21.05.1947
Sameinað þing: 56. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

35. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Ég er mjög fús á að taka til athugunar ósk hv. 1. landsk. í þessu efni. Hins vegar hef ég sjaldan fengið neitt samkomulag út úr því að verða við óskum hv. þm. Barð. um samkomulag, því að það samkomulag, sem hann vill komast að í málum, er sjaldan annað en það, að hans sjónarmið fái að ráða. Málið er búið að dragast svo lengi, að ég efast um. að það verði afgr. frá þessu þingi, ef það er tekið út nú. Hins vegar vil ég ekki standa á móti því, að málið sé tekið af dagskrá. ef trygging er fyrir, að það verði tekið til afgreiðslu, áður en þingi lýkur.

Ég get þó ekki stillt mig um að mótmæla fáu einu af þeim firrum, sem hv. þm. Barð. lét sér um munn fara. Hann líkti þessum skóla við sveitaiðnskóla, sem er mesta fjarstæða, sem hugsast má. Ég hef aldrei verið á móti því, að menn fari í iðnskóla og njóti þar verulegrar kennslu, en frv. um iðnskóla í sveitum var byggt á því. að menn lærðu á stuttum tíma 5–6 iðngreinar, og að segja, að þetta séu svipuð mál, er herfilegasta fjarstæða og sýnir, hvað hv. þm. Barð. hefur lítið sett sig inn í bæði málin.

Hvað viðvíkur því, að ég tali í dag gagnstætt því, sem ég gerði í gær, þá verður það að standa á reikning hv. þm. Ég kannast ekki við það, og ég er vanur að fara eftir rökum, sem berast mér. Hv. þm. verður að sanna þessa fullyrðingu sína betur, ef hann ætlast til, að þm. trúi henni.

Það er einnig rangt, að hér sé verið að rjúfa iðnlögin, því að það er gert ráð fyrir, að menn verði á launum hjá meisturum eins og nemendur yfirleitt, meðan þeir eru í meistaranámi. en á venjulegum skólabekk, meðan þeir eru í skóla, án þess að fá laun. Það hefur hvergi komið fram nema hjá hv. þm. Barð., að menn eigi að fá laun, meðan þeir eru í skóla, eða hvar hefur komið fram, að það ætti svo að vera? Það hefur engum dottið í hug. Hins vegar tíðkast það víða erlendis, þar sem þessum málum er bezt skipað, að menn séu í verklegu námi hjá meisturum nokkurn tíma og síðan í skóla til að fá það teoretiska nám betur en þeir geta fengið í meistarakennslu. Hér er reynt að taka það bezta úr báðum, og því trúir enginn, að hv. þm. Barð. sé fróðari um þessa hluti en reyndustu menn í öðrum löndum, þar sem þetta hefur gefizt bezt. Í Sviss, þar sem hótelþjónusta er í því bezta lagi, sem hægt er að hugsa sér, eru menn venjulega 6 mánuði í skóla, 6 mánuði á hóteli, svo í skóla, svo á hóteli og þannig á víxl. Þeir þykjast ekki of góðir til að láta skólanámið og verklega námið haldast í hendur. Það er sama, þó að þar sé hótelþjónusta, en hér á skipum, því að matsveinsstaða á farþegaskipum er á margan hátt svo lík því, sem gerist á hótelum, en það er eins og oft kemur fyrir með hv. þm. Barð., að ef hann grípur eitthvað í sig, þá þoka honum engin rök.