum í þann skóla. Deilan er um það, hvort þeir menn, sem ætla að nema matreiðslu fyrir farþegaskip og hótelrekstur í landinu, eigi að vera fastir nemendur í 3–4 ár á þessum skóla. Og misskilningurinn, eins og hv. form. sjútvn. Ed. skýrði frá, liggur í þessu. Þeir eiga að hafa sitt verklega nám, sumpart í hótelum, sumpart á skipum, og að öðru leyti verklegt nám í skólanum eftir því, sem hann getur látið það í té. Það er ekki ætlazt til þess, að þessi skóli geti lagt það af mörkum að staðaldri, sem krafizt er á l. fl. hóteli og fullkomnu farþegaskipi. Hins vegar er það opið í frv., að sú bóklega fræðsla. sem þessir menn eiga að hljóta, getur verið tekin upp við skólann, að svo miklu leyti sem þeir geta þá losnað við að stunda iðnskólanám, sem þeir eru nú skyldugir til samkv. l. Og það er, eins og ég sagði, opið vegna okkar till. að ráðuneytið haldi uppi þeirri bóklegu fræðslu, sem er mun meiri fyrir þessa matsveina en aðra matsveina. Meðal annars er þar um mikið tungumálanám að ræða, sem ekki er þörf fyrir þá að læra, sem aðeins eru á fiskiskipunum. svo sem franska. en slíkt er aftur talið nauðsynlegt á stórum farþegaskipum og hótelum, en það er ekki ætlazt til þess, að þessi skóli veiti svo fullkomna menntun.

Um kostnaðarhliðina er það að segja, að vitanlega kostar það meira að reka skólann allt árið. (Forseti: Ég vildi mælast til þess, að hv. þm. vildi reyna að stytta mál sitt.) Það er óviðeigandi, ef menn mega ekki ræða mál hér, og ég vil benda hæstv. forseta á, að ég hef ekki tafið fyrir honum fundi á þessu þingi.

Ég vil enn fremur benda á, að það er gert ráð fyrir því, að veitingaþjónar eigi að koma til náms í skólann. Ég álít rétt að geta þess, að slíkur skóli hefur engin skilyrði til þess að fullnuma veitingaþjóna, því að þeirra starf liggur mikið í æfingu, sem þeir fá með því að bera fyrir gesti á hótelum og skipum og virðist vera óþarflega mikið að heimta 4 ára nám til þess, en þetta virðist nú orðinn siður, og skóli sem þessi hefur mjög takmörkuð skilyrði til að fullnuma menn í slíku starfi, því að það ber öllum saman um, sem eru lærðir í iðninni, að það sé æfing, sem sé bezti skólinn í þeim efnum.

Að síðustu skal ég geta þess, að sjútvn. Ed. ræddi ýtarlega við stéttarfélag þessara manna hér í bæ, og þeir töldu það skynsamlega leið, sem n. vildi fara inn á í þessum efnum. Við ræddum einnig við bryta, sem lengi hefur verið á skipi eimskipafélagsins og er mjög æfður í iðn sinni, og hann taldi að um skynsamlega leið væri þarna að ræða hjá n.

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta að stytta mál mitt og vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á sjónarmið okkar Ed-manna í þessu máli og felli brtt., sem fyrir liggur, því að það er nauðsynlegt, að málið gangi fram á þann viturlegasta hátt, sem hægt er að finna.