06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú vonazt eftir því, að smíði þjóðleikhússins ljúki í lok þessa árs, eða rétt eftir næstu áramót. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefur skemmtanaskatturinn runnið óskertur til þjóðleikhússins, en frv. þetta leggur til, að eftir 1. janúar 1948 verði 10% af skemmtanaskattinum varið til lestrarfélaga og kennslukvikmynda, en hinum hluta fjárins skipt til helminga í rekstrarsjóð þjóðleikhússins og hinum hlutanum í sjóð til bygginga félagsheimila. Þetta eru þær breytingar. sem ríkisstj. hefur gert í þessu máli.

Hér eru á dagskránni tvö frv., er snerta frv. þetta, og ætti hv. menntmn. að láta þessi 3 frv. fylgjast að. Það er óþarfi að fjölyrða um þetta frv., en ég óska þess. að málinu verði vísað til hv. menntmn., sem ég vænti, að taki málið mjög fljótt til athugunar og skili því fljótt frá sér.