06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Snemma á þessu þingi flutti ég og hv. 2. þm. Rang. frv. til l. um breyt á l. um skemmtanaskatt. Þessi skattur hefur runnið í þjóðleikhússjóð. Í okkar frv. var gert ráð fyrir, að skatturinn rynni að ¼ í þjóðleikhússjóð og hinn hluti skattsins rynni í sjóð til byggingar samkomuhúsa í sveitum og til félagsheimila.

Nú hefur frv. þetta legið hjá hv. menntmn. þessarar deildar, og síðan þetta frv. kom fram, höfum við látið það kyrrt liggja. Nú er lagt til, að 45% skemmtanaskattsins renni í þjóðleikhússjóð. 10% til lestrarfélaga og hinn hlutinn til samkomuhúsa og félagsheimila. Ég fagna þessu, að taka hluta af skemmtanaskattinum til byggingar samkomuhúsa úti um land. Ég hef oft bent á það, að ríka nauðsyn bæri til þess að skapa aðstöðu fyrir skemmtanalíf úti um land. Þetta frv. byggir á sömu stefnu og frv. okkar hv. 2. þm. Rang. gerði, en ég læt þó í ljós, að mín skoðun er sú, að hægt hefði verið að ganga inn á hærra hlutfall til félagsheimila. Allur skemmtanaskatturinn hefur gengið og gengur til þjóðleikhússins. Að vísu var hann tekinn af um tíma og rann þá til annarra hluta, en síðan árið 1940 hefur skemmtanaskatturinn runnið óskertur til þjóðleikhússins. En þó hundraðstalan til félagsheimilasjóðs mætti vera nokkru hærri og ég mundi telja það réttmætara, þá mun ég samt sætta mig við þær till., sem felast í þessu frv. Og ég vil loks leyfa mér að ítreka það, að skemmtanalíf og félagslíf mun hafa mjög gott af þessu frv.