06.05.1947
Neðri deild: 122. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

238. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Það gleður mig að heyra, að hv. þm. N-Ísf. skuli vera svo mjög ánægður yfir þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á frv. hans frá í vetur, sem gerði ráð fyrir því, að 75% skemmtanaskattsins rynni til samkomuhúsa úti um land, en nú aðeins 45%. Þetta finnst mér mikil rausn af honum. En þetta er ekki eins einfalt og hann heldur. Hér er um að ræða eins konar prufumál um viðhorfið til sveitanna og kaupstaðanna. Í 20 ár hefur öll þjóðir lagt á sig byrðar til þess að koma upp þjóðleikhúsi í Reykjavík, og öll þjóðin hefur verið skattlögð í aldarfjórðung til þess að unnt væri að koma upp leikhúsi handa mönnum, sem leika, og nú á að byrja að nota skemmtanaskattinn til byggingar leikhúsa og samkomuhúsa úti um land. Og ef menn líta á það, að stærsta vandamál þjóðarinnar er aðstreymið til Reykjavíkur og þar með blasir við eyðing landsins, þá svarar hæstv. menntmrh með því að festa helming skemmtanaskattssjóðsins í þjóðleikhúsinu, í stað þess að lyfta undir vanrækta staði úti á landsbyggðinni. Það er viðsjárvert af hv. þm. N-Ísf. að þakka þetta, er ríkisstj gerir enn meiri mun á milli Reykjavíkur og kaupstaðanna hinna. Það hefði afi hans ekki gert, má þakka fyrir það, sem er misgert.

Hér hefur fjármálahlið þessa máls verið rædd og er þá varla hægt að komast hjá því að taka þetta mál til frekari meðferðar.

Ég ætla fyrst að segja fáein orð um það, hvernig grundvöllurinn er undir þessu máli. Aðstaða áhugamanna í þessu máli er sú, að Reykjavík býr enn þá við Iðnó, sem var byggð um aldamót. Þegar svo farið var að bæta úr þessu, þá kemur upp hús í Reykjavík, sem ekki gekk betur með en svo, að l. um það voru samþ. 1923, en árið eftir kom fram af sparnaðarástæðum till. um það að taka hluta af þessu fé og nota það til annarra þarfa, en úr því varð þó ekki, því að þeir, sem stóðu að leikhúsinu. hindruðu það. Svo liðu nokkur ár, og 1932 var húsið gert fokhelt. Þá var skellt á l. um að taka hvern eyri af húsinu. En 1932–1940 var föðurlandið svo fátækt, að það var rætt um það að skila þessum peningum aftur. Þá var hæstv. núverandi menntmrh. fjmrh., og þá kom ekki fram hans áhugi.

Þegar svo Bretar komu 1940, sögðu þeir: Okkur vantar hús, hér er stórt hús, sem þjóðin hefur ekkert við að gera. Nú á að setja 40 fasta menn í húsið til þess að skemmta okkur hér í Reykjavík. Og nú verð ég að hryggja hæstv. kennslumrh. með því að segja honum, að fátæktin er ekki búin enn. Við höfum verið að basla við að halda áfram leikhúsbyggingunni nú í 3 ár, en annaðhvort vantað efni eða smiði og múrara, og þess vegna hefur verkið gengið seint. Nú er svo komið, að það er hugsanlegt, að byggingunni verði lokið á þessu ári. En hvernig haldið þið, að ástandið sé? Það þarf mjög mikið af aðfluttu efni til þess að ljúka við húsið. Við, sem erum í leikhúsn., erum búnir að elta ólar við gjaldeyrisn. í sumar og vetur og fengum síðast fyrir nokkrum vikum nokkurt gjaldeyrisleyfi, ekki þó fyrir öllu, sem þurfti. En hvernig er okkar aðstaða til að nota gjaldeyrinn? Það eru viss „partí“ viðvíkjandi byggingu leikhúsa, sem við höfum fengið send frá öðrum löndum í haust og ekki hafa verið innleyst enn sökum gjaldeyrisskorts. Ástandið er því þannig, að ef ekki kemur eitthvert óvænt happ fyrir, þá er ekki hægt að koma leikhúsinu áfram fyrir gjaldeyrisskorti.

Þegar maður nú lítur yfir þessa sorgarsögu leikhússins, þá segi ég: Eru nokkrar líkur til, að í framtíðinni verði bjartara en var 1924–1930, þegar menn vildu taka byggingarsjóðinn til annars, og bjartara en 1932–1944? Ég segi nei. Það er nú svartara útlit vegna þess, hvað dýrtíðin er miklu hærri en nokkurn tíma var á þessum árum.

Ég bjóst við því, að hæstv. menntmrh. mundi kannske sökum ókunnugleika í þessu máli lenda inn á þá braut að fara í fótspor fyrirrennara síns í þessu máli, og þess vegna gerði ég honum það til leiðbeiningar og öðrum þm. að flytja þáltill. fyrir nokkru með ýtarlegri grg., þar sem lögð er fram einfaldasta hliðin á þessu máli, og hún er þessi: Við getum ekki gengið inn á þessa braut nema móðga allt fólk utan Reykjavíkur. Þetta frv. er rekið fram af áhugamönnum hér í Reykjavík, sem ætla að fá atvinnu og vera á föstum launum. Þetta læt ég nægja viðvíkjandi þessu frv. Ég býst við því, að sú n., sem fær frv. til meðferðar, gerði rétt í því að athuga þetta dálítið betur.